Það hefur ríkt gríðarlega spenna í herbúðum Eurovision-aðdáenda fyrir næsta föstudegi. Ástæðan er sú að þá átti að opinbera í hvaða hollensku borg Eurovision-keppnin fer fram á næsta ári. Forsvarsmenn keppninnar hafa auglýst afhjúpunina, sem á að fara fram í hádeginu á föstudag, í gríð og erg á samfélagsmiðlum, en auglýsingunni fylgir að valið standi á milli Rotterdam og Maastricht.
Glöggir Eurovision-aðdáendur tóku hins vegar eftir því fyrir stundu að forsvarsmenn Eurovision virðast óvart hafa tilkynnt um hvaða borg yrði gestgjafi Eurovision á næsta ári. Á opinberri heimasíðu Eurovision var nefnilega að finna að Rotterdam yrði gestgjafinn árið 2020 ef farið var á undirsíðuna fyrir Holland, þar sem hægt er að kynna sér sögu landsins í keppninni. Búið er að eyða afhjúpuninni, tæplega klukkutíma eftir að Eurovision-aðdáendur tóku eftir henni.
AND I OOP pic.twitter.com/QILSouA622
— leo⛱ (@leowltrs) August 28, 2019
Svo virðist sem Twitter-notandinn leo hafi fyrstur tekið eftir þessari opinberun en íslenskir Eurovision-aðdáendur fylgdu fast á hæla hans á sérstakri aðdáendasíðu Eurovision á Facebook.
Því ríkir minni spenna núna fyrir föstudeginum en áður en Eurovision-aðdáendur gera bara góðlátlegt grín að þessu þjófstarti Hollendinga.
Eins og margir vita er keppnin haldin í Hollandi á næsta ári eftir frækinn sigur Duncan Laurance í maí með lagið Arcade.