fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Ritdómur um Það er alltaf eitthvað: Byrjendur en ekki viðvaningar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 12. ágúst 2019 16:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

12 höfundar

Útgefandi: Unuhús

278 bls.

Það er gömul saga og ný að ýmissa grasa kennir á borðum bókaverslana. Í bland við bækur frægra höfunda er ávallt að finna verk eftir óþekkta nýgræðinga. Bókakaupendur nálgast slík verk af ákveðinni varúð blandinni vinsemd. Í verkum óþekktra höfunda má gjarnan sjá skemmtileg tilþrif og sköpunarneista en oftast líka mörg mistök og viðvaningsleg vinnubrögð sem trufla lestrarupplifunina. Þegar margir óþekktir höfundar leggja saman í safnrit má vænta margra og margskonar brotalama.

Þetta er ekki tilfellið með smásagnasafnið Það er alltaf eitthvað. Í bókinni er að finna sögur eftir 12 höfunda, mislangar og mismargar eftir hvern og einn höfund. Í bókinni er ekki að finna neitt lélegt verk og öll útgáfan einkennist af fagmennsku, til dæmis er kápuhönnun smekkleg og varla er eina einustu ritvillu að finna í allri bókinni.

Ástæðan fyrir þessari fagmennsku allri er að verkið er afrakstur nemenda á Ritlistarbraut HÍ. Þar hafa höfundarnir lært handverkið, ekki bara sagnagerðina heldur líka að ganga faglega frá verkum til útgáfu.

Sögurnar bera vitni um mikla kunnáttu í smásagnagerð, uppbyggingu sagna og stílbrigðum. Athygli vekur hvað sögurnar eru fjölbreyttar að efni og formi þegar haft er í huga að hér eru nemendur frá einni og sömu ritlistarbrautinni og flestir ef ekki allir höfundarnir eru ungir að árum. Einhver kynni að vænta að safnrit úr þessum ranni gæti orðið einsleitt en svo er alls ekki. Hér er að finna raunsæisverk í bland við furðusögur, töfraraunsæi og heimspekilegar fantasíur. Þarna er til dæmis að finna sögu um örlög flóttamanna frá Afganistan, aðra sögu um miðaldra sendiherrafrú, auk sagna með efni sem kemur síður á óvart, þ.e. vináttu- og ástarflækjur íslenskra ungmenna.

Þetta eru samtals yfir 30 sögur. Eins og nærri má geta falla þær þessum lesanda misjafnlega í geð. Á meðan margir höfundar eru komnir býsna langt í að þróa stíl sinn eru aðrir nokkurn veg frá því að hafa öðlast sjálfstæða rödd. Þegar verst lætur bregður fyrir setningum sem einkennast af vanahugsun og klisjum. En þær eru fremur sjaldgæfar. Einstaka saga nær ekki að verða fullburða, eins og höfundur hafi jafnvel færst of mikið í fang og verið of upptekinn af því sem átti að komast til skila, svo það skilar sér ekki.

En flestar sögurnar eru miðlungi eða vel heppnaðar. Mig langar að staldra aðeins við það sem mér líkaði best í bókinni og er þá alls ekki upptalið allt sem vel er gert. Sagan Mávurinn eftir Einar Kára Jóhannsson er kannski besta verk bókarinnar. Afskaplega snjöll lýsing á stefnumóti ungrar nútímakonu við íslenska menningararfleið og leit hennar að menningarlegum rótum sínum. Sagan er ófyrisjáanleg og hlaðin dulmagni, stíllinn þroskaður, öruggur og myndrænn. Þessi saga þarf enga forgjöf byrjandans, hún myndi sóma sér í hvaða safnriti smásagna sem er.

Sagan Maðurinn í grænu úlpunni eftir Önnu Björg Siggeirsdóttur er heillandi tilvistarpæling um konu sem verður vitni að því að ókunnugur maður les óskrifaða ævisögu hennar upp úr bók. Sagan einkennist af einföldum, markvissum stíl, fallegum stílhreinum myndum og vel útfærðri hugmynd.

Á meðan sumir höfundar bjóða upp á svona djúpar tilvistarpælingar eru aðrir sem skrifa um veraldarvafstur venjulegs fólks og hafa þann hæfileika að vekja eftirvæntingu lesandans sem flettir forvitinn áfram. Með hnút í maganum eftir Rut Guðnadóttur er þannig saga. Þetta er frekar löng saga um framhjáhald og þungun, vel heppnuð og vel uppbyggð saga sem heldur manni við efnið.

Hið sama má segja um þrjár sögur eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Hún skrifar á ósköp látlausan og blátt áfram hátt um ástir og vináttu. Jóna er fæddur sögumaður, maður fær strax áhuga á persónum hennar. Hárfín uppbygging og jafnvægi einkennir sögur hennar og mann langar að lesa meira. Jóna er afar fær í þeirri list að segja hæfilega mikið og þegar hún fangar í einni setningu augnablikið þegar saklaus vinátta tveggja barna er fyrir bí þá er náttúra unglingsáranna gerir vart við sig blasir við lesanda að hér hefur stigið fram sögumaður með mikla hæfileika.

Ritlistarnám við Háskóla Íslands hefur þegar skilað frá sér spennandi ungum höfundum sem eru búnir að skapa sér nafn í íslenskum bókmenntaheimi. Í þessari bók er að finna marga í viðbót sem hæglega gætu átt eftir að láta mikið að sér kveða. Það fer allt eftir því hvað þeir treysta sér að leggja mikið púður í skáldskapinn í heimi þar sem draumurinn um að helga sig ritstörfum verður sífellt fjarlægari.

Ég hvet alla sem hafa áhuga á góðum sögum að huga að þessari bók – Það er alltaf eitthvað. Höfundarnir eru kannski byrjendur en þeir eru ekki viðvaningar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur