Tónlistarmaðurinn geðþekki Ed Sheeran er stiginn á stokk á Laugardalsvelli. Gífurlegur fjöldi aðdáenda er þar staddur og náði röðin inn á Laugardalsvöll á tímabili alla leið upp í Glæsibæ, mörgum hverjum til lítillar gleði. Skipuleggjendur tónleikanna segja lengd raðarinnar og tafirnar sem henni fylgdi eiga rætur að rekja til hjarðhegðunar Íslendinga, en raðirnar voru þrjár og merktar skilmerkilega en eftir sem áður stilltu gestir sér upp í einfalda röð sem er talin lengst hafa náð rúmlega 1,5 kílómetra.
Röð frá Glæsibæ á Ed Sheeran 🙂 Gott að vera með birgðir á meðan og Ölver beint við hliðina….. #röðin pic.twitter.com/UNUEcnWe6d
— Steingrímur Sævarr Ólafsson (@frettir) August 10, 2019
Öryggisverðir drógu úr aðgangskröfum þegar líða fór að því að Ed stigi á svið og gekk þá röðin nokkuð hraðar. Nú er Ed Sheeran byrjaður og má heyra í víða í Reykjavík, jafnvel alla leið upp í Kópavog. Þó mun besta stemmingin að sjálfsögðu vera á Laugardalsvellinum þar sem aðdáendur standa margir með stjörnur í augunum og jafnvel tár á hvarmi.
Hér að neðan má sjá myndirnar sem Eyþór Árnason, ljósmyndari DV, tók í kvöld.