Framleiðandinn Margrét Hrafnsdóttir kemur að gerð heimildamyndarinnar House of Cardin, sem frumsýnd verður á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum sem fer fram í lok ágúst og byrjun september. Myndin fjallar um franska fatahönnuðinn Pierre Cardin, en það má með sanni segja að stórskotaliðið í tískubransanum komi fram í myndinni, svo sem Naomi Campbell og Jean-Paul Gaultier og listafólk á borð við Sharon Stone og Alice Cooper. „Það er búið að vera einstaklega skemmtilegt að vinna að þessari mynd um Pierre Cardin, enda maðurinn goðsögn í lifanda lífi og lítið mál að fá til liðs við okkur aðrar goðsagnir til að fjalla um hann,“ skrifar Margrét á Facebook, en hún er ein af tíu framleiðendum myndarinnar.