Kolbeinn Þór Kolbeinsson setti sér það markmið fyrir sumarið 2019 að ganga hringveginn á 30 dögum. Hann ákvað að nýta ferðina til góðs og styrkja gott málefni um leið og urðu Samferða góðgerðarsamtök fyrir valinu.
„Ég var mótiveraður af því að fylgjast með þeim einstaklingum sem hafa verið að ganga suðurskautið og annað og hlusta á viðtöl við þá,“ segir Kolbeinn, sem verður 22 ára í september, en þegar blaðamaður hringir í Kolbein er hann að nálgast Egilsstaði.
Kolbeinn lagði af stað 1. júlí og hyggst ganga hringveginn á 30 dögum. „Ég fór norðurleiðina, þetta er búið að ganga mjög vel. Það var einn dagur sem ég gat ekki gengið, þar sem ég var kominn með svo miklar blöðrur undir fæturnar og gat ekki stigið niður. Ég hef náð að halda mig við áætlun sem er 45 kílómetrar á dag.
Ég hef aldrei gert neitt svona áður og er aðallega að ganga hringinn fyrir sjálfan mig og ákvað síðan að styrkja einhver góðgerðarsamtök í leiðinni. Ég leitaði að góðgerðarsamtökum á netinu og Samferða kom upp og mér leist vel á það félag. Mér finnst flott hvernig þau vinna,“ segir Kolbeinn, sem segist ekki þekkja neinn sem notið hefur styrkja frá Samferða.
Kolbeinn er ekki óvanur því að hreyfa sig, hann er að æfa amerískan fótbolta og æfði fimleika frá tíu ára aldri og var í landsliðinu í hópfimleikum árið 2014. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Garðabæjar árið 2017 og vinnur í dag á lagernum hjá Tengi.
https://www.instagram.com/p/BzHEIKag3j0/
„Það fer allt sumarfríið mitt í gönguna,“ segir Kolbeinn. „Ég fer á þjóðhátíð,“ bætir hann við aðspurður hvort hann ætli að verðlauna sig að göngu lokinni.
Veðrið hefur svo sannarlega leikið við Kolbein á göngunni. „Ég hef verið heppinn með veður, hef fengið 2–3 rigningardaga,“ segir hann, og bætir við að hann gisti aðallega í tjaldi en njóti þess þegar hann kemur í bæi að gista á hóteli.
Er fólk ekkert að stoppa fyrir þér og bjóða þér far?
„Jú, og það er freistandi að þiggja farið, en maður verður að sleppa því.“
Þar sem áætlunin er stíf segist Kolbeinn ekki ná að njóta margs á göngunni eða hafi tíma til að skoða landið. „Þetta er svo mikið að ég er eiginlega bara að ganga og sofa, ganga og sofa.
Það hafa allir tekið mér mjög vel og það sýna mér allir mjög mikinn stuðning, ég held að ég sé kominn með um 200 þúsund í styrki sem er bara geggjað, ég er að vonast til að safna 300 þúsundum.“
Fylgjast má með Kolbeini á Instagram: kollihawt og á hringferdin.com.
Viljir þú styrkja Kolbein og Samferða þá er reikningur 0370-13-005770 og kennitala 2409972079.
Samferða góðgerðarsamtök voru stofnuð í nóvember 2016 og eru fimm einstaklingar sem skipa stjórn samtakanna. „Við í stjórninni deilum sömu áherslum og framtíðarsýn, það er að við vinnum af hugsjón í 100 prósent sjálfboðaliðavinnu. Engin yfirbygging eða kostnaður, hver einasta króna fer á þann stað sem hún á að fara á. Deloitte sér til þess að allt bókhald sé til fyrirmyndar og uppi á borðinu,“ segir Rútur Snorrason.
Stjórn samtakanna hittist í hverjum mánuði og úthlutar styrkjum til fólks sem henni berast góðar ábendingar um. Bæði þar sem langveik börn eiga í hlut og svo fólk á öllum aldri sem er að glíma við lífsógnandi sjúkdóma. Mest er þetta unnið eftir ábendingum frá fólki um land allt og einnig frá Ragnheiði hjá Krafti (ungt fólk með krabbamein), Ljósinu og Krabbameinsfélaginu, svo eitthvað sé nefnt. Sú breyting varð á í ár að aðeins verður tekið á móti ábendingum og þeir einir munu fá styrk sem hafa ekki fengið styrk áður frá Samferða. Samferða er á Facebook: Samferða góðgerðarsamtök og tekið er á móti öllum góðum ábendingum á netfangi Samferða: godgerdarsamtokin@gmail.com.
„Markmið okkar er og verður að gera þau atriði og þá þætti, er snúa að góðgerðarmálum, rétt og vel. Í leiðinni skapa trú og traust almennings í landinu á okkar starfi, því ekki er vanþörf á. Umfram allt – hjálpa og aðstoða þá er minna mega sín, sem því miður er svo sannarlega ábótavant um allt land.“