fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Hrafna slær í gegn á YouTube: „Skil ekki alveg hvernig yfir hundrað þúsund manns nenna að horfa á mig“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 11. júlí 2019 20:00

Hrafna. Mynd: Úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrafnhildur Rafnsdóttir heldur úti gríðarlega vinsælli YouTube-rás með yfir hundrað þúsund áskrifendur.  Hún gerir myndbönd um Ísland og íslensku og hefur nýjasta myndband hennar fengið rúmlega 240 þúsund áhorf. Tvö myndbanda hennar hafa fengið yfir milljón áhorf.

Hrafnhildur notar nafnið Hrafna á YouTube. En hver er Hrafna?

Við fengum að kynnast henni betur og forvitnast um hvernig henni tókst að koma sér á þann stað sem hún er á í dag.

Hrafna. Mynd: Úr einkasafni

Hrafnhildur Rafnsdóttir er 21 árs og úr Hafnarfirðinum. Hún er að læra bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands og stefnir á útskrift næsta vor. Hún æfir bæði CrossFit og Taekwondo, en hefur æft síðari íþróttina síðan hún var níu ára gömul.

„Ég er algjör orkubolti og finnst ótrúlega gaman að hreyfa mig,“ segir Hrafnhildur.

„Ég elska að lesa og skrifa, ég er með virkilega stórt og mikið ímyndunarafl en minn helsti draumur er að verða rithöfundur og/eða handritshöfundur“

Yfir 100 þúsund áskrifendur

YouTube-rás Hrafnhildar nýtur mikilla vinsælda og er með rúmlega 108 þúsund fylgjendur.

„Ef ég á að segja eins er þá skil ég ekki alveg hvernig yfir hundrað þúsund manns nenna að horfa á mig. Þetta snýst fyrst og fremst um dugnað, þolinmæði og heppni,“ segir Hrafnhildur og rifjar upp hvernig þetta ævintýri byrjaði.

„Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að föndra og þar hófst YouTube ferillinn minn. Ég settist bara niður einn dag árið 2013 og föndraði fyrir framan myndavél. Ég sýndi ekki einu sinni andlitið á mér. Ég hlóð þessum myndböndum upp og spáði ekkert í tölunum fyrr en ég var komin með um 10 þúsund fylgjendur en þá byrjaði ég loksins að sýna á mér andlitið en að einhverjum ástæðum skammaðist ég mín fyrir myndböndin mín og vildi ekki að neinn myndi komast að því hver ég væri. Ég fann upp á dulnefninu Cassidy og kallaði mig það í dágóðan tíma svo að engin myndi vita að ég væri Íslendingur. Ég byrjaði svo aðeins að opna mig á YouTube og fór að gera aðeins persónulegri myndbönd til dæmis förðunarmyndbönd og myndbönd um þyngdartapið mitt,“ segir Hrafnhildur.

Leyndarmálið afhjúpað

Árið 2015 deildi Hrafnhildur myndbandinu „My weight loss story“ þar sem hún sagði frá þyngdartapi sínu. Myndbandið sló í gegn og er með um 850 þúsund áhorf í dag. Í kjölfarið fór hún að stækka mjög hratt á YouTube.

„En það hræddi mig mjög mikið því þetta átti alltaf bara að vera litla leyndarmálið mitt. Í dag er ég með tvö myndbönd sem eru með yfir milljón áhorf. Fólk fór að komast að því að ég væri Íslendingur og ég fríkaði alltaf út þegar Íslendingar komu upp að mér til að hrósa myndböndunum mínum. En í dag þykir mér ótrúlega vænt um það,“ segir Hrafnhildur.

„Ég hélt áfram að stækka á YouTube og þegar ég var komin í sirka 60 þúsund áskrifendur tók ég mér langa pásu frá Youtube. Ég var ekki alveg tilbúin í þetta ferli á þeim tíma og ég vissi ekki alveg hvernig myndbönd ég vildi eða ætti að gera,“ segir Hrafnhildur.

Steig fram sem Hrafna

Í fyrra skrifaði hún fyrir Áttan.is og í kjölfarið jókst sjálfstraust hennar. „Ég tók loksins þá ákvörðun að stíga fram sem Hrafna og skilja við dulnefnið „Cassidy“. Ég hlóð upp myndbandi þar sem ég sagði loksins mitt raunverulega nafn og sagðist vera Íslendingur, ég breytti svo nafninu á rásinni minni í „Hrafna,““ segir Hrafnhildur.

Hún segir að forvitnin hafi ekki leynt sér meðal áhorfenda.

„Margir urðu ekkert smá forvitnir um Ísland, enda ekki til mikið af íslenskum YouTuberum. Ég tók á skarið og ákvað að svara öllum þeim spurningum sem ég fékk um Ísland og hlóð upp myndbandi,“ segir Hrafnhildur og heldur áfram.

„Það myndband fékk mjög mikið af áhorfum en ég bjóst alls ekki við því. Ég ákvað að breyta mínum helsta ótta í styrkleikann minn og hélt áfram að gera myndbönd um Ísland. Í dag geri ég aðallega myndbönd um Ísland en mér finnst ótrúlega gaman að segja frá lífinu mínu á Íslandi, kenna íslensku og fræða fólk, þá sérstaklega ferðamenn sem eru á leiðinni til Íslands.“

Jákvæð viðbrögð

Hrafnhildur segist fá ótrúlega jákvæð viðbrögð frá fólki, bæði erlendis og á Íslandi. „Það koma auðvitað alltaf neikvæð komment inn á milli en mér finnst ég vera rosalega heppin með áhorfendur sérstaklega þá íslensku,“ segir hún.

Eins og fyrr segir var Hrafnhildur mjög feimin með YouTube-rásina sína og vildi ekki að neinn vissi af henni.

Ég sagði hvorki fjölskyldu minni né vinum frá henni. Ég held að mamma og pabbi fundu hana óvart þegar ég var komin með kannski 20-30 þúsund fylgjendur. Það sama á við vini mína, eitt og eitt komust þau að þessu og auðvitað spurðu þau mig um þetta en mér fannst þetta bara hrikalega óþægilegt þá. Í dag eru allir í kringum mig ekkert smá hvetjandi og mér finnst það náttúrulega bara yndislegt. Það er svo gaman að sjá hvað mamma og pabbi eru stolt af mér og auðvitað vinir mínir líka. Í dag finnst mér ekkert mál að ræða um YouTube við mína nánustu og finnst í rauninni bara gaman þegar fólk spyr spurninga eða hrósar mér,“ segir hún.

Hrafna. Mynd: Úr einkasafni

Mikill áhugi á Íslandi

Mikill áhugi er á Íslandi frá erlendu fólki að sögn Hrafnhildar. „Mun meiri en ég gat nokkurn tímann dottið í hug. Ég átti alls ekki von á því að mörg áhorf á myndböndin mín um Ísland en þegar ég hugsa um það þá eru ekkert smá margir að ferðast til Íslands en það er lítið af upplýsingum til sem kemur beint frá Íslendingi ekki bara erlendu ferðarbloggi,“ segir Hrafnhildur.

„Fólk hefur mikinn áhuga á íslensku og það eru ekkert smá margir að læra íslensku sér til gamans en ég veit ekki um neina aðra íslenska youtubera sem kenna íslensku. Ég fæ þakkir og kveðjur daglega frá fólki sem hefur dreymt um að læra íslensku í mörg ár en hefur aldrei komið sér í það því það eru ekki mikið af kennsluefni á netinu, að minnsta kosti ekki í töluðu máli. Ég er nú enginn snillingur í íslensku en ég reyni mitt besta. Svo finnst fólki líka rosalega gaman að hlusta á mig tala íslensku enda ótrúlega fallegt og einstakt tungumál.“

Fær tekjur af YouTube

Hrafnhildur fær tekjur frá YouTube en þegar fólk fer yfir ákveðinn áskriftarfjölda er hægt að fá auglýsingar á myndböndin og fá þannig tekjur. Nóg er að gera hjá Hrafnhildi, en hún er ekki aðeins að sinna YouTube.

„Ég er í 50 prósent vinnu og ég myndi segja að YouTube sé hin 50 prósent. Svo er ég auðvitað líka í fullu háskólanámi. Hins vegar með réttum styrktaraðilum væri mjög auðvelt fyrir mig að gera YouTube að 100 prósent vinnu. En það er auðvitað mikil vinna að halda upp YouTube rás,“ segir Hrafnhildur og fer nánar út í hvað felst í að gera myndbönd á YouTube.

„Það tekur mig rúmlega 3-4 tíma að klippa eitt myndband svo er ég í stöðugum samskiptum í kommentakerfinu og á Instagram aðganginum mínum. Ég er mjög spennt fyrir því að vinna með flottum fyrirtækjum og ég er alltaf mjög opin með það. Fyrirtæki koma oftast til mín en það er auðvitað ég sem ræð hverjum ég vil og vil ekki vinna með.“

Lært að taka gagnrýni

Í gegnum allt þetta ferli hefur Hrafnhildur lært ýmislegt en allra helst að taka gagnrýni.

„Neikvæð ummæli eru óumflýjanleg á YouTube en ég þarf stundum bara að læra að kyngja stoltinu og blokka manneskjuna. Ég hef líka lært að ég á fullan rétt á því að vera ég sjálf, ég á aldrei að skammast mín fyrir eitthvað sem ég er stolt af. Hugsanir annara á ekki að hafa áhrif á mín líðan, ef ég er glöð þá er allt tipp topp og eins og það á að vera,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar