Lúsmý er mikil plága sem fyrst lét á sér kræla á Íslandi fyrir fjórum árum. Má segja að mýið hafi komið aftan að Íslendingum, en fyrstu fréttir af lúsmý fyrir fjórum árum voru harla dularfullar. Þá var greint frá undarlegum atburðum í sumarhúsum beggja vegna Hvalfjarðar þar sem gestir voru illa út leiknir. Í fyrstu var ekki vitað hver sökudólgurinn væri en seinna kom í ljós að þar var lúsmý að verki.
Lúsmý eru örsmáar flugur, aðeins um 1,5 millimetrar. Þetta eru blóðsugur sem nærast á öðrum smádýrum, en margir telja að bit lúsmýs séu verri en moskítóbit. Lítið er vitað um útbreiðslu lúsmýs á Íslandi. Þessar skæðu flugur virðast halda sig að mestu á Suðvestur- og Vesturlandi og í fyrra gerðu þær íbúum á höfuðborgarsvæðinu lífið leitt. Fjölmiðlakonan Hildu Helga Sigurðardóttir greindi nýverið frá því á Facebook að lúsmý væri farið að herja á íbúa í Hveragerði og þá kvörtuðu tónlistarmennirnir Karl Tómasson og Bubbi Morthens, sem búa báðir við Meðafellsvatn, undan bitum flugunnar.
Flugan er skæð og fer undir fatnað til að bíta og hefur fólk þurft að leita sér aðstoðar á heilsugæslu vegna ofnæmisviðbragða. Bólgan sem fylgir varir í nokkra daga. Best er að hreinsa bit með spritti eða kæla það, en nokkrir dagar geta liðið áður en bitin koma fram. Bitin valda gríðarlega miklum kláða og óþægindum.
Skordýrafræðingurinn Erling Ólafsson lumar á skotheldu ráði til að glíma við þennan vágest. Þar spilar kolagrill stórt hlutverk en aðferðina má lesa hér fyrir neðan:
Leggið kol í hring á grillinu, en gætið þess að loka ekki hringnum. Kolunum er raðað í tvöfalda röð, á tveimur hæðum. Kveikið í öðrum enda kolaskeifunnar, kolin kveikja síðan hvert í öðru og halda grillinu heitu alla nóttina. (Sjá mynd.)
Lokið efra spjaldinu á grillinu en hafið neðra spjaldið hálfopið.
Smyrjið lokið að utan með matarolíu.
Leggið lokið á grillið og leyfið mýinu að flykkjast að. (Sjá mynd.)
Best er sagt að nota þessa aðferð að næturlagi, í logni og þurrki.
Þá sagði Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur, í samtali við RÚV á dögunum að vifta gæti verið öflugt vopn í stríðinu gegn lúsmý.
„Það eru tvær leiðir, vera með góða viftu í herberginu þannig að loftið sé á hreyfingu því þá eiga þær erfiðara með að bíta. Einhverjir setja viftuna út í glugga og láta hana blása út um gluggann og svo er líka hægt að sofa dúðaður, þá komast þær ekki að, því þær verða að bíta á bert hörund,“ sagði hún.