Heimsfrægi enski plötusnúðurinn Jonas Blue var að bætast við dagskrá tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice sem fram fer 21. – 23. júní í Laugardalnum.
Blue kemur í staðinn fyrir hollenska plötusnúðinn Martin Garrix, sem átti að koma fram á Secret Solstice. Garrix varð hins vegar að aflýsa öllum tónleikaferðalögum sínum næstu mánuði eftir að hann ökklabrotnaði í Las Vegas í byrjun júní.
Blue er sem stendur númer 55 í heiminum af öllum tónlistarmönnum á Spotify, með um 27 milljón hlustanir á mánuði. Hann gaf út plötuna Blue í lok síðasta árs, sem sló rækilega í gegn, og hafa lög eins og Perfect Strangers og Rise hljómað á skemmtistöðum landsins.
Blue hefur fimm sinnum verið tilnefndur fyrir lag og tónlistarmyndband ársins á Brit Awards og einnig hjá MTV Europe Awards. Hann hefur spilað á mörgum af þekktustu tónlistarhátíðum heims eins og Tomorrowland og spilaði á undan úrslitaleik Chelsea ogArsenal í Evrópudeild knattspyrnu karla í Bakú í Aserbaídsjan í maí. Blue hefur vakið heimsathygli fyrir stíl sinn, sem þykir minna á sumar og sælu, og má þar nefna hans útgáfu af lagi Tracy Chapman, Fast car.
Secret Solstice gaf í dag út app þar sem hægt verður að nálgast heildardagskrá ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum tengdum hátíðinni.