Frímann Andrésson byrjaði ungur að vinna við útfarir og það sem átti aðeins að vera sumarstarf varð að ævistarfi hans. Þrátt fyrir að hann segist hafa verið stefnulaus sem ungur maður er ljóst að rauði þráðurinn í störfum hans hefur ætíð verið að hjálpa fólki, jafnt í gleði sem á sorgarstundum.
Blaðamaður settist í sófann með Frímanni hjá Útfararþjónustu Frímanns og Hálfdáns í Hafnarfirði, þar sem Frímann tekur á móti aðstandendum og leiðbeinir þeim um hinstu stund ástvina þeirra; hvenær, hvar og hvernig útför mun fara fram.
Þetta er hluti af stærra viðtali í helgarblaði DV.
Samskipti við aðstandendur bæði það besta og erfiðasta við starfið
„Að vera í hlutverki þess sem aðstoðar fólk er það besta við starfið og fólk er í langflestum tilvikum þakklátt fyrir það sem maður er að gera. Á sama tíma er erfiðast að sitja með aðstandendum sem eiga mjög erfitt. Það reynist fólki mjög erfitt þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, vegna sjálfsvíga eða ung börn. Fólk á að geta lifað háan aldur og dáið en því miður er það ekki alltaf þannig, það gerist bara og þannig er lífið. Maður er stundum berskjaldaður og mismunandi hvað viðtöl taka á mann, en ég held maður ætti að skipta um starf þegar maður situr með grátandi fólki og það snertir ekkert við manni. Maður getur þurft að kyngja í viðtölum svo lítið beri á.“
Starfið hlýtur oft að reyna á andlegu hliðina, hvað gerir þú helst til að kúpla þig frá vinnunni?
„Ég labba á fjöll og geri það oftast einn, ég þoli ekki íþróttastöðvar. Svo slappa ég rosalega vel af með að liggja heima í sófa og horfa á sjónvarpið, ég er yfirlýstur sjónvarpssjúklingur! Stundum stend ég mig að því að hafa verið bara inni í náttfötunum, gott veður úti og maður fær pínu samviskubit, ég verð að venja mig af því.“