Tónlistarmaðurinn Love Guru gaf í gær út nýtt lag, sannkallaðan sumarsmell, Lífið er ljúft. Honum til aðstoðar er kvennastuðgríndúettinn Bergmál og má finna lagið á Spotify, alls sex mix af laginu.
„Lagið átti fyrst að vera óður til markahróksins Tryggva Guðmundssonar og voru fyrstu drög lagsins samin þegar Tryggvi sló markametið í efstu deild á Íslandi, fyrir einhverjum sjö árum eða svo,“ segir Þórður Helgi Þórðarson, best þekktur sem Doddi litli. „Ekkert varð úr því og var lagið hirt aftur upp úr skúffunni tveimur árum síðar þegar planið var að nota að sem sumarsmell útvarpsþáttarins Hansastél sem Þórður Helgi og Salka Sól stjórnuðu.“
Aftur varð lítið úr og lagðist þá smellurinn í dvala í önnur tvö ár þegar ákveðið var að gefa hinni kynþokkafullu fitubollu, Love Guru lagið.
Lagið átti fyrst að koma út 2014 en bollan var ekki sátt með útsetninguna svo það fékk að kíkja í skúffuna yfir veturinn en átti heldur betur að slá í gegn sumarið 2015, gekk ekki, sömu sögu má segja um 2016, 2017 og 2018. Sá Guli var ekki nógu sáttur með útkomuna.
Nú fjórum upptökustjórum og átta remixurum síðar er hann tilbúinn að hleypa laginu út í sólina.
Bergmál stúlkurnar hafa áður sungið með Love Guru en þær tóku þátt í ætluðu dansæði Jackinu fyrir nokkrum árum en það æði hefur aðeins látið standa á sér.
9. júní mun Love Guru koma fram á Kótelettunni á Selfossi í áttunda skipti (enda einn af dáðustu sonum Selfoss) og ætlar hann að nota tækifærið og gefa út brakandi nýja plötu á Spotify þann dag, „Dansaðu fíflið þitt, Dansaðu!“
Á plötunni má finna nokkra smella sem hafa komið út hin síðari ár og nokkur ný lög.
Margir merkilegir og góðir gestir koma fram á plötunni: Biggi Veira úr GusGus aðstoðaði bolluna með taktinn í einu lagi, Helgi Sæmundur úr Úlfi Úlfi gerði sexy takt fyrir hann rétt eins og Addi ofar. Þá eru margir frábærir gestir sem aðstoða við söng og rapp á plötunni, má þar nefna: Unu Stef, Felix Bergsson, Karitas Hörpu, Evu Maríu Glimmer, Cell7, Steinar Fjeldsted, Bergmál, Eirík Guðmundsson, Maya Miko og Lísu Einars.
Síðar í sumar kemur svo remix platan Dansaðu meira…. Fíflið þitt (The Remix Album)
„Sú plata kemur til með að aðstoða við danskennslu næstu ár í öllum helstu dansskólum landsins,“ segir Love Guru eldhress og gulur í sumarblíðunni.