fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Á mótorfákum um Mexíkó – Flúraðir og flottir Íslendingar í klúbbnum Pyratez

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 1. júní 2019 11:00

Sæla og sól Strákarnir á bæjarskilti San Felipe.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnold Bryan Cruz byrjaði snemma að grúska í mótorhjólum og keypti fyrsta mótorhjólið fyrir fermingarpeningana sína. Hann er einn stofnenda mótorhjólaklúbbsins Pyratez í Bandaríkjunum og á Íslandi og hann og fimm félagar hans eru nýkomnir heim frá Mexíkó þar sem þeir fóru á El Diablo Run í annað sinn. Arnold segir félagsskapinn einkennast af vináttu, samheldni og virðingu.

Arnold fékk mjög snemma áhuga á mótorhjólum. „Ég var byrjaður 11 ára að laga reiðhjól fyrir aðra krakka í blokkinni. Síðan fór ég 14 ára og sótti fermingarpeningana mína upp í skáp og keypti tvö mótorhjól í pörtum, annað þeirra rétt hékk saman. Mamma varð alveg brjáluð.“

Mótorhjólaáhuginn tók því við af boltanum, en Arnold hafði stundað bæði handbolta og fótbolta, og lá hann flest kvöld undir hjólum við að laga, gera og græja og lærði af því. „Sonur minn sem er 18 ára er farinn að geta gert ótrúlegustu hluti af því að það er hægt að fletta öllu upp á YouTube. Ég var með eina bók og svo gerði maður eitthvað og það virkaði eða ekki. Ef það virkaði ekki þá bara byrjaði maður upp á nýtt.“

Arnold á hjólinu í Mexíkó
Mynd: Instagram.

Árið 2007, þegar Arnold var búsettur í Los Angeles, kynntist hann Rick Mitchell, öðrum áhugamanni um mótorhjól, og klúbburinn Pyratez varð til úti. „Rick er núna höfuð og herðar klúbbsins úti,“ segir Arnold og útskýrir að uppfylla þurfi ákveðnar reglur og lög til að mega stofna nýjan klúbb.

„Þú getur í raun ekki, hvort sem er hér heima eða í Evrópu eða Bandaríkjunum, bara ákveðið að stofna klúbb og sett merkið á bakið á þér, það er ákveðið klúbbasamfélag á viðkomandi svæði sem þú þarft að kynnast og kynna þig fyrir, sýna samfélaginu og meðlimum þess virðingu. Þannig öðlast þú virðingu til baka.

Þaktir flúrum
Birgir og Arnold vel flúraðir á leið í nýtt flúr.

Bræðralag vináttu, trausts og virðingar

„Þegar ég flutti heim árið 2009 átti ég fullt af mótorhjólavinum hér heima og við bara hóuðum okkur saman og létum slag standa, skoðuðum klúbba hér heima, þekktum suma þeirra og aðra ekki,“ segir Arnold og MC Pyratez varð að veruleika á Íslandi líka.

„Við erum 16 meðlimir í dag með flott klúbbhús uppi á Ásbrú, við erum allir fjölskyldumenn í vinnu, alls konar störfum, við mætum þarna stundum á kvöldin og grillum fyrir börnin okkar. Við erum með stórt verkstæði, sófa með Playstation, pílukast, poolborð og alls konar skemmtilegt, fundarherbergi, útikamínu, grill og fleira.

Klúbburinn er byggður þannig upp að við veljum stráka sem passa inn í hópinn, þetta er bræðralag og það er ákveðið ferli í að komast inn og vera með. Það er alla vega 12 mánaða ferli að fá að komast inn. Það er betra að hafa fáa og góða félaga en marga,“ segir Arnold. „Þegar ég stofnaði klúbbinn árið 2009 voru í honum strákar sem ég þekkti mjög vel, síðan meðan ég bý úti heldur hópurinn áfram að stækka og inn koma strákar sem ég kynntist ekki almennilega fyrr en árið 2017 þegar ég er fluttur aftur heim. Ég treysti hins vegar hinum til að velja inn nýliða sem var hægt að treysta.

Við viljum vera klúbbur sem gott orð fer af. Við erum með reglur sem segja hvernig við eigum að vera og ekki vera og ef einhver okkar sýnir af sér ósæmilega hegðun, hvort sem hann er með merkið á bakinu eða ekki, þá snertir það okkur alla.

„Í fréttum ber mest á þessum 1–2% sem eru til vandræða. Hérna heima er mjög heilbrigð hugsun í samfélaginu, erlendis finnst fólki allt í lagi að vera hlífalausir, fá sér 2–3 bjóra, jafnvel meira, og keyra svo, hjólafólk hér myndi aldrei gera þetta. Allir klúbbarnir eru með samneyti sín á milli, hver og einn heldur til dæmis einn viðburð á ári, opið hús eða annað þar sem allir aðrir klúbbar eru velkomnir. Þegar annar klúbbur er að gera eitthvað þá mætir maður til að sýna stuðning og kynnast, hvort sem um er að ræða grill, fjölskylduhátíð eða annað.“

Klúbbarnir sameinaðir
Strákarnir í klúbbunum tveimur.
Fjör í Mexíkó Stemningin var góð hjá Arnold og félögum. Mynd: Instagram

„El Diablo Run er það skemmtilegasta sem ég hef gert“

Árið 2017 fóru Arnold og vinur hans og klúbbfélagi, Birgir Axelsson, saman á viðburð í Mexíkó sem heitir El Diablo Run. Viðburðurinn er haldinn annað hvert ár af fyrirtæki sem heitir Biltwell Inc. og selur alls konar íhluti og varahluti fyrir mótorhjól. Í ár fóru þeir aftur, ásamt fjórum félögum í klúbbnum hér heima og nokkrum í klúbbnum í Los Angeles.

„Það eru svona 500–600 manns sem mæta á hjólum, þetta er lítill viðburður en það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þegar við fórum í fyrra skiptið vissum við í raun ekkert hvað við vorum að fara út í,“ segir Arnold. „Þetta er haldið í litlum strandbæ, San Felipe, í Mexíkóflóanum og þetta er öðruvísi en margir stærri viðburðir, það er enginn að reyna að selja þér neitt, allir eru skemmtilegir og kammó, enginn eitthvað „fancy“. Sumir koma með 20 dollara fyrir nokkrum bjórum og sofa í tjaldi á ströndinni og jafnvel ekki í tjaldi. Á malarplani er útbúin lítil keppnisbraut, sem kallast Circle of Death, brautin er meira fyrir dirtbike, en þarna eru þeir að koma á Harley-hjólunum og detta. Þetta er bara fyndið og skemmtilegt, þetta er pínu sama vinalega stemning og er á Eistnaflugi. Þú kemur þarna til að horfa á hina, hafa gaman og vera með.

Hringur dauðans (Circle of Death) Þar sem mótorhjólakappar koma saman, verður að vera kappbraut.
Hringur dauðans (Circle of Death) Þar sem mótorhjólakappar koma saman, verður að vera kappbraut.

Strákarnir leigðu sér hjól úti og fengu stór og vegleg hjól, töluvert nútímalegri en margir aðrir mættu á. Á fimmtudegi voru hjólin sótt og hjólað um Los Angeles. „Það er nauðsynlegt að kynnast hjólunum, umferðinni, vegakerfinu og þeim reglum sem gilda þarna. Í LA má „lane sharea“,  það er að  keyra á milli bíla, sem kemur sér vel í mikilli umferð og gaman að sjá hversu flestir sýna manni mikla tillitssemi og færa sig þannig að þú komist leiðar þinnar fyrr og örugglega, þó með undantekningum,“ segir Birgir Axelsson.

„Seinna á fimmtudegi var hist á House of Machines í miðbæ LA, flottur staður, og héldum við smá kveðjupartí með vinum klúbbsins. Og þess má geta að einkunnarrorð staðarins eru „Dont Be A Dick“ sem hljómar kunnuglega,“ segir Birgir, sem er einn eigenda rokkhátíðarinnar Eistnaflug, þar sem einkunnarorðin eru „Ekki vera fáviti“.

„Á föstudeginum var mæting eldsnemma við Starbucks-stað í Burbank þar sem hópurinn hittist, við frá Íslandi, Rick og Chris frá LA-hópnum ásamt þeim Nick Baranov úr hljómsveitinni Rattlehead og hinn Nick sem slógust í för með okkur er þeir fréttu að við værum að fara ásamt Melanie Ladish og annarri vinkonu sem komu á „chase vagon“ á eftir okkur með vistir og annað ef eitthvað skyldi koma upp á.  Það er ekkert verra að vera fleiri en færri þegar farið er í svona  ferð, sérstaklega þar sem Mexíkó er kannski pínu óútreiknanlegt svæði en á sama tíma þá er þetta krefjandi ferð. Hættuleg umferð, mikill hraði og því nauðsynlegt að menn séu vanir hjólarar og kunni að hjóla í hóp. Rick leiddi hópinn, fór yfir reglur hópkeyrslunnar, hvert yrði farið, hvaða leið og svo framvegis.

Því næst lá leiðin beint út á næstu hraðbraut og brunað í átt að Calexico þar sem var stoppað í hádegismat og til að kaupa mexíkóska tryggingu sem er nauðsynlegt að gera áður en þú ferð yfir landamærin, Við erum á dýrum hjólum og allt getur gerst.

Mexíkó fram undan
Hópurinn að koma að landamærum Mexíkó.
Mynd: Melanie Ladish

Landamæraeftirlit inn í  Mexíkó er ekki merkilegt og flestir fara þar inn án þess að þurfa að stoppa mikið, hvað þá að sýna einhverja pappíra, og því er bara brunað þar í gegn, stuttu seinna er farið í gegnum hereftirlit og þar getur allt gerst en við fengum að bruna þar yfir líka. Þegar framhjá því er komið blasir bara við íslenskur þjóðvegur eins langt og augað eygir, þurrt sólríkt veðurfar, ryk og eyðimörk, ásamt fallegum rauðgulum bergklettum og kaktusum sem yndislegt er að hjóla í.  Þar slaknar á stressinu eftir borgartraffíkina og cruise controlið sett á, maður kemur sér þægilega fyrir á hjólinu og finnur vindinn leika um sig í þessu framandi landslagi og stefnan sett á San Felipe og vorum við komnir þangað um það leyti sem sólin var að setjast,“ segir Birgir.

Keyrslan er 7–8 klukkustundir með stoppum frá Los Angeles og á leiðinni er margt hægt að skoða og bralla. Til dæmis að vinna sér inn „nektarmerki“ með því að hjóla nakinn fimm mílur. Í ár áttu þrír félaganna eftir að skella sér úr hverri spjör. „Tveir þeirra guggnuðu, en Dóri er alltaf til í allt og tók fimm mílurnar eins og berserkur,“ segir Arnold.

Töffarar og tryllitæki
Hópurinn við heimför til LA fyrir framan villuna.
Mynd: Melanie Ladish

„San Felipe er fallegur bær við ströndina í Kaliforníuflóa þar sem búa um 18 þúsund manns. Við leigðum fallegt þriggja hæða hús við ströndina og ákváðum að taka þægindin á þetta þar sem margir af okkur erum að ferðast langa leið. Það má segja að allur miðbærinn sé undirlagður af mótorhjólum en aðalsvæði „ground zero“ El Diablo er Rubens Camp, þar sem ómar tónlist allan sólarhringinn, hljómsveitir á kvöldin og nóttunni, fæstir sofa, baða sig í sjónum og halda gott partí. Margir leigja sér kojur í opnum kofum undir berum himni og aðrir tjalda á ströndinni og sumir bara með eitt teppi eða poncho til að leggja sig á,“ segir Birgir.


Í Rubens Camp
Um 600 hjól bætast við í San Felipe þessa helgi.
Frumstætt Svona lítur sturtuaðstaðan út fyrir gesti El Diablo Run.

Árið 2017 kynntust strákarnir flúrlistamanninum Michael Guadelupa Jordan og fengu sér flúr, í ár var sama hefð og allir fengu sér flúr með merki El Diablo Run. „Þetta er skemmtileg hefð sem vonandi er komin til að vera og við ætlum 100% aftur eftir tvö ár,“ segja þeir félagar.

Fengu sér allir merki hátíðarinnar
Kiddi sáttur í stólnum hjá Jordan.

Enginn metinn eftir atvinnu hans

„Sportið er rosalega skemmtilegt og snýst ekki bara um að hjóla. Þetta felst líka í að grúska, spá og spekulera, sparka í dekk og menn geta stundað það einir eða með vinum og fjölskyldu. Þú spáir í sportið allt árið og ef það er ekki veður til að fara út að hjóla þá ertu bara að grúska í skúrnum eða klúbbhúsinu,“ segir Arnold.

Það skemmtilega við þetta samfélag er að það er enginn að spá í hvað þú vinnur við, hvort þú ert bankakall, lögfræðingur eða atvinnulaus. Fólk er að skoða hvernig hjóli þú sért á, hvað sé mikið af þræðinum eftir á dekkjunum hjá þér og öðru slíku. Við erum fyrst og fremst bara gaurar sem höfum gaman af mótorhjólum.“

Fleiri myndir og myndbönd frá ferðinni má finna á Facebook-síðu Pyratez MC. 

Sjáðu sæta bossann minn Arnold og Kiddi slá á létta strengi. Strákarnir völdu þessa mynd mynd ferðarinnar og sýnir hún vel stemninguna í hópnum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“