fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Iva tók U-beygju í skoðunum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 25. maí 2019 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er mikil heift í umræðunni, mikill skotgrafahernaður og ég er hrædd, meira að segja oft mjög hrædd við að tjá sumar skoðanir mínar opinberlega, finnst ég ekki geta leyft mér það. Ég vil vera opinber persóna, eiga séns í pólitík án þess að vera álitin öfgamanneskja, ég vil að sá möguleiki sé fyrir hendi að ræða hvað sem er á yfirveguðum og vitsmunalegum nótum, en það er bara mjög erfitt á tímum þegar fólk er oft dæmt eftir skoðunum sínum, jafnvel án þess að vera leyft að standa fyrir máli sínu. Vinir og kunningjar frá fyrri tíð hafa snúið baki við mér af því þeir eru ósáttir við að skoðanir mínar eru ekki nákvæmlega eins og þeirra í einhverjum málum,“ segir Iva Marín Adrichem.

Iva, sem hefur verið blind frá fæðingu, tók virkan þátt í réttindabaráttu fatlaðs fólks á unglingsárum en fjarlægðist síðan þau viðhorf sem hún tileinkaði sér þá og hefur lent upp á kant við sum af sínum fyrri baráttusystkinum. Iva vill ekki láta draga sig í dilka eða á hana séu settir merkimiðar enda hefur henni verið sagt að hún sé með „sjálfstæðisblæti“ eins og hún orðar það.

Iva er aðeins liðlega tvítug að aldri, fædd 1998, en á þegar stórmerkilegt lífshlaup að baki. Hún ræddi við DV um ævi sína, fordóma gegn fötluðum, en líka mikilvægi fordómaleysis og umburðarlyndis í allri umræðu og skoðanaskiptum – sem henni þykir vanta mikið upp á.

Iva Blind frá fæðingu.

Byrjaði í tónlistarskóla tveggja ára

Iva fæddist blind vegna augngalla í móðurkviði. Það kom ekki í veg fyrir að hún lyki stúdentsprófi frá MH á tveimur og hálfu ári, og útskrifaðist 18 ára gömul, né að hún stundaði nám í Söngskólanum í Reykjavík og síðar Tónlistarskóla Garðabæjar. Iva stundar núna nám til bachelor-gráðu í einsöng í Rotterdam en hér heima lærði hún píanóleik auk söngs.

Iva á hollenskan föður en íslenska móður. Hún bjó fyrstu níu æviárin í Hollandi og talar bæði reiprennandi hollensku og íslensku. Iva segir að foreldrar hennar hafi frá unga aldri stutt hana ötullega til náms og þroska. Hún lærði mjög snemma að lesa og hefur frá unga aldri verið mikill bókaormur. Les hún aðallega hljóðbækur en er líka læs á punktaletur. Tónlist byrjaði Iva að læra þegar sem smábarn:

„Ég var varla nema tveggja til þriggja ára þegar pabbi og mamma fóru að senda mig í píanótíma og á alls konar söngnámskeið.“ Iva hneigðist til tónlistar nánast frá fæðingu en auk þess sem foreldrar hennar hvöttu hana óspart áfram þá segja þeir að hún sjálf hafi verið afskaplega námfús frá blautu barnsbeini.

„Foreldrar mínir eiga hrós skilið. Þau hafa verið mjög góðir uppalendur og studdu mig og hvöttu í öllu sem ég sýndi áhuga,“ segir Iva.

Þess má geta að Iva stefnir á nám í lögfræði þegar hún hefur lokið við BA-gráðuna í einsöng enda segir hún atvinnuhorfur söngvara vera afar ótryggar. Þessi kornunga kona mun því verða komin með mikla og fjölbreytta menntun áður en langt um líður.

Metnaðarfull Iva stefnir á nám í lögfræði eftir tónlistarnámið.

Tók U-beygju í skoðunum

Snemma á unglingsaldri fór Iva að taka þátt í réttindabaráttu fatlaðs fólks og hennar helsti vettvangur í þeim efnum voru samtökin Tabú:

„Unglingsárin voru erfiður tími, enda mikið þroskaferli á þessum tíma og miklar tilfinningasveiflur. Ég hafði, og hef enn í dag, afar sterka réttlætiskennd og á þessum tíma tók ég það mjög nærri mér að vera álitin öðruvísi, og stundum minni máttar, fötlunar minnar vegna. Afleiðingarnar voru að ég missti á tímabili algjörlega stjórn á réttlætiskenndinni, var svakalega reið, viðkvæm fyrir öllu og fljót að stökkva upp á nef mér. Það hefur líka áhrif á mann hverja maður umgengst. Fólkið sem var með mér í þessu var vissulega yndislegt fólk, en við áttum þá reynslu sameiginlega að upplifa og horfa upp á fordóma og mismunun. Skiljanlega var margt af þessu fólki líka ofsalega reitt, en stanslaus reiði í umhverfinu getur eitrað út frá sér og dregið úr manni alla jákvæða orku.

Vegna þessarar óstjórnlegu reiði minnar fannst mér allt samfélagið oft vera á móti mér og gera í því að sýna mér að ég væri minna virði en aðrir. Þetta viðhorf mitt fór að hafa þau áhrif að fólk umgekkst mig eins og jarðsprengjusvæði og vissi ekki hvað það átti að segja við mig, því ég gat hvenær sem er sprungið og ausið úr mér reiðilestri um fordóma gegn mér og óréttlæti heimsins. Ég var að breytast í einhvers konar tilfinningavampíru. Síðan rann upp fyrir mér að reiði virkar ekki alltaf best í mannréttindabaráttu, þó að vissulega sé alltaf þörf á róttækni. Hins vegar er mjög fín lína milli þess að vera róttækur og að breytast óvart í skrímslið sem maður ætlaði sér að berjast gegn. Það má segja að á nokkuð stuttum tíma hafi ég tekið U-beygju í skoðunum og ég fór að endurmeta afstöðu mína.“

Breytti um lífsviðhorf Reiðin ekki alltaf best í mannréttindabaráttu.

Foreldrarnir urðu fyrir mótlæti

Iva segir að vissulega séu miklir fötlunarfordómar hér á landi eins og annars staðar. Ég horfði upp á það og heyrði sögur af því hvernig fötluðu fólki var mismunað hægri vinstri. Í því ljósi var skiljanlegt að ég hafi svolítið misst trúna á mannkyninu en á einhverjum tímapunkti sá ég að það væri stutt í að þetta viðhorf kostaði mig geðheilsuna. Þegar maður er farinn að túlka minnstu smáatriði á versta veg held ég að það sé fínt að taka svolitla hvíld og skoða sín mál. Það má vel vera að annað fólk hafi andlega heilsu í að takast á við svona djúpar pælingar varðandi mismunun, en hana hef ég einfaldlega ekki og kýs þess í stað að horfa frekar fram á veginn og spila úr því sem ég hef.“

Iva segir að fæstir sem sýni fötluðum fordóma geri það af illsku heldur sé yfirleitt um að ræða fljótfærni, vanþekkingu og skort á hæfni í mannlegum samskiptum. Hins vegar sé illskan alveg til þarna líka og hún þekki mörg dæmi um það. En algengustu fordómarnir sem hún verður vör við koma fram í því að henni hafi ekki verið treyst til að sjá um sig sjálf í sama mæli og sjáandi jafnöldrum hennar, eða gera það sem aðrir gera.

„Í dag verð ég til dæmis vör við að mörgum þykir ekki eðlilegt að ég hafi flutt svona ung að heiman og stundi framhaldsnám í útlöndum. Ég veit ekki hversu oft ég hef verið spurð hvort foreldrum mínum finnist þetta í lagi og af hverju fjölskyldan flutti ekki með mér út. Ég stórefast um að sjáandi jafnaldrar mínir séu oft spurðir þessara spurninga.

Foreldrar mínir þurftu oft að sanna sig brjálæðislega mikið til að fá að ala mig upp eins og venjulega manneskju. Til dæmis gerði kennarinn minn í grunnskóla stórmál úr því að þau skildu mig eina eftir heima þegar ég var 11 ára. Uppeldisstefna foreldra minna var að sleppa takinu, sem er afskaplega mikilvægt til að ná þroska og sjálfstæði. Mörg fötluð börn eru ofvernduð og þurfa að taka afleiðingum þess á fullorðinsaldri.“

Mikilvægt að sleppa takinu Iva segir mörg fötluð börn vera ofvernduð.

Mikilvægt að flokka ekki fólk

Iva er samkynhneigð en að sögn hennar eru minni fordómar og staðalmyndir ríkjandi gegn samkynhneigð í dag en fötluðum. Segir hún að barátta samkynhneigðra hafi staðið talsvert lengur yfir en barátta fatlaðs fólks og því séu samkynhneigðir með öflugri rödd í samfélaginu.

Meðal fordóma gegn fötluðu fólki er skilningsskortur á því að það sé jafnmiklar kynverur og annað fólk og alveg jafn fært að eiga maka og fjölskyldur og hverjir aðrir einstaklingar. „Ég hef ekki lent mikið í því að vera ekki álitin kynvera og ég held að það stafi af því að allt við líkama minn og greind er samkvæmt normum samfélagsins, að sjóninni frátalinni. Ég hef orðið fyrir því að sumt fólk skilur ekki að ég geti verið samkynhneigð af því ég sé ekki með sömu sjónrænu upplifun og aðrar konur hafa af gagnstæða kyninu. Eins og kynhneigð hafi eitthvað með sjón að gera.“

Iva segir mikilvægt fyrir hana að gera sér grein fyrir því að hún er ekki fötlun hennar og hún er ekki kynhneigðin. Allt of algengt sé að fólk sé flokkað eftir eiginleikum eða félagslegri stöðu:

„Á tímabili var ég ofboðslega mikið að skilgreina allt út frá minni kynhneigð og fötlun. Ég var sífellt að spyrja sjálfa mig hvort ég hefði nú lent í þessum eða hinum uppákomum af því ég er fötluð eða af því að ég er samkynhneigð. Jafnvel af því ég er kona í ofanálag. Nú er ég komin á þá skoðun að það sé mikil þröngsýni og fordómar að dæma fólk út frá kyni, húðlit, fötlun, kynhneigð eða annars konar félagslegri stöðu. Það kaldhæðnislega finnst mér að fólk sem telur sig víðsýnt og umburðarlynt fellur oft sjálft í skilgreiningargryfjuna og gengur jafnvel svo langt að ásaka fólk fyrir að tilheyra ákveðnum hópum.“

Að sama skapi er vaxandi tilhneiging til að dæma persónu fólks út frá skoðunum þess, að mati Ivu. „Ég hef misst gott fólk út úr lífi mínu út af fyrrnefndri U-beygju minni, en svo er það aftur spurning hve góðir vinir það eru sem snúa við manni baki af því að maður er ekki sammála þeim varðandi einhver álitamál. Sjálf þekki ég yndislegt fólk sem mér finnst hafa fáránlegar skoðanir en það hvarflar ekki að mér að dæma það sem vondar manneskjur bara af því ég er svo innilega ósammála því um margt.“

Sem fyrr segir óttast Iva minnkandi málfrelsi sem stafi af síaukinni heift og dómhörku í skoðanaskiptum fólks. Hún segir að fólk eigi ekki að gjalda skoðana sinna og tjáningarfrelsi eigi að vera sem óheftast: „Ég dreg hins vegar mörkin við líflátshótanir eða hótanir um líkamsmeiðingar. Slík tjáning á engan rétt á sér.“

„Við erum forréttindagrísir“

„Við Íslendingar höfum það bara afskaplega fínt miðað við flesta, sama hvaða hópi við tilheyrum. En þetta er eitthvað sem má ekki segja upphátt, þá er líklegt að fá yfir sig riddara réttlætisins og ásakanir um að lifa í eigin forréttindabúbblu. En svo er það samt líka hættulegt í sjálfu sér að finnast maður hafa það of gott því fólk gæti þá farið að halda að ekki þurfi að halda áfram baráttu fyrir bættu samfélagi. Þetta breytir samt því ekki, að ég sjálf kýs að vera mjög meðvituð um forréttindin sem ég bý við með því að vera uppalin á Íslandi. Sem dæmi er það ekki sjálfsagt mál að fá notendastýrða persónulega aðstoð, NPA. Ef ekki væri fyrir NPA þá væri ég ekki hér í útlöndum að gera það sem mig hefur dreymt um síðan ég var lítið barn, svo einfalt er það. Ég leyfi mér því hiklaust að segja að ég, og við flest séum forréttindagrísir í samanburði við marga aðra.

Freyja Haraldsdóttir hefur verið í fremstu röð baráttukvenna og hefur lagt á sig þrotlausa vinnu til að koma þessu mikla framfaramáli sem NPA er í gegnum þing. Þó að við Freyja séum ekki alltaf sammála ber ég takmarkalausa virðingu fyrir henni og það hefur verið ótrúlega ánægjulegt að kynnast henni og vinna með henni í mikilvægum baráttumálum. Ég fullyrði að svona frábær þjónusta við fatlaða þekkist ekki í Evrópu og fatlað fólk hér í Hollandi er margt algjörlega upp á aðstoð fjölskyldu og vina komið. En ég er með dásamlegt starfsfólk sem gerir mér kleift að þiggja aðstoð á eigin forsendum og stjórna hvernig, hvar og hvenær hún er veitt.“

Björt og spennandi framtíð virðist blasa við Ivu og hún á ábyggilega eftir að láta mikið að sér kveða. Í augnablikinu hlakkar hún hins vegar mest til að heimsækja Ísland en hún mun fljótlega koma til landsins í gott sumarfrí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“