fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Hanna Rún um lygasögurnar og baktalið: „Ég skildi bara ekkert hvað ég hafði gert rangt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 24. maí 2019 14:10

Hanna Rún. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er óhætt að segja að dansarinn Hanna Rún Bazev Óladóttir sé einn sigursælasti dansari Íslands. Í raun hefur hún sjálf ekki tölu á öllum titlunum og bikurunum sem hún hefur nælt sér í á ferli sem spannar fjöldamörg ár. Hanna Rún er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttar dægurmáladeildar, Föstudagsþáttarins Fókus, þar sem hún fer yfir ferilinn, ástina, lífið og tilveruna.

„Ég ætlaði að fara alla leið“

Hanna Rún segist alltaf hafa haft mikið keppnisskap og lagði sig alla fram í að ná frama í dansinum frá blautu barnsbeini.

„Mamma er mikil keppnismanneskja og pabbi var líka íþróttamaður. Ætli þetta komi ekki frá mömmu og pabba,“ segir Hanna Rún um keppnisskapið. Á unglingsaldri lenti Hanna Rún í því sama og margir unglingar í íþróttum lenda – að gefast örlítið upp á sportinu og leggja ferilinn á hilluna. Það blundaði í Hönnu Rún, sérstaklega þegar hún fann að hún missti af svo mörgu í félagslífinu.

„Þá var ég farin að finna þegar vinkonurnar voru að fara á böll og ég var ekki að fara með, mér fannst ég vera að missa svolítið af. Mér fannst ég líka vera skilin svolítið út undan,“ segir Hanna Rún. Hún þakkar foreldrum sínum fyrir það að hún gafst ekki upp. Þau settust niður með henni, hvöttu hana áfram og útskýrðu fyrir henni að hún þyrfti að velja og hafna ef hún ætlaði að ná frama í dansinum. Hún þyrfti að fórna ýmsu, þar á meðal félagslífi, áfengi og reykingum.

„Ég skildi það vel,“ segir Hanna Rún. „Ég ætlaði að fara alla leið og þetta var það sem þurfti.“

Hanna Rún er líka þakklát foreldrum sínum fyrir að styðja sig fjárhagslega í dansinum, enda dýrt að ferðast á milli landa, taka þátt í danskeppnum og kaupa danskjóla. Svo ekki sé minnst á einkatímana með reynslumiklum dönsurum sem geta kostað skildinginn.

Hanna Rún með Vladimir, syni sínum.

Sumir lifa á því að tala illa um fólk

Eins og áður segir hefur Hanna Rún ekki tölu á titlunum sem hún hefur unnið á löngum dansferli, en þessi velgengni kostaði sitt. Ekki bara blóð, svita og tár heldur varð hún fljótt vör við ljótar kjaftasögur í skugga frábærs árangurs, jafnvel strax á unglingsaldri. Hún varð fljótt þekkt nafn og fjallað um hana á síðum blaðanna, bæði fyrir gott gengi í dansi sem og um einkalíf hennar.

„Mér fannst það bara gaman. Sérstaklega fannst mér gaman þegar var verið að fjalla um dansinn og árangurinn því mér finnst oft lítið talað um dansinn. Boltinn fær alltaf svo mikla umfjöllun. Ekkert á móti boltanum en dansinn fer í skuggann og lítið talað um hann. Þannig að mér fannst það rosalega gaman og ég fagnaði því,“ segir Hanna Rún. Hin hliðin voru svo kjaftasögurnar.

„Það fylgdi því auðvitað alls konar sögur og baktal og svona, sem ég tók inn á mig þegar ég var yngri því ég gat ekki skilið af hverju fólk væri að búa til lygasögur. Ég skildi bara ekkert hvað ég hafði gert rangt. Ég var náttúrulega að ná góðum árangri og sumir voru ekki að fíla það. Ég gat ekki alveg skilið það. En með tímanum lærði ég að láta þetta fara inn um eitt og út um hitt og það var mikil traffík í gegnum eyrun.“

Hanna Rún lætur ekki svona fara í taugarnar á sér í dag og segist hafa í raun lært mikið af neikvæða umtalinu.

„Þetta bara styrkir mann. Þetta er bara alltaf þannig að ef manni gengur vel, hvort sem það er í íþróttum eða öðru, við öndum og fáum súrefni þannig og lifum á því að borða en svo eru aðrir sem virðast lifa á því að tala illa um fólk. Það er svona þeirra súrefni. Því miður.“

Sögð vera í sambandi með pabba sínum

Varðandi eðli kjaftasagnanna segir hún sumar þeirra hafa verið hreint út sagt hlægilegar.

Hanna Rún er með þykkan skráp. Mynd: DV/Hanna

„Einhvern tímann var talað um það þegar ég var að vinna hjá mömmu og pabba í Gullsmiðju Óla að ég væri að deita gullsmiðinn og hann gæfi mér skartripi og peninga. En það var enginn að fatta að ég væri Óladóttir – Gullsmiðja Óla. Hann er pabbi minn! Það var verið að reyna allt. Ég man að mér fannst þetta ekki fyndið þegar ég heyrði þetta fyrst en svo hló ég nú bara að þessu,“ segir Hanna Rún.

Hanna Rún á fimm ára gamlan son, Vladimir Óla, en hún dansaði eins lengi og hún gat á meðgöngunni. Eftir fæðingu Vladimir var hún fljót að reima á sig dansskóna aftur og ætlaði að koma sterkari til baka eftir barnsburðinn. Þá fóru kjaftasögurnar aftur á flug.

„Ég kom til baka og þá fór ég að heyra þessar sögur að ég væri að svelta mig og að ég væri á ólöglegum efnum og glætan að ég væri að grennast svona hratt,“ segir Hanna Rún. „Mér fannst þetta svo leiðinlegt. Maður hefði frekar haldið að fólk væri að hvetja mann áfram en ég fékk ekki að heyra mikið af því. Fólk var pirrað að ég var að koma til baka. En ég með mitt keppnisskap hugsaði að þetta væri auka bensín á tankinn, maður fékk pínu reiði í sig,“ segir hún.

Ekki með dívustæla í alvöru

Það var hins vegar breyting á þessu umtali fyrir nokkrum árum þegar að Hanna Rún opnaði Snapchat-reikning og veitti fólk innsýn í líf sitt.

„Ég sé ekki eftir því að hafa fengið mér Snapchat því að eftir að ég fékk mér Snapchat fækkaði þessum leiðinlegu lygasögum og baktali,“ segir hún og bætir við að hún finni lítið sem ekkert fyrir kjaftasögum í dag. Þetta hefur í raun snúist við því fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum senda henni oft jákvæð skilaboð og biðjast afsökunar á að hafa talað illa um hana eða tekið þátt í illu umtali, án þess að þekkja hana persónulega.

„Fólk talar um að ég sé allt öðruvísi. Dansinn er svo mikill leikur. Þó ég sé með dívustæla á dansgólfinu þá er ég ekki með dívustæla í alvöru. Alveg eins og vondi kallinn í bíómyndum er ekki vondur í alvöru. Maður setur sig í karakter.“

Hægt er að fylgja Hönnu Rún á Instagram með því að smella hér.

Horfa má á hlaðvarpsþáttinn hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári og Oddný Eir eru nýtt par

Gunnar Smári og Oddný Eir eru nýtt par
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“