Kabarett-drottningin Margrét Erla Maack prýðir forsíðu nýjasta blaðs DV þar sem hún fer yfir ferilinn ásamt því að gefa lesendum innsýn í sitt einkalíf.
Margrét er uppalin á Bergstaðastræti, býr núna á Óðinsgötu og vinnur „svolítið í þessum radíus hérna,“ segir hún og teiknar hring í kringum sig. Hún var einkabarn í níu ár, þar til Vigdís Perla, systir hennar, fæddist. „Við höfum alltaf verið mjög nánar og erum mjög líkar, en það munar alveg þessum níu árum þannig að það var aldrei samkeppni um sömu athyglina eða neitt svoleiðis, og ég fékk snemma að bera ábyrgð á henni sem var ótrúlega gaman. Og núna býr hún í London og það er ógeðslega erfitt!“
Margrét segir foreldra sína ólíka, en mjög samstíga. Móðir hennar, Ragnheiður Ólafsdóttir, starfar sem miðasölustúlka í Þjóðleikhúsinu og sem blómasöludama í Kópavogi. „Hún er stórkostleg og maður skilur ekki að þetta stóra hjarta komist fyrir í þessum kropp sem hún hefur. Hún er mamma allra, öll mín frændsystkin mömmu megin eru börnin hennar, ég kem í heimsókn og það er alltaf einhver í heimsókn hjá henni. Vinir systur minnar koma í heimsókn til að drekka viskí með henni, sem er furðulegt og geggjað á sama tíma. Mamma er ofsalega mannglögg og skemmtileg, henni finnst gaman að gefa fólki að borða og er ofboðslega nærandi manneskja.“
Faðir Margrétar, Pjetur Þ. Maack, er prestur og aðspurð hvort hún hafi ekki viljað fara í hempuna eins og hann svarar hún að þau séu í sama bransa. „Við erum bæði að kenna fólki að njóta sköpunarverksins á mismunandi hátt. Ég er ekki sérstaklega trúuð, en ég er alin upp í miklum kærleika og kristilegum gildum, trúnni var aldrei troðið upp á mig. Mér var frekar kennd sú upplifun að trú sé hjálpartæki og geti hjálpað fólki mikið, eins og í gegnum sorg, fíkn og aðra erfiðleika. Og ég fann svona að pabbi vonaði að ég þyrfti kannski ekkert á trúnni að halda, sem mér finnst mjög fallegt uppeldi.“
Sjálf er Margrét búin að stofna eigin fjölskyldu, en hún kynntist kærastanum, Tómasi Steindórssyni, á Tinder og á það vinkonu sinni að þakka, sem tók af henni símann og lækkaði aldursmörkin í stefnumótaappinu. „Hann er góður, mjúkur sveitakall frá Hellu, ógeðslega fyndinn. Hann er stór og mikill, eins og hoppukastali í körfuboltabúningi og að sjá mann hlaupa á hann er það fyndnasta sem ég veit. Ég fæ enn hláturskast þegar sé lappirnar hans í rúminu; „er þessi stærð til af manneskju?““
Tómas er með fleiri en einn bolta á lofti líkt og Margrét, hann starfar hjá Billboard, þar sem hann selur auglýsingar á strætóskýli og skilti, en er aðallega í því að laga þau, er plötusnúður, sér um pubquiz og spilar körfu með Breiðablik. „Hann er fastur í 9–5 vinnunni og finnst erfiðast hvað ég er oft erlendis því hann á erfitt með að fá frí og koma með.“
Þau hafa verið saman í tvö og hálft ár og hittust á sínu fyrsta og eina stefnumóti eftir að hafa spjallað í tvær vikur á Tinder og reynt að finna tíma til að hittast. „Það var náttfatapartí heima hjá mér þar sem við horfðum á Útsvar með kíló af nammi. Við ákváðum strax að byrja saman, vorum ákveðin í samband og hann flutti inn,“ segir Margrét.
„Tómas er öðruvísi en aðrir sem ég hef verið með, honum finnst ekkert mál að ég þéni suma mánuði meira en hann, að ég sé áberandi eða að ég vinni við það sem ég geri. Fyrri kærastar heilluðust oft af mér af því að ég var að gera svo mikið, af því að ég var skemmtikraftur og plötusnúður, svo spurðu þeir hvenær ég ætlaði að hætta þessu. Ég held að enginn segi svona af væntumþykju, en kannski vantaði einhverja bara ástæðu til að hætta með mér. Ég dýrka vinnuna mína, hún er hluti af persónuleika mínum og Tómasi finnst hún snilld. Tómas er allur pakkinn.“
Parið á von á barni í lok september og þegar Margrét er spurð hvað hún sé langt gengin, tekur hún upp símann og skoðar dagatalið. „Ég er svo léleg í þessu, ég er með Instagram-öfund og er búin að henda öllum út sem eiga von á barni. Ég er ekki byrjuð að tengja eða byrjuð á hreiðurgerð. Ég er að fara í rannsókn á morgun og fæ þá að vita kynið og þá vonast ég til að tengja betur við barnið, þegar ég get kallað það hann eða hana, ekki það. Ég er örlítið kvíðin fyrir þessu, að tengja aldrei, það kemur en ég er samt; „hvað ef það kemur ekki?“
Þetta er búið að ganga vel, ég var gengin átta vikur þegar ég vissi að ég var ófrísk. Ég er enn þá að kenna, nýkomin úr Evróputúr, er að fara til Brighton um helgina og svo til New York í lok maí. Þetta er ekkert mál og ég er mjög heppin,“ segir Margrét, sem hefur reynslu af meðgöngu. „Ég hef bæði farið í fóstureyðingu og misst fóstur, og áður var mjög mikil vanlíðan, uppköst og grindargliðnun.“
Viðtalið er tekið sama dag og ný lög um þungunarrof voru samþykkt á Alþingi. Margrét hefur sterkar skoðanir á málefninu og segir að hún sjái það mjög skýrt að engin kona komin jafn langt á leið og hún velji fóstureyðingu að gamni sínu. „Það er engin sem fer á þessum tíma, nema það sé aðkallandi og félagslegar og líkamlegar ástæður liggi að baki.“
Margrét skráði sig úr Þjóðkirkjunni eftir að grein Agnesar M. Sigurðardóttur um þungunarrof birtist í Morgunblaðinu. „Ég hef gefið Þjóðkirkjunni mikinn séns í gegnum tíðina af því að pabbi minn er prestur, en ég skráði mig úr henni núna. Grein Agnesar er miðaldakjaftæði, þar sem hún tjáir sig ekki sem kona, heldur sem biskup. Það er fjöldi frábærra presta starfandi, en þarna er risaeðla talsmaður kirkjunnar. Ég verð svo reið, pabbi sagði mér um daginn að skoða ekki í pakkann og fá ekki að vita kynið á barninu. Ég svaraði að þegar hann og karlar á hans aldri myndu byrja að ganga með börn gætu þeir tjáð sig um leg kvenna, ekki núna.“