„Ég hef verið dálítið einsleitur þegar kemur að sjónvarpsefni, þar sem ég er smá sci-fi-, zombie- og vampíru-þátta perri. Ég lá heima í heilan mánuð eftir aðgerð og þá var ég duglegur að renna í gegnum sjónvarpsefnið hjá bæði Sjónvarpi Símans og Netflix. Þættirnir voru eðlilega misgóðir, en á tímabili þá var mér sama hversu lélegt efnið var, svo lengi sem ég hafði eitthvað til að góna á þegar ég lá fyrir.
Ég tók rispu í að horfa á þættina Z Nation á Netflix, hámhorfði á seríu eitt en missti svo fljótlega áhugann þegar ég byrjaði á seríu tvö. Það var engin sérstök ástæða fyrir því, ég var held ég bara kominn með nóg af þeim. Þeir í raun og veru fjalla um endalok heimsins, veiru sem fer á milli manna og breytir alsaklausum manneskjum í uppvakninga sem vilja bara heila í for-, aðal- og eftirrétt. Það einkenndi Z Nation hins vegar að þarna voru samankomnir líklega lélegustu leikarar og leikkonur Hollywood en mér var alveg sama.
Ég tók seríuna Black Summer sömuleiðis og rumpaði henni af á um tveimur dögum. Yfirskrift þeirra þátta er keimlík Walking Dead og Z Nation þar sem uppvakningar eru í aðalhlutverkum.
Eins og með Z Nation er það Netflix sem framleiðir þættina og gæði leikara í þeirri seríu voru af svipuðu kalíberi og í Z Nation. Orðum það þannig að ég gæti meira að segja leikið í þáttunum og þá er sko mikið sagt.
Auðvitað get ég ekki sleppt því að minnast á Game Of Thrones sem eru algjörlega stuuuuuuhuuurlaðir þættir og þessi síðasta sería að fara fram úr væntingum mínum og ríflega það. Ég, eins og svo margir aðrir, stóð algjörlega á öndinni eftir þátt númer þrjú en sá þáttur var einn sá magnaðasti sem ég hef séð í sjónvarpi. Núna bíð ég bara alltaf eftir nýjum þætti og sömuleiðis bíð ég eftir að ein ákveðin manneskja verði mmmm … (segi ekki meir).
Mér þykir fátt betra en að dúndra mér upp í sófa eftir að ég er búinn að svæfa maurana og horfa á gott sjónvarpsefni. Það er margt sem bíður mín og margar þáttaraðir sem mig langar að sjá. Sex Education, Quicksand, Chernobyl, Dead To Me og fleiri þættir eru á dagskránni minni.
Áfram gott sjónvarp!