Forsvarsmenn Eurovision eru loksins búnir að staðfesta að stórstjarnan Madonna treður upp á úrslitakvöldi Eurovision í Tel Aviv næstakomandi laugardagskvöld.
Madonna mun syngja slagarann sinn frá árinu 1989, Like A Prayer, og nýja lagið sitt Future með rapparanum Quavo. Þetta var tilkynnt rétt í þessu.
Háværar sögusagnir hafa verið uppi þess efnis að Madonna myndi skemmta á Eurovision í talsverðan tíma en fyrr í vikunni sögðu skipuleggjendur að ætti eftir að ganga frá samningsmálum við söngkonuna. BBC segir frá því að Madonna hafi komið til Ísrael á þriðjudag og æfi nú á leynilegum stað.
Samkvæmt frétt BBC er 35 manna kór í för með Madonnu, en söngkonan hefur verið harðlega gagnrýnd af ýmsum samtökum fyrir að taka að sér að skemmta á Eurovision vegna þess að keppnin er haldin í Ísrael.