Einar Stefánsson, trommugimpið í Hatara, hefur vakið mikla athygli í Eurovision, sérstaklega fyrir þær sakir að hann er ávallt með leðurgaddagrímu og segir ekki orð. Einar er hins vegar ekki fyrsta gimpið sem stígur á Eurovision-sviðið, eitthvað sem hefur lítið verið rætt um.
Slóvenska söngkonan Rebeka Dremelj var nefnilega með gimp á sviðinu þegar hún flutti lagið Vrag naj vzame í Eurovision-keppninni í Belgrad í Serbíu árið 2008 fyrir hönd Slóveníu. Rebeka var meira að segja með tvö leðurklædd gimp með grímur á sviðinu, sem hún að lokum teymdi um í bandi. Fatnaður Rebeku var algjör andstæða við BDSM-fílínginn í gimpunum og minnti hún helst á Skellibjöllu úr Pétri Pan.
Lagið Vrag naj vzame, sem í beinni þýðingu er Til fjandans með það, var og er ágætlega vinsælt meðal aðdáenda Eurovision, en náði þó ekki upp úr undanriðlinum. Rebeka var þó ekki fjarri því þar sem hún var í ellefta sæti í sínum undanriðli af nítján löndum.
Hér fyrir neðan má sjá atriðið með fyrirrennurum Einars trommugimpis: