Sænska Eurovision-stjarnan Charlotte Perrelli tróð upp í norræna teitinu í tengslum við Eurovision í Tel Aviv í gærkvöldi.
Charlotte flutti lagið Take Me to Your Heaven við mikinn fögnuð viðstaddra, en það lag þekkjum við Íslendingar vel – allavega þeir sem voru komnir á legg undir loks aldamótanna síðustu.
https://www.youtube.com/watch?v=xhdnwVjdWCU
Charlotte er manneskjan sem sigraði í Eurovision árið 1999, í harðri baráttu við Selmu Björnsdóttur, sem lenti í öðru sæti með All Out of Luck. Muna margir eftir magnþrungnu spennunni þegar að stigagjöfin fór fram þetta árið, en lengi vel var Selma í fyrsta sæti og virtist það ætla að gerast að Íslandi myndi vinna Eurovision-keppnina í fyrsta sinn.
Keppnin 1999 var einmitt haldin í Ísrael, en í gær voru þær Selma og Charlotte sameinaðar á ný, því Selma var í áhorfendasalnum í norræna partíinu. Lítill heimur. Selma er í Tel Aviv til að skemmta á Euro Club, opinberum skemmtistað Eurovision-keppninnar ásamt Friðriki Ómari og Heru Björk.