Almannatengillinn og tónlistarmaðurinn Einar Bárðarson birtir Eurovision-spá á Facebook-síðu sinni þar sem hann spáir að Hatari lendi í níunda sæti í keppninni.
„Ég verð líklega dæmdur landráðamaður fyrir vikið en ég spái því að Hatari taki 9. sætið með sér frá Tel Aviv. Höfum það í huga að að væri einn besti árangur okkar í keppninni þessi 30 og eitthvað ár sem við höfum verið með,“ skrifar Einar, en hann þekkir keppnina vel og fór eftirminnilega með Eurovision-hópnum til Kaupmannahafnar árið 2001 með lagið Angel sem hann samdi í félagi við Magnús Þór Sigmundsson.
Einar er sannfærður um að sigurinn fari til nágranna okkar í Svíþjóð.
„Þessi maður John Lundvik er að fara með keppnina enn eina ferðina til Svíþjóðar. „Too late for Love“ er sigurlagið í ár,“ skrifar Einar og birtir mynd af fyrrnefndum John.
Eins og er er John Lundvik spáð fjórða sæti í Eurovision samkvæmt veðbankaspám en Íslandi því áttunda.