Grínleikarinn Will Ferrell er með kvikmynd um Eurovision í bígerð fyrir efnisveituna Netflix, en fyrst var minnst á að myndin væri á teikniborðinu eftir Eurovision-keppnina í fyrra. Nú segir Dateline frá því að leikkonan Rachel McAdams, sem er hvað þekktust fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við The Notebook og Spotlight, fari með hlutverk í myndinni.
Hins vegar er lítið annað vitað um myndina nema það að titill hennar verður einfaldlega Eurovision.
Það kom mörgum í opna skjöldu þegar að Will spókaði sig á Eurovision-keppninni í Lissabon í fyrra. Það voru því enn óvæntari fréttir þegar að Will sagðist vera mikill aðdáandi keppninnar, en hann hefur horft á hana árlega frá árinu 1999, eftir að fjölskylda eiginkonu hans, hinnar sænsku Vivecu Paulin, horfði á keppnina með honum.
Will og Viveca gengu síðan í það heilaga árið 2000, en Will hefur áður mætt á Eurovision, til að mynda á úrslitakvöldið í Kaupmannahöfn árið 2014. Hér fyrir neðan má sjá Will með keppanda síðasta árs, Ara Ólafssyni:
Háværar sögusagnir eru uppi þess efnis að Will ætli einnig að vera viðstaddur keppnina í ár til að undirbúa sig fyrir kvikmyndina Eurovision. Þá segir sagan að hann ætli jafnvel að troða upp á öðru hvoru undanúrslitakvöldinu.