Nú bíða margir spenntir eftir Eurovision-keppninni, en minna en vika er þar til hljómsveitin Hatari keppir fyrir Íslands hönd á stóra sviðinu og freistar þess að komast upp úr fyrri undanriðlinum.
FÁSES, félag áhugafólks um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fylgist vel með keppninni í Ísrael og skrifa stjórnarmeðlimir félagsins greinar og birta myndbönd á hverjum einasta degi.
Meðal þeirra sem eru í Tel Aviv á meðal FÁSES er svokölluð Júró-Gróa, þekktur karakter innan FÁSES-samfélagsins sem elskar að slúðra um það sem gerist utan sviðsins. Gróa birtir sinn fyrsta pistil frá Ísrael á heimasíðu FÁSES í dag og býður upp á ansi þéttan slúðurpakka. Ein slúðursagan er þó sérstaklega áhugaverð.
„Gróa er búin að finna út að finnska og íslenska sendinefndin búa á sama hótelinu. Gróa mætti að sjálfsögðu á staðinn til að taka út aðstæður og komst að því að allur vodki á hótelbarnum væri að klárast,“ skrifar Gróa, en óvíst er hvort það eru Íslendingar eða Finnar sem eru svo þyrstir í vodka.
„Starfsfólki barsins ber ekki saman um hvor sendinefndin væri ábyrg fyrir þessari miklu aukningu í sölu á vodka. Líklegast gera heimamenn ekki greinarmun á hrognamálunum sem gestirnir úr norðri tala,“ bætir Gróa við.