Ástralska söngkonan Kate Miller-Heidke, sem keppir fyrir hönd Ástralíu í Eurovision með lagið Zero Gravity, er í viðtali við fréttamiðilinn Iceland Music News. Fjölmiðillinn fylgir Hatara í Tel Aviv vegna Eurovision, en Iceland Music News er undir sama hatti og Hatari þó miðillinn njóti ritstjórnarlegs sjálfstæðis.
Kate Miller-Heidke hefur vakið talsverða athygli eftir fyrstu æfinguna í Tel Aviv og rýkur upp vinsældarlista. Hún segir í viðtali við Iceland Music News fíla Hatara.
„Ég elska þá. Ég elska alla framsetninguna þeirra. Ég elska að sjá þá í viðtölum. Ég dái að horfa á þá. Líkama þeirra,“ segir Kate. „Já, þeir heilla mig og mér býður við þeim á sama tíma. Eins og brenglaður segull. Ég óttast þá dálítið líkamlega, á heillandi hátt.“
Þá er Kate einnig spurð út í hvað henni finnist um gagnrýni Hatarameðlima á ástandið í Ísrael og hve umdeildir keppendur þeir séu í Eurovision.
„Mér finnst frábært að þeir séu hér. Mér finnst að listamönnum eigi að vera frjálst að segja það sem þeim liggur á hjarta. Það er málið með tónlist og list að hún á að rjúfa múra og vera óttalaus.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: