Fyrsta æfing Hatara á stóra Eurovision-sviðinu í Tel Aviv var í gær, en sveitin keppir fyrir Íslands hönd í fyrri undanúrslitariðlinum í keppninni þann 14. maí næstkomandi.
Almennt hefur Hatara verið tekið vel eftir þessa fyrstu æfingu og margir Eurovision-spekingar sem spá sveitinni áfram í úrslit. Margir ganga svo langt að velta fyrir því sér hvort þetta atriði gæti unnið keppnina, en úrslitakvöldið fer fram þann 18. maí.
Það er þó eitt við atriðið sem Eurovision-spekingar eru ósáttir við og það er að Einar Stefánsson, svokallað trommugimp, er ekki lengur með hamar til að lemja húðir eins og hann var með í Söngvakeppninni. Hamrinum virðist hafa verið skipt út fyrir svipur, svokallað „flogger“ á BDSM-máli, og fer það illa ofan í aðdáendur sveitarinnar.
Mikil umræða hefur skapast um þetta innan Eurovision-samfélagsins á Reddit.
„Ég sakna hamarsins og ég fíla ekki svipurnar,“ skrifar AtliK. „Hjartanlega sammála með það að svipan sé verri en hamarinn,“ skrifar notandinn Shaddam Corrino IV. Notandin ncalistochew kallar svipurnar „kjánalegar“.
Við myndband af fyrstu æfingu Hatara á YouTube er sama hljóð í aðdáendum, þó að flestir séu sammála um að æfingin í heild sinni lofi góðu.
„Einar lítur skringilega út með þetta, bara veifandi hingað og þangað,“ skrifar Honey Stump. „Nákvæmlega það sem ég var að hugsa,“ svarar Alice Horoshev. „Svipurnar líta út eins og dúskar fyrir klappstýrur sem eyðileggja stemninguna,“ bætir hún við. „Æðisleg frammistaða en Einar virðist vera að dusta ryk af einhverju,“ skrifar Le KevKev21.
Innan Eurovision-hópsins Júróvisjón 2019 á Facebook hefur einnig verið kvartað undan svipunum.
„Komst hamarinn ekki í gegnum tollinn? Þetta er glatað!“ skrifar einn aðdáandi og annar bætir við: „Finnst það hálf kjánalegt að hafa þessar svipur.
Einn kallar svipurnar fjaðraskúfa og öðrum aðdáanda er ekki skemmt.
„Það vantar hamarinn!!! Hlýtur að vera hægt að versla einn slíkan þarna úti….. hvaða vitleysa er þetta?“
Einhverjir velta fyrir sér hvort hamarinn hafi verið bannaður, en Rúnar Freyr Gíslason, starfsmaður Söngvakeppninnar sem er með Hatara í Tel Aviv segir svo ekki vera í samtali við DV.
„Þetta er bara listræn ákvörðun,“ segir hann, en vill ekki gefa upp hvort svipurnar séu komnar til að vera. „Það er ekki öruggt. Þau eru alltaf að þróa og pæla. Eins og alvöru listamenn gera.“