Ef þú ert á meðal þeirra sem sáu kvikmyndina Avengers: Endgame og fannst fyrir táraflóði, þá eru ófáir í sömu stöðu. Vefurinn CinemaBlend greinir meðal annars frá atviki sem átti sér stað um helgina í Kína, þegar kona á þrítugsaldri var flutt á bráðamóttökudeild eftir að hafa verið stödd á sýningu kvikmyndarinnar.
Ljóst er að myndin hafi verið mörgum gríðarlegt tilhlökkunarefni og hefur hún þótt ýmsum átakanleg en hermt er að umræddur bíógestur var farinn að ofanda eftir stjórnlausan grát á meðan á myndinni stóð. Konan náði þó að klára myndina, en viðbrögðin voru farin að magnast eftir á og átti hún erfitt með öndun skömmu eftir að myndinni lauk. Þá þurfti að hringja á sjúkrabíl og dæla súrefni í konuna þangað til hún var komin á bataveg.
Öruggt er að segja að Avengers: Endgame hafi malað gull í miðasölu yfir síðastliðna helgi. Myndin setti aðsóknarmet í Bandaríkjunum um helgina og halaði myndin inn rúman milljarð í bandaríkjadölum. Rúmlega 30 þúsund manns sáu myndina á Íslandi fyrstu fimm dagana í sýningu, en á sumum stöðum myndaðist mikil biðröð fyrir framan salina.
Fastlega er gert ráð fyrir því að myndin haldi áfram að slá met í aðsókn á komandi vikum og leynir það sér ekki að myndin snerti við ófáum áhorfendum.