Það var aldeilis hiti í þættinum Alla leið á RÚV í gærkvöldi þar sem farið var yfir fyrri helming seinni undanúrslitakvöldsins í Eurovision, en keppnin verður haldin í Ísrael í maí.
Það má með sanni segja að lagið sem hafi tvístrað dómnefndinni hafi verið sænska framlagið Too Late For Love sem flutt er af John Lundvik. Söngkonurnar Helga Möller og Karitas Harpa gáfu laginu báðar tólf stig, söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld gaf því tíu stig en Eurovision-aðdáandinn og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunna, Jóhannes Þór Skúlason, gaf laginu aðeins eitt stig, sem er lægsta einkunn sem hægt er að gefa í alla leið.
„Hvað er að ykkur?“ hváði Jóhannes þegar að einkunnirnar voru afhjúpaðar og þá spurði Helga Möller um hæl: „Bíddu, fékkst þú höfuðhögg?“
Jóhannes skildi hvorki upp né niður í einkunnagjöf kvennanna í myndverinu.
„Hvað voruð þið að horfa á?“ spurði hann áður en hann réttlætti ásinn sem hann gaf Svíanum knáa. „Í fyrsta lagi er enginn alltaf svona glaður nema kannski þú [Felix Bergsson, þáttastjórnandi]. Í öðru lagi getur hann ekkert gert nema taka jakkafatadansinn í þrjár mínútur. Það er ekkert í þessu atriði nema þessar bakraddasöngkonur. Í þriðja lagi þá er þetta lag álíka leiðinlegt og austurríska lagið sem dómnefndir sögðu vera best fyrir tveimur árum síðan,“ sagði Jóhannes og bætti við. „Það er bara ekkert í þessu lagi. Hann fær einn af því að hann er ógeðslega sætur og that’s it.“
Salka Sól var einfaldlega hneyksluð á Jóhannesi.
„Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég er svo ósammála öllu sem kom hérna. Mér finnst þetta bara æðislegt og það sem Eurovision lag þarf að hafa.“
Karitas Harpa var afar hrifin af laginu, sem og Helga Möller sem líkti John Lundvik við Friðrik Ómar, sem lenti í öðru sæti í Söngvakeppninni með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? Líkt og John var Friðrik með gospelkór sér við hlið.
„Svo er þetta svartur Friðrik Ómar,“ sagði Helga. „Hann er í öllu svörtu og kannski ef Friðrik Ómar hefði verið í öllu svörtu hefði hann unnið. Svíar eru snillingar í að búa til lög. þetta er svona formúlulag sem þeir gera upp á 10,“ sagði hún og bætti við: „Hann minnti mig á Friðrik Ómar því Friðrik Ómar gerir allt 100%.“
Jóhannes gat ekki orða bundist og rak síðasta naglann í líkkistu Too Late For Love.
„Þetta er eins og Sigur Rós. Allt ógeðslega vel gert, bara rosalega leiðinlegt.”