fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

„Ég vildi bara fá að vita hvort þetta væri krabbamein eða ekki“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 14. apríl 2019 10:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Biðin eftir niðurstöðunum fannst mér mjög erfiður tími. Það var svo mikil óvissa og mér fannst tíminn endalaust lengi að líða. Ég vildi bara fá að vita hvort þetta væri krabbamein eða ekki,“

segir Ólöf Gunnlaugsdóttir 42 ára, einstæð móðir þriggja barna sem greindist með illkynja æxli í brjósti og holhönd fyrr á þessu ári. Ólöf sem er búsett í Reykjavík með börnunum sínum, Eydísi Örnu, 13 ára, Arnari Mána, 11, og Nökkva Degi, 10, fann fyrir hnút í hægra brjósti á mánudagskvöldi þann 21. janúar. Ólöf hafði ekki miklar áhyggjur til þess að byrja með en ákvað þó að fara til heimilislæknis tveimur dögum seinna.

„Honum fannst ástæða til að skoða þetta betur og sendi beiðni á leitarstöðina. Viku seinna fór ég í röntgen, ómskoðun og tekið var fínnálarsýni. Læknirinn var ekki alveg viss um hvað þetta var, þar sem þetta leit ekki út eins og illkynja æxli en ekki heldur eins og vökvablaðra. Sunnudaginn 3. febrúar hringdi læknirinn svo með niðurstöður úr sýninu og höfðu fundist slæmar frumur í því sem skoða þurfti betur. Við tók erfið bið eftir frekari rannsóknum og niðurstöðum úr þeim. Á miðvikudeginum mætti ég aftur í leitarstöðina og fór í grófnálarsýnatöku og fínnálarsýnatöku úr holhöndinni.“

Óvissan og biðin erfiðust / Mynd: Hanna

Biðin eftir niðurstöðunum var verst

Eftir þessa rannsókn tók enn og aftur við erfið bið en sex dögum síðar, þriðjudaginn 12. febrúar, átti Ólöf tíma hjá skurðlækni á Landspítalanum. Sá fundur átti eftir að umturna lífi Ólafar.

„Hann staðfesti að hnúturinn væri 2,5 sentimetra illkynja æxli og að einnig væri æxli í holhöndinni. Þá tóku við alls konar rannsóknir og myndatökur. Lífið varð einn tilfinningarússíbani, upp og niður, og fram undan beið mín stórt verkefni. Í ljós kom að ég þurfti að fara í sex lyfjameðferðir, skurðaðgerð og geisla.“

Ólöf segir biðina eftir niðurstöðunum hafa verið erfiðasta. Hún upplifði mikla óvissu og vildi fá staðfestingu á því hvort um krabbamein væri að ræða eða ekki.

„Því að ef þetta var krabbamein þá vildi ég takast á við það sem fyrst. Þegar ég fékk svo endanlega niðurstöðu þá var ég sjálf orðin nokkuð viss um þetta, svo það kom mér lítið á óvart þegar læknirinn greindi mér frá því að þetta væri illkynja æxli. Fyrst eftir greiningu kom stundum upp sú hugsun hjá mér hvernig í veröldinni ég ætti að takast á við krabbameinsmeðferð. Einstæð með þrjú börn sem ég er alfarið með ein, en pabbi þeirra hefur ekkert verið í þeirra lífi í mjög mörg ár.“

Ólöf: „Við höfum verið leið og fúl yfir þessu, enda er þetta hundfúlt ástand, en við höfum líka hlegið og fíflast með þetta“ /Mynd: Hanna

Ræðir veikindin opinberlega við börnin

Á sama tíma tekst Ólöf á við það að yngri sonur hennar er einhverfur og dóttir hennar á að fermast á þessu ári.

„Ég ákvað samt hins vegar strax að taka þessu á mjög jákvæðan hátt og komast í gegnum þessa baráttu með gleði og jákvæðni. Ég er líka með svo yndislegt stuðningsnet í kringum mig sem hjálpar heilan helling og ég er endalaust þakklát fyrir það. Ég á frábæra vini og yndislega fjölskyldu sem stendur eins og klettur á bak við mig. Mamma mín og systir hafa fylgt mér eins og skuggi í gegnum þetta allt saman sem er algjörlega ómetanlegt.“

Ólöf tók þá ákvörðun að greina börnum sínum strax frá því hvað væri í gangi og vera ekki að bíða með það og skapa óvissu hjá þeim.

„Ég sagði börnunum mjög snemma frá þessu eftir að ég fór í fyrstu sýnatökuna á leitarstöðinni. Ég sagði þeim að það væri verið að athuga hvort þetta væri krabbamein eða eitthvað annað. Krakkar eru svo ótrúlega næmir og þeir finna á sér þegar eitthvað er í gangi. Mér fannst betra að leyfa þeim að fylgjast með heldur en að þau væru að ímynda sér hvað væri að gerast. Auðvitað urðu þau mjög hrædd fyrst, enda er mjög óhugnanlegt að heyra að einhver sé mögulega með krabbamein. En við ræddum þetta mikið og hvað þetta gæti verið. Þegar niðurstaðan kom svo, þá voru þau búin að melta þetta aðeins og það var þá miklu minna áfall fyrir þau að heyra niðurstöðuna.“

Ólöf ákvað strax að vera mjög opin um veikindi sín við börnin og leyfa þeim að ræða þau við sig eins og þau vildu.

„Við höfum verið leið og fúl yfir þessu, enda er þetta hundfúlt ástand, en við höfum líka hlegið og fíflast með þetta, sem mér finnst mjög mikilvægt til þess að létta andrúmsloftið. Þau eru alveg ótrúlega sterk og eru að takast á við þetta allt saman á frábæran hátt. Ég er mjög stolt af þeim fyrir hvernig þau takast á við þetta.“

Fólk tekur greiningu á ólíkan hátt

Ólöf hefur reynt eftir bestu getu að halda daglegu lífi þeirra gangandi og tekur þátt í því sem börnin eru að gera eins og heilsan leyfir.

„Ég er núna búin með tvær lyfjameðferðir af sex og er ég í frekar kröftugri meðferð. Ég fer á þriggja vikna fresti og fæ fjögur lyf í hvert skipti. Lyfin fara ágætlega í mig en ég er svona sjö til tíu daga að ná mér góðri aftur. Svo ég næ alveg góðum dögum inni á milli, sem ég reyni að nýta vel til þess að gera allt sem þarf að gera. Eftir lyfjameðferðina er skurðaðgerð fram undan og svo geislar þar á eftir. Æxlið er búið að minnka töluvert sem er mjög jákvætt og það er gott að sjá að lyfin eru að hafa áhrif.“

Ólöf tók þá ákvörðun að deila reynslu sinni af veikindunum með fólki vegna þess að þegar hún var í greiningarferlinu þá fannst henni mjög hjálplegt að geta lesið sér til um aðrar konur sem gengið höfðu í gegnum það sama.

„Það hjálpar mér líka í því að takast jákvætt á við þetta að vera opin með ferlið og það sem ég er að ganga í gegnum. Ég tók eftir því að fyrst voru margir sem voru örlítið hikandi í kringum mig og vissu ekki hvað þeir ættu að segja við mig. Hvort það ætti að minnast á þetta eða láta sem ekkert væri. Sem er alveg skiljanlegt. Þetta eru skrítnar aðstæður og fólk tekur því á ólíkan hátt að greinast með krabbamein.“

Á Instagram má fylgjast með Ólöfu og baráttu hennar við krabbameinið undir notandanafninu: olofgunnlaugs

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“