Umræðuefni síðasta hlaðvarpsþáttar dægurmáladeildar DV var píkuheilsa og var það kynfræðingurinn Sigga Dögg sem var gestur þáttarins. Sigga Dögg vill opna umræðuna um píkuheilsu og hvetur konur til að tala meira um píkur, ekki bara blæðingar og fæðingar. Hún segir til dæmis frá því þegar að vinkona hennar spurði hana í fyrsta sinn hvort hún hefði einhvern tímann gripið eggið sitt þegar að hún væri á egglosi.
„Ég man þegar þetta var sagt í fyrsta sinn við mig og ég hugsaði: Haltu útidyrahurðinni. Hvað ertu að tala um?“ segir Sigga.
„Þegar maður er á egglosi getur maður oft séð eggið. Það getur komið í brókina eða þegar þú skeinir. Það er „extra stretchy“. Það getur verið gráleitt eða hvítleitt og það er hægt að teygja það massívt,“ segir Sigga. „Þetta er bara eins og pínulítil horklessa. Ef hún er mega teygjanleg þá er ekki ólíklegt að þetta sé eggið.“
Sigga segir einnig söguna af því þegar hún átti í erfiðleikum með að ná túrbikarnum sínum út eitt sinn og segir afar mikilvægt að konur tali um þessa hluti því það eru allar líkur á að fleiri konur hafi lent í því sama.
„Það er svo frelsandi að fá að hlæja að þessu.“
Sjá einnig: Frægur poppari sagði Siggu Dögg frá brellu í bólinu: „Maður þurrkar í rúmið og heldur áfram“
Sigga tekur eitt dæmi úr barnæsku sinni sem stendur í henni. Það varðar vinkonu hennar sem þurfti hjálp.
„Vinkona mín kom til mín og sagði: Túrtappinn. Ég gleymdi að taka hann út – ég er með tvo inni í mér. Ég man svo eftir þessu. Við vorum unglingar og vorum í ferðalagi og ég sagði: Ég hef ekkert fyrir þig núna. Þú ert ein á eyðieyju,“ segir Sigga og hlær. „Hún var heillengi inni á klósetti að gramsa eftir honum og náði honum loksins út. Hann var krumpaður og kraminn. Komin ógeðsleg lykt og allt í rugli. Við vorum bara unglingsstúlkur, við fengum enga þjálfun í þessu. Við vorum bara: Við skulum aldrei ræða þetta aftur. Þú skalt bara redda þínum píkumálum og ekki ræða þetta við mig. En hún vildi svo mikið tala um þetta,“ segir Sigga og bætir við:
„Það liggur við að ég sendi á Facebook: Fyrirgefðu að ég stóð ekki með þér í tveggja túrtappa málinu um árið.“
Horfa má á hlaðvarpsþátt dægurmáladeildar í heild sinni hér fyrir neðan: