Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson er í ítarlegu viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson á Hringbraut, þar sem hann er meðal annars spurður um hvernig hann kynntist eiginkonu sinni, Ingibjörgu Pálmadóttur.
„Hversu hræddur varstu þú við þá ákvörðun að Herra Bónus væri að byrja með ungfrú Hagkaup?“ spyr Sigmundur Ernir og ekki stendur á svörunum hjá Jóni Ásgeiri.
„Ég held að við höfum hvorugt litið á það þannig að þarna væri Hagkaup og Bónus að renna saman í eina sæng,“ segir hann og heldur áfram. „Það voru engir viðskiptahagsmunir að baki.“
Það skal engan undra að hjónin kynntust í vinnunni.
„Það var þannig að fyrirtæki voru með ráðstefnur, eða fóru á „brainstorming“ fund erlendis, og þar kynntumst við og það var ekki aftur snúið,“ segir Jón Ásgeir.
Jón Ásgeir og Ingibjörg gengu í það heilaga árið 2007 og var talað um brúðkaup aldarinnar, enda ekki á hverjum degi sem börn eiganda tveggja stærstu verslana Íslands, Bónus og Hagkaupa, láta pússa sig saman. Jón Ásgeir segir hjónalífið ganga vel.
„Við erum búin að ganga í gegnum margt. Hún er náttúrulega athafnasöm líka, hún er búin að gera fullt af glæsilegum hlutum,“ segir hann. „Við erum með svona „passion“ fyrir sömu hlutunum og erum að vinna saman og það gengur mjög vel. Svo rann þetta saman. Það var þannig.“