fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Unnar fór beint á fyllerí eftir sjálfsvígstilraun: „Ég ætla ekki að horfa á eftir börnunum mínum í kistuna“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 8. apríl 2019 20:00

Unnar og öndin: Unnar pantaði nokkur þúsund endur sem urðu tákn Pírata og dreifði á vegum Pírata.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Unnar Þór Sæmundsson er 28 ára gamall og fyrir nokkrum árum var honum ekki hugað líf eftir langvarandi neyslu fíkniefna. Afbrot, ofbeldi, neysla og sjálfsvígstilraunir voru daglegt líf Unnars Þórs, en fyrir þremur árum ákvað hann loksins að takast á við sjálfan sig. Hann fagnar bættu og betra lífi í dag, edrúmennsku og bættum samskiptum við sína nánustu og vill breyta meðferðar- og geðheilbrigðismálum til betri vegar svo enginn þurfi að feta sömu braut og hann gerði í áratug.

„Ég hef oft hugsað um hvaða áföllum ég hafi orðið fyrir í æsku sem ollu því að ég varð fíkill,“ segir Unnar, og bætir við að allir neysluvinir hans hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og/eða öðru ofbeldi, einhverjum sjokkerandi áföllum sem skýrt geta neyslu þeirra, en hann hafi ekki þurft áfall til að fara sömu leið. „Ég var svikinn svolítið.“

Hann segist hafa átt góða æsku hjá einstæðri móður sinni og vera mikill mömmudrengur, fæddur í Lúxemburg 4. maí 1990, en þar ráku móðurforeldrar hans hótel eftir að hafa selt íbúð sína hér heima. Hann er einkabarn móður sinnar, en á þrjár systur föður megin. Þriggja ára flutti hann ásamt móður sinni til Íslands og settust þau að á Flúðum, í sveitinni sem Unnar segist enn þá þykja vænt um, en hann sé ekki velkominn þar. Honum gekk vel framan af í skóla, en um 14 ára aldur tók neyslan við.

„Ég var ofvirkur með mikinn athyglisbrest og stóð alltaf út úr sem svarti sauðurinn í sveitinni. Mér gekk vel í skóla fram að 8. bekk, þá fór að halla undan fæti og ég fór að sækja í meiri spennu og sækja í efni. Fljótlega var ég, 14 ára gamall, farinn að redda mér amfetamíni, sem er alveg klikkað. Ég var stundum að fá send efni með rútunni.“

Dópaður daglega í Perú

Eftir grunnskóla tók við ár sem Unnar var skiptinemi í Perú, þar hélt neyslan áfram, fyrstu skref mikillar neyslu eins og hann segir sjálfur. „Fíkniefni voru ódýr þarna úti og það þekkti mig enginn nógu vel til að sjá að ég var alltaf dópaður. Ég var í mikilli neyslu og auðvelt fyrir mig að komast upp með það þarna hinum megin á hnettinum. Það var ekki eins og mamma gæti horft í augun á mér eða hringt í mig í tíma og ótíma.“

Þegar skiptinemaárinu lauk tók raunveruleikinn á Íslandi aftur við, Unnar byrjaði í námi við Menntaskólann á Laugarvatni og þurfti að finna önnur fíkniefni. „Það er ekki fræðilegur möguleiki að vera í kókaínneyslu á Íslandi nema eiga villu sem þú veðsetur,“ segir Unnar, sem hataði sjálfan sig á þessum tíma. Samhliða aukinni neyslu fór hann að stunda afbrot, bæði til að fjármagna fíknina og eins til að öðlast virðingu með því að hræða aðra. „Þegar ég var 18 ára gamall átti ákveðið atvik sér stað og ég flúði inn á Götusmiðjuna sem þá var, og á þeim tímapunkti var ég tilbúinn til að gefa meðferð séns. Eðlilega fann lögreglan mig, handtók mig í Götusmiðjunni og ég var látinn dúsa í fangageymslu á Selfossi. Ég legg ekki ábyrgð á lögregluna sem vinnur bara eftir ákveðnum verkferlum, en þarna var klárlega brotalöm í kerfinu. Þú handtekur ekki barn í meðferð. Ég lenti uppi á kant við kerfið og varð sífellt reiðari og það voru mín stærstu mistök að klára ekki meðferðina hjá Götusmiðjunni.“

Helflúraður: Unnar segist fá stundum athugasemdir vegna flúrsins og telja margir að það sé frá afbrotaferlinum. Staðreyndin er sú að stærstan hluta fékk hann eftir að hann varð edrú.

Beint á fyllerí eftir sjálfsvígstilraun

„Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta hefði aldrei verið gaman,“ segir Unnar þegar hann rifjar upp neyslutímabilið. „Ég skipti þessu í 30-30-30, þar sem 10 er eitthvað, 30 er bara „blackout“, 30 er volæði og ógeð og 30 er skemmtilegt og það er þetta skemmtilega sem gerir neysluna svona hættulega. Það koma skemmtilegir dagar, en maður áttar sig ekki á að það eru kannski dagarnir sem þú ert mest með hausinn í lagi.“

Samhliða því sem neyslan jókst, jókst vanlíðan Unnars og hann fór að leita að ástæðum til að enda líf sitt. „Það voru alls konar ástæður sem ég var búinn að hugsa mér. Kærasta mín á þessum tíma hætti með mér og það var frábær afsökun. Þá gat ég sagt að mér liði ekki illa út af mér, en gat komið ástæðunni yfir á einhvern annan. Ég borðaði fullt af betablokkurum, sem eru hjartapillur, lenti á sjúkrahúsi og var vart hugað líf. Lögreglan sótti mömmu í forgangsakstri upp á Flúðir þar sem þetta átti bara að vera búið þarna.

Ég hef nokkrum sinnum reynt sjálfsvíg, flest skiptin voru ákall um hjálp en í tvö skipti var mér virkilega alvara og ég endaði í öndunarvél. Í fyrra skiptið var ákveðið eftir einn og hálfan sólarhring að taka mig úr öndunarvélinni þar sem þeir töldu mig anda sjálfan og ekki ástæða til að hafa mig áfram í vélinni. Ég tók hins vegar vel við mótefnum og var vaknaður um kvöldið,“ segir Unnar og bætir við að honum hafi hlýnað um hjartað að sjá hversu margir vinir og ættingjar voru tilbúnir til að koma upp á spítala meðan hann barðist fyrir lífi sínu. „En á sama tíma hugsaði ég að nú ætti ég enga kærustu til að hætta með mér svo ég gæti gert þetta aftur. Ég varð því bara að setja upp grímuna og halda áfram og ég held að ég hafi verið kominn á fyllerí strax seinna um kvöldið.“

Óskrifaðar reglur gilda í undirheimunum

Aðspurður hvernig afbrot hann stundaði á neyslutímanum segist Unnar ekkert geta logið til um það, þar sem afbrot hans eru skráð í opinberum gögnum. Hann á að baki dóma fyrir ofbeldisbrot og hefur setið í fangelsi, bæði á Kvíabryggju og Litla-Hrauni. „Mér finnst oft erfitt að segja fólki að ég skilji ofbeldi í þeim heimi sem neyslan er og fólki finnst oft erfitt að skilja það. Þetta er harður heimur og þeir sem koma nýir inn í hann semja ekki reglurnar. Neysla og undirheimar snúast um óskrifaðar reglur og þær eru strangar. Ég hef lagt mikið á mig frá því að ég varð edrú til að skilja af hverju ég gerði ákveðna hluti, af hverju ég kom mér ekki út úr ákveðnum aðstæðum og hvernig ég get bætt fyrir þetta í dag. Þetta er ógeðslegur heimur og maður verður sjálfhverfur og neyðist til þess að vera það, þetta er bara hver fyrir sig, þótt þú sért í vinahópi þá verður þú að passa upp á þig og passa að þú lifir af næsta dag. Lært siðleysi er líklega lýsingin sem ég myndi nota, eins og maður hættir að kippa sér upp við að vinir manns deyi: „Æ, leiðinlegt það hefði verið gaman ef hann hefði náð sér á strik“.“ Fjölmargir vinir Unnars hafa fallið frá vegna neyslu.

Árið 2012 afplánaði Unnar dóm á Litla-Hrauni í þrjá mánuði og seinna fór hann á Kvíabryggju. Hann er gagnrýninn á stöðu fangelsismála og segir að markmiðið eigi að vera að skila föngum aftur út í samfélagið sem bættum og betri einstaklingum, sú sé þó ekki raunin. „Ég hafði þá trú að kerfið væri þannig að ég færi þar inn og fengi öll verkfæri til að bæta mig. Litla-Hraun er best hvað það varðar, ef þú vilt bæta þig þá ferðu þangað, þar er skóli, vinna, þar eldar þú sjálfur og allir eru í matarklúbbum. Fyrst þegar ég kom þar inn fannst mér það einstaklega lúðalegt, allir í matarklúbbum að elda saman,“ segir Unnar. „En samveran, eldamennskan og ábyrgðin gefur svo mikið, það er Margréti Frímann, sem kom þessu á, að þakka. Margrét er upphafið að björgunarlífinu mínu. Á annan í jólum átti ég að losna út og Magga gerði sér ferð austur til að hitta mig. Hún sagðist vilja hafa mig lengur inni, ég væri ekki tilbúinn til að fara. Ég sagði hana hins vegar engu ráða um það, ég væri farinn á fyllerí og ég var dottinn í það áður en ég kom út fyrir hliðið.“

Kvíabryggju segir Unnar hins vegar aðeins vera geymslu, þar sé ekkert við að vera, og æðislegt starfsfólk og nærsamfélag sem sé allt af vilja gert til að gera föngum lífið bærilegt, en geti þar engu breytt um, því miður. „Það var barist fyrir því að þar væri skóli og hann var starfræktur þegar ég var þar, en svo lagður niður stuttu eftir að ég fór þaðan. Á Litla-Hrauni er skólastofa og þú getur stundað nám þar á eigin hraða, hvort sem þú tekur áfanga á einni viku eða einu ári.“

Á sama hátt gagnrýnir Unnar hvað bíður fanga eftir að þeir hafa afplánað sína fangavist. „Ég hef ekki enn hitt neinn sem vill ekki fá afbrotamenn betri út í samfélagið, en við erum að skila reiðum einstaklingum út. Þú ert frelsissviptur og í seinni tíð hefur það setið í mér. Ég veit að ég var að borga fyrir það sem ég gerði. Hins vegar, þegar ég kem út, þá er mér bara hent út í samfélagið, ég nýtti mér allt sem ég gat og ég vann hörðum höndum í að bæta mig, kem svo út og það er ekkert.“

Flokkurinn orðinn fjölskylda Unnar er í ábyrgðarstöðu fyrir Pírata og flokksmenn þar eru orðnir eins og fjölskylda hans.

Brennur fyrir stjórnmál og bætt samfélag

Unnar Þór er í dag í sjálfboðastarfi sem gjaldkeri Pírata og prókúruhafi, og hefur setið tvisvar í stjórn Pírata í Reykjavík. „Þeir gáfu mér tækifæri til að sýna hvað í mér býr, treystu mér fyrir trúnaðarstöðu og veittu mér ábyrgð að bera. Þetta er samfélagshlutinn sem gaf mér nýtt líf, þetta er svo gefandi og mér þykir vænt um flokkinn minn og fólkið í honum.“

Hann brennur fyrir stjórnmálin og segist eiga sér það markmið að komast einn daginn á þing. „Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á stjórnmálum, en var löngu búinn að ákveða að þau væru eitthvað sem ég væri búinn að skemma fyrir mér,“ segir Unnar, sem barðist ötullega fyrir því árið 2016 að lítill drengur færi ekki í fóstur til vandalausra. Málinu lauk með því að drengurinn flutti til föður síns í Danmörku, sem fékk fullt forræði yfir syni sínum. „Þarna sá ég að ég gat haft áhrif, ég bjargaði litlu barni.

Ég ákvað strax í upphafi að fela ekki fortíð mína, bæði af því að hún er hluti af mér og eðlilega, í pólitík, verður hún skotspónn. Ég hef eitthvað fram að færa og ég ætla ekki að hlusta á fýlupokana sem vilja bara skemma fyrir mér með fortíð minni. Ég ætla að nota hana, frekar en láta hana og alla eymdina úr henni verða til einskis.“

„Ég ætla ekki að horfa á eftir börnunum mínum í kistuna“

Geðheilbrigðis-, vímuefna-, meðferðar- og fangelsismál eru málin sem Unnar telur sig geta haft áhrif á.

„Ég hef veigrað mér við að taka þátt í umræðunni um neyslu, vímuefni, lögleiðingu, afglæpavæðingu, regluvæðingu eða hvað sem fólk vill kalla það. Mér hefur ekki fundist ég gjaldgengur í þessa umræðu og skammast mín fyrir að ætla að segja fólki til eins og ég viti betur. En fólkið sem er að setja reglur og smíða ramma veit oft ekki um hvað það er að tala um. Okkur finnst eðlilegt að eiga samráð við fatlað fólk um þeirra málefni, foreldra um málefni barna, aðilar máls eðlilega ættu að fá að vera hluti af ferlinu, annað er svo gömul hugsun. Ég hef heilmikið fram að færa á þessu sviði, ég er með 10 ára reynslu úr neyslu og meðferðum. Viltu frekar einhvern sem hefur aldrei kynnst þessu?

Því lengur sem við hundsum þetta, því fleiri börn okkar deyja. Mig langar til að nýta þessa viðbjóðslegu þekkingu sem ég er með, ég vil ekki að börnin mín eða barnabörnin verði í sömu sporum og ég var. Við þurfum að breyta samfélaginu og bjarga eins mörgum og við getum. Við erum með þekkinguna, eymdina, gleðina, öll tæki og tól, við þurfum bara að hætta að ýta þessu á undan okkur og fara að framkvæma,“ segir Unnar, en móðursystir hans jarðaði dóttur sína, sem var á sama aldri og Unnar. Hún svipti sig lífi eftir langvarandi neyslu. „Fjölskyldan mun aldrei bera þess bætur. Ég ætla ekki að horfa á eftir börnunum mínum í kistuna, það á enginn að þurfa að jarða barnið sitt.“

Framtíðin er björt Unnar er sáttur við lífið í dag, en fíkn og afbrot voru áður daglegt brauð.

„Fortíðin minnir mig á hvert ég er kominn“

Sjálfur hefur Unnar farið í fjölda meðferða og flestar á Vogi. „Flestir fara í 20–30 meðferðir, sú fyrsta setur af stað ákveðið ferli. Ég er oft spurður ráða um hvaða árangri meðferð muni skila þegar börn vina minna eða kunningja eru komin í meðferð og ég svara hreint út að þau skuli ekki gera ráð fyrir sjáanlegum árangri í þeirri fyrstu eða fyrstu tíu. Það sem gerist er hins vegar að það fer ferli af stað í höfðinu á barninu, þekking og verkfæri sem það lærir að nýta.

Fortíðin er alltaf að bíta mig í rassinn, en um leið og einhver minnir mig á fortíð mína þá er hann á sama tíma að minna mig á hversu langt ég er kominn,“ segir Unnar. „Ég er kannski ekki meðvitaður um allan skaðann sem ég olli á þeim tíma sem ég var í neyslu, en ég reyni á hverjum degi að gera eitthvað gott til að bæta fyrir það, sem er kannski klisjukennt en engu að síður staðreynd.

Síðustu þrjú ár hafa verið bestu ár ævi minnar. Ég hef fengið að mynda einstakt samband við börnin mín, dóttur mína og börnin tvö sem konan mín átti fyrir, konuna mína, móður mína. Hvernig gat ég eytt öllum þessum árum í kjaftæði þar sem allt snerist um eyðileggingu, tortímingu á sjálfum mér, þar sem hver dagur snerist um að finna ástæðu til að slútta þessu,“ segir Unnar.

„Í dag reyni ég að vera einlægur og æðrulaus, gera vel og betur á hverjum degi, passa upp á börnin mín. Ég gæti ekki átt fallegra líf eins og ég átti ógeðslegt líf áður. Ég styrkist í þeirri sannfæringu minni á hverjum degi að það er von fyrir alla, ég er lifandi sönnun þess.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja
Fókus
Fyrir 3 dögum

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“