Miðvikudaginn 10. apríl fer nýstárleg keppni fram á skemmtistaðnum Gauknum í Reykjavík. Þar mun fyrsta luftgítarkeppni Íslands fara fram, vinningshafar hennar munu hreppa armbönd á rokkhátíðina Eistnaflug sem haldin verður í Neskaupstað í júlí.
Vinningshafi þar, Íslandsmeistarinn í luftgítar, mun síðan keppa í heimsmeistarakeppninni í Finnlandi. „Það er til mikils að vinna,“ segir Erla Rut Haraldsdóttir, einn skipuleggjenda keppninar og Eistnaflugs. „Dómarar keppninnar eru Magný Rós Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Eistnaflugs, Ómar Úlfur Eyþórsson útvarpsmaður og Óskar Logi Ágústsson, söngvari og gítarleikari Vintage Caravan. Við hvetjum alla áhugasama til að taka þátt og rokkunnendur til að mæta, þetta verður mega gaman og skemmtileg keppni.“
Skráning fer fram á luftgitar@eistnaflug.is. Húsið verður síðan opnað kl. 20.30 og það kostar litlar 1.000 kr. inn.