Sigurður Sólmundarson varð landsþekktur sem Costco gaurinn vegna myndbanda sem hann birti á Facebook. Eftir skelfilegt bílslys stuttu fyrir jólin 2018 stendur hann á krossgötum hvað atvinnumál varðar. Hann segist vera athyglissjúkur með eindæmum, en líður þó best einum með sjálfum sér. Blaðamaður settist niður með Sigurði yfir kjötbollum í Ikea og ræddi lífið og tilveruna og fór síðan jómfrúarferð sína í Costco undir dyggri handleiðslu Sigga.
Þetta er hluti af stærra viðtali í helgarblaði DV.
Fór í drasl eftir bílslys á aðventu
„Þetta var einn af þessum dögum þegar maður á ekki að fara fram úr,“ segir Siggi um 12. desember 2018. „Ég hætti snemma í vinnunni og var að keyra heim þegar ég datt bara út, einhver sauðsháttur. Það kom bíll á móti og ég sveigði á minn vegarhelming en þá kom hinn bíllinn í hliðina á mér. Maður fór í drasl en það er allt að koma. Ég man ekkert rosalega vel eftir þessu, hausinn er magnaður, maður blokkar út rest. Ung stelpa var í hinum bílnum, hún slapp ótrúlega vel, bara nánast alveg. Sem betur fer, það hefði verið töluvert erfiðara að lifa með þessu hefði það ekki verið.“
Siggi braut olnboga, úlnliði, læri og ökkla. „Þetta fór eiginlega allt í spað, nema höndin slapp vel. Ég er allavega orðinn góður í henni. Hitt fór helvíti illa og það tekur tíma að jafna sig á því, en það kemur vonandi að mestu leyti til baka,“ segir Siggi sem var á spítala í fimm vikur og í hjólastól í rúma tvo mánuði. „Það var ekki gaman, það var rosa munur að komast á hækjur.
Ég var með góða æfingu, þar sem ég slasaði mig illa árið 2011 og þá var ég á hækjum í meira og minna ár. Ég fékk vinnuvél á löppina á mér, braut allt í hnénu og var í stöðugum aðgerðum þá, þannig að ég er kominn með gott safn af nöglum. Mér telst til að ég hafi verið með átján, svo var tekin ein og hálf skrúfa, þannig að ég er með sextán og hálfa, held ég, í löppunum. Það er títaníum í þessu og það pípir ekki, það er út af einhverju öðru sem pípir á mig.“
Siggi var með lágmarkstryggingar þegar hann lenti í slysinu, bara þessar dæmigerðu slysatryggingar. „Maður verður ekki ríkur af þessu, það er alveg á hreinu. Ég hefði tryggt mig betur ef þetta hefði átt að bjarga fjárhagnum.“