fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Frægir Íslendingar á fermingardaginn: Sjáðu myndirnar

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 31. mars 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fermingar eru framundan, en þær fyrstu voru 24. mars. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru einstaklingar sem verða 14 ára í ár um 4.300 talsins og því ljóst að mikill fjöldi mun fermast, þó að alltaf séu einhverjir sem kjósi að sleppa því.

Þau okkar sem hafa fermst eiga minningar um fermingardaginn; góðar, slæmar, vandræðalegar, fyndnar og allt þar á milli.

DV fékk nokkra þekkta einstaklinga til að rifja upp fermingardaginn og deila með lesendum mynd og minningu frá þessum merkisdegi.

Margrét Maack.Mynd: Oddvar Hjartarson

Margrét Erla Maack danskennari og veislustjóri, 26. apríl 1998, Dómkirkjan
„Ég var mikill lúði í kringum ferminguna mína og vildi ekki fylgja tískustraumum og er gríðarlega þakklát fyrir það í dag. Ég fermdist í klassískum brúðarkjól móður minnar og hannaði fermingargreiðsluna með hárgreiðslukonunni upp úr nokkrum myndum úr tískublöðum, en ekki í kínakjól og kuldaskóm eins og margar vinkonur og mamma setti á mig eyeliner í fyrsta sinn. Veislan var geggjuð og stóð yfir næstum að miðnætti, stútfull af skemmtiatriðum og ræðum, dansatriði og frábærum heimatilbúnum mat úr ástareldhúsi foreldra minna.“

Listamaðurinn Odee, Oddur Eysteinn Friðriksson, 6. apríl 1997
„Það var eftirminnilegur dagur því amma mín fótbrotnaði í kirkjunni og sjúkrabíll þurfti að sækja hana í miðri athöfn. Hún sagði að það hefðu verið djöflar í kirkjunni. Í veislunni heima var ég í dökkblárri skyrtu og með fyrsta bindið mitt. Bindið hafði ég valið sjálfur en það var rautt með teikningum af sólum með sólgleraugum.“

Mynd: Baldur Smári Ólafsson

Ingólfur Ragnarsson Geirdal, tónlistar- og töframaður, 25. apríl 1982
„Ég fermdist vorið 1982 og fékk frá foreldrum mínum utanlandsferð til frænku minnar sem þá bjó í Seattle, heimabæ Jimi Hendrix. Fyrir fermingarpeningana keypti ég minn fyrsta rafmagnsgítar og bassa handa Silla bróður ásamt vinylplötum með Alice Cooper, AC/DC, Deep Purple, Jimi Hendrix og fleirum. Hljóðfærin voru ódýrar eftirlíkingar en dugðu okkur til að læra eftir plötunum og má segja að þarna hafi verið lagður grunnurinn að tónlistarsamstarfi okkar bræðra, sem hefur varað æ síðan.“

Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður, 12. apríl 1990
„Af einhverjum ástæðum man ég nánast ekkert eftir þessum degi. Ég held samt að þetta sé rétt fermingardagsetning. Ég veit ekki hvort þetta minnisleysi sé vegna þess að dagurinn var svona nauðaómerkilegur eða að hann hafi verið svo hræðilegur að þetta séu náttúruleg verndarviðbrögð sálarinnar. Kannski tók svona á að segja „hénna, takk fyrir komuna og gjörið þið svo vel“ við gestina. Ég man samt að veislan var heima og að ég fékk meðal annars forláta fyrstu kynslóð af Hyundai PC tölvu með grænum skjá c:\gelgjuskeið>dir.“

Þráinn Freyr Vigfússon kokkur og eigandi ÓX og Sumac Grill + Drinks, 9. mars 1995
„Man bara eftir glæsilegu hlaðborði í veislunni. Já og ég spurði séra Hjálmar Jóns hvaða vikudag pálmasunnudagur væri eiginlega.“

Atli Steinn Guðmundsson lagerkall, prófarkalesari og fréttaritari, 27. mars 1988
„Það var fallegur sunnudagur, 27. mars 1988, þegar séra Bragi Friðriksson heitinn sletti á mig skinninu, eins og það var kallað til forna þegar illa uppfrætt barn var fermt. Þetta var í Garðakirkju og lítið rætt um það á þessum tíma hvort nafnalistar fermingarbarna í fjölmiðlum teldust birting viðkvæmra persónuupplýsinga um trúarskoðanir. Ég valdi mér ritningargrein úr sálmum Davíðs í von um að komast að því hvar hann hefði keypt ölið þrátt fyrir bjórbann sem enn gilti á Íslandi þetta vor. Síðar tók ég ásatrú en hef nú snúist til búddisma.“

Bjarni Hafþór Helgason, tónskáld og fyrrum fjölmiðlamaður, 2. maí 1971, Húsavíkurkirkja
„Ég vildi ekki láta taka af mér sérstaka fermingarmynd, þannig að hún er ekki til. Ég fékk góðar hefðbundnar fermingargjafir en þó vakti nokkra athygli gjöfin frá foreldrunum en það var 22 calibera riffill. Ég var 14 ára og þurfti að bíða í tvö ár með að fá að skjóta úr honum en á þessum tíma fékk maður byssuleyfi 16 ára. Ég hafði mikið talað um að það væri stóri draumurinn minn að eignast riffil, pabbi og mamma ákváðu að láta það eftir mér og gerðu mig alveg himinsælan. Það var tekin af mér ein ljósmynd með riffilinn á fermingardeginum. Ég held að skotvopn séu ekki algeng í gjafapökkum fermingarbarna, hvorki fyrr né síðar.“


Bjarni Hafþór ásamt fermingarsystkinum sínum.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, ráðgjafi og einn af stofnendum Miðflokksins og annar varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík,  14. apríl 1985, Breiðholtskirkja
„Prestur var séra Lárus Halldórsson heitinn sem var prestur í Breiðholtskirkju. Á þessum tíma var kirkjan í byggingu og því fór athöfnin fram í Bústaðakirkju. Ég fékk Sanyo útvarps- og kassettutæki sem var með tvöföldum kassettuspilara. Það þótti því vinsælt að taka upp vinsældarlista Rásar tvö. Ég fékk alls 27 þúsund krónur í peninga og veislan var haldin heima hjá mér. Um kvöldið þegar ég lagðist þreyttur til svefns hafði mamma keypt ný rúmföt og búið um rúmið mitt. Líklega hef ég aldrei sofnað eins vel enda frábær dagur sem var að baki.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024