Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson var gestur Loga Bergmanns í þættinum Með Loga sem sýndur var í gærkvöldi á Sjónvarpi Símans. Í þættinum ræða þeir frægðina, ferilinn, sjálfstraust, ímynd og í hverju foreldrahlutverkið felst. Þá ræðir leikarinn líka um brottrekstur sinn úr Borgarleikhúsinu, sem hann segir hafa í raun markað ákveðið upphaf á erfiðum tíma.
„Ég ákvað ekki að verða leikari fyrir alvöru fyrr en ég var rekinn úr Borgarleikhúsinu,“ segir Ólafur og segir ferlið ekki hafa verið smekklega gert, enda var hann rekinn sama dag og hann átti að stíga fram á svið.
„Ég var heppinn að vera í nágrenninu þegar leikhússtjórinn bað mig um að kíkja til sín áður en ég fer að sýna. Það var líka önnur leikkona sem átti að vera, en það náðist ekki í hana. Hún var rekin klukkan sjö, en við áttum að sýna klukkan átta. Þetta var algjörlega absúrd.“
Ólafur segir höfnun vera rosalega sterka reynslu, sem bæði getur brotið mann en einnig styrkt, ef úr henni er unnið. Leikarinn telur sig heppinn að geta verið í þeirri aðstöðu sem leikari að fá að velja úr verkefnum og hefur annað slagið komið upp að hann þurfi að klípa sig og endurskoða veruleikann. Þetta gerðist til dæmis við tökur á kvikmynd Bens Stiller, The Secret Life of Walter Mitty þegar hann stal senunni sem drukkinn þyrluflugmaður á Grænlandi. Hins vegar talar hann líka um fáeina skelli sem hann hefur fundið fyrir og fóru ekki öll verkefni eftir væntingum, stundum var það vegna stress.
„Það hefur tvisvar eða þrisvar sinnum gerst á ferlinum þar sem ég er næstum því kominn með hlutverk, hlutverk sem allir vilja að ég fái, og ég klúðra prufunni,” segir Ólafur og nefnir eitt eftirminnilegt dæmi sem tengist stórfrægu verkefni frá kvikmyndagerðarmanninum Peter Jackson. „Ég fór í prufu fyrir Hobbitann. Ég var fullkominn í það hlutverk og ég fullkomlega skeit á mig í prufunni.”
Leikarinn segir ekki til um hvaða hlutverk í Hobbitanum var að ræða, en gefur í skyn að um mikilvæga rullu hafi verið að ræða. Hins vegar hélt leikarinn ekki gremjunni lengi þegar hann sá myndina og segir eina reglu algilda í faginu: „Stundum er það bara ekki „meant to be.“
Sjá einnig: Ólafur Darri segir mikilvægt að læra af mistökunum„Börnunum mínum mun aldrei líða 100% vel“
Ólafur hefur að öðru leyti notið góðs gengis á erlendum vettvangi undanfarin ár og leikið á móti stórstjörnum eins og Adam Sandler, Mark Wahlberg, Vin Diesel, Liam Neeson, Jason Statham, Jennifer Aniston og unnið með hinum eina sanna Steven Spielberg.
Þrátt fyrir að hafa hitt allt þetta fræga fólk, er einn Íslendingur sem hefur gert hann agndofa. „Ég var til dæmis um daginn í partíi, fór út að borða með fullt af frægu fólki. Svo kemur Ólafur Elíasson inn og ég var algjörlega „starstruck“ því Ólafur Elíasson finnst mér alveg stórmerkilegur listamaður. Og ég hef aldrei hitt hann áður og mér þótti svo vænt um það,“ segir Ólafur og segist skilja það vel að fólk falli í stafi yfir frægu fólki. „Ég skil þessa tilfinningu mjög vel. Þú sérð einhvern sem er inni í stofu hjá þér og þér finnst nánast vera fjölskylduvinur. Og þig langar að heilsa og segja takk eða spyrja: Hver er morðinginn?“
Leikarinn segist ekki geta ímyndað sér óþægindin við að vera heimsfrægur og geta varla stigið á almannafæri án þess að verða fyrir áreiti, eins og kemur fyrir leikara á borð við Adam Sandler, Jennifer Aniston eða Ben Stiller, svo dæmi séu nefnd.
Ólafur segist þó vera feginn að vera álitinn leikari en ekki kvikmyndastjarna, en segir hann að það muni seint gerast að hann eigi erindi í þann hóp. Hann játar fúslega að hann sé ekkert feiminn við að kalla sig „stóran og feitan“ og gerir sér grein fyrir því að hann líti ekki út eins og aðalleikari í sígildri glamúrmerkingu þess orðs. Leikarinn er þó sæll og sáttur með sjálfan sig og með gott sjálfstraust. Hann telur mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig maður er og lítur út. Þá vitnar hann í frægu orð Friedrich Nietzsche: „Ef þú starir í hyldýpið, þá starir hyldýpið á móti.“