June Shannon, betur þekkt sem Mama June, mamman úr raunveruleikaþáttunum Here Comes Honey Boo Boo og Mama June: From Not to Hot, var handtekin fyrir vörslu eiturlyfja í Alabama í Bandaríkjunum. Saksóknari staðfestir þetta í samtali við tímaritið People. Þá var Mama June einnig með áhöld til fíkniefnaneyslu í fórum sínum. Ekki er ljóst hvort hún sé enn í gæsluvarðhaldi.
Það er dóttur June, Alönu „Honey Boo Boo“ Thompson, að þakka að June er í sviðsljósinu vestan hafs, en þættirnir um Honey Boo Boo hafa notið gríðarlegra vinsælda síðan þeir voru frumsýndir árið 2012.
Árið 2017 voru þættirnir Mama June: From Not to Hot síðan frumsýndir, en í þeim var fylgst með þyngdartapi June, sem náði að missa 135 kíló. Sería tvö var síðan sýnd í fyrra.
Mama June hefur ekki tjáð sig um handtökuna.