Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri Eurovision, segir í samtali við norska ríkissjónvarpið að Hatara verði ekki meinaður aðgangur að Eurovision í Tel Aviv í Ísrael í maí. Sagt er frá þessu á Eurovoix.
„Við sjáum enga ástæðu fyrir því að þeir fái ekki leyfi. Við erum í nánu samtali við yfirvöld í Ísrael og ráðamenn vita að það geti snúist í höndunum á þeim og skipuleggjendum keppninnar ef einhverjum er neitað um vegabréfsáritun,“ segir Jon Ola Sand.
Hann bætir við að það sé búið að greina forsvarsmönnum RÚV frá því hvaða afleiðingar það myndi hafa ef Hatari nýtti keppnina til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri.
„Við teljum að þeir muni ekki nota Eurovision-keppnina til að mótmæla. Þeir vita hvaða reglur gilda um þátttöku,“ segir hann. „Ef þeir mótmæla geta þeir verið reknir úr keppni.“
Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hvort Hatari fái að keppa í Eurovision, en nú síðast voru sagðar af því fréttir að samtökin Shurat HaDin hefðu farið fram á það við stjörnvöld í Ísrael að Hatara yrði meinaður aðgangur að Eurovision vegna pólitískrar orðræðu sveitarinnar.