Sylvan Adams, kanadísk/ísraelskur milljarðamæringur segir í samtali við Channel 12 News að miklar líkur séu á að stórstjarnan Madonna troði upp á úrslitakvöldi Eurovision í Tel Aviv í maí.
„Við höfum haft samband við Madonnu til að reyna að bæta smá glamúr í viðburðinn,“ segir Sylvan, en sagt er frá þessu á vefsíðu Jerusalem Post. „Það eru allar líkur á að hún komi hingað og taki þátt í Eurovision-keppninni.“
Sögusagnir fóru á kreik í síðasta mánuði um að Madonna myndi koma fram á keppninni, en samkvæmt ísraelskri fréttaveitu krafðist hún milljón dollara í laun fyrir. Sylvan hefur hvorki staðfest né neitað verðmiðanum, en fagnar því að jákvæðar fréttir berist nú frá Ísrael.
„Það er alltaf stöðugur straumur af neikvæðum fréttum hér í Ísrael en nú höfum við getað snúið því við,“ segir hann. „Í nokkra daga fær fólk að sjá Ísrael án filters heima í stofu í gegnum sjónvarpsskjáinn.“