Margrét Gnarr hefur glímt við lystarstol og lotugræðgi frá því hún var unglingur. Snemma fékk Margrét þá hugmynd af ef hún liti öðruvísi út myndu aðrir vera góðir við hana. Sú hugsun hefur litað hennar líf síðan.
Margrét er atvinnumaður í bikinífitness og einkaþjálfari. Hún er nú í hléi frá keppni til að ná bata frá átröskun.
Margrét steig fram í viðtali við DV í síðustu viku þar sem hún sagði frá baráttu sinni við átröskun, bikinífitness ferlinum og leiðinni að batanum.
„Ég byrjaði að þróa með mér átröskunarhegðun þegar ég var um sex ára, þegar ég byrjaði í grunnskóla. Fyrir þann tíma hafði ég alltaf verið mjög hamingjusamt barn og átt marga vini,“ segir Margrét.
„Krakkar fóru að stríða mér fyrir að vera rauðhærð og með mjög hvíta húð. Þeir sögðu að ég væri eins og draugur og gerðu grín að freknunum mínum. Besta vinkona mín á þessum tíma var ljóshærð með blá augu og mjög vinsæl. Þannig að ég hélt að ef ég yrði ljóshærð með blá augu myndu allir vera góðir við mig.“
Í æsku var Margrét mjög trúuð. Hún fór með Faðirvorið á hverju kvöldi.
„Ég var farin að bæta við smá aukabæn: „Góði Guð viltu breyta hárlitnum mínum og gera húðina mína dekkri, amen.“ Og svo næsta dag hljóp ég inn á baðherbergi og kíkti í spegilinn og það voru alltaf mikil vonbrigði,“ segir Margrét.
„Ég held að þetta hafi verið byrjunin á átröskuninni. Ég fékk þá hugmynd að ef ég myndi líta öðruvísi út yrði ég samþykkt.“
Kynþroskaskeiðið erfitt
Þegar Margrét fór í gegnum kynþroskaskeiðið þyngdist hún hratt og var hrædd um að krakkar myndu stríða henni fyrir það. Hún byrjaði að æfa taekwondo og varð strax ástfangin af íþróttinni. Hún æfði stíft og í kjölfarið grenntist mikið.
„Stelpur voru farnar að spyrja mig um ráð til að grennast og sögðu að ég liti svo vel út. Ég sagði að ég æfði bara taekwondo. Ég var einnig spurð út í mataræðið og áttaði mig þá á því að ég hafði ekki verið að borða neitt rosalega mikið. Þannig að ég tengdi það tvennt saman, að borða lítið sem ekkert og æfa mikið,“ segir Margrét.
„Eftir þetta fór ég mjög meðvitað að svelta mig. Ef einhver bauð mér eitthvað að borða, afþakkaði ég það og sagðist ekki vera svöng,“ segir Margrét.
„Mér fannst líka mjög gott að svelta mig, því mér fannst það deyfa andlegu tilfinningarnar. Mér fannst ég komast í þægilegt ástand. Þetta gekk svona í ár. Ég grenntist og grenntist þar til ég var komin á þann stað að ég hafði enga orku til að gera hluti. Ég var alltaf þreytt. Ég átti erfitt með að hita upp á æfingum.“
Féll í yfirlið
Margrét féll í yfirlið á taekwondo æfingu. Í kjölfarið viðurkenndi hún í fyrsta skipti að hún ætti við vandamál að stríða. Hún var samt sem áður ekki tilbúin að sleppa tökum á átröskuninni.
„Ég óttaðist mjög að þyngjast og allir yrðu aftur leiðinlegir við mig,“ segir Margrét.
Með tímanum þróaði Margrét með sér lotugræðgi með lystarstolinu. Átröskunin versnaði mikið þegar Margrét var 22 ára og var að fara í gegnum sambandsslit.
„Það er einn versti staður sem ég hef verið á í lífi mínu. Ég fór niður í 46–47 kíló. Ég var komin með hjartsláttartruflanir, hjartað var farið að slá mjög hægt og sleppa takti. Ég var sennilega með kalíumskort. Aðaldánarorsök átröskunarsjúklinga er hjartaáfall vegna kalíumskorts. Það hægir á líkamanum að vera orkulaus. Líkaminn fer að éta sig að innan. Ég var einu sinni á leið út í búð og þurfti að hlaupa smá, og hjartað eiginlega stoppaði. Ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall en svo hélt það áfram að slá.“
Sá svipinn á ástvinum
„Á þessum tíma einangraði ég mig mjög mikið frá fjölskyldunni í um tvo mánuði. Ég vildi bara vera ein með minni átröskun,“ segir Margrét. Bróðir hennar átti afmæli og Margrét ákvað að fara í veisluna.
„Ég sá svipinn á fólki þegar það sá mig. Áður fyrr var fólk sífellt að hrósa mér fyrir hvað ég liti vel út, en þetta var annað. Þarna var fólk með svip eins og það hefði rosalegar áhyggjur af mér eða vorkenndi mér. Mamma sagði að litla systir mín hefði farið að hágráta eftir afmælið eftir að hafa séð mig. Það var í fyrsta skipti sem ég ákvað að mig langaði að ná bata. Ég vildi vera fyrirmynd fyrir systur mína, ég vildi ekki að hún færi sömu leið. Ég var líka orðin hrædd um líf mitt,“ segir Margrét.
„Ég vildi ekki fara frá fjölskyldu minni. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fann að ég væri tilbúin til að ná bata. Ég vildi alltaf gera það sjálf. Ég er rosalega mikil keppnismanneskja og var búin að lesa mér til um þetta og vildi gera þetta sjálf.“