fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Kona ofsótti Bubba: Stunginn með eggvopni fyrir framan börnin – „Svo sendi hún mér snöru og ösku í litlum líkkistum“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 9. mars 2019 19:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bubbi Morthens hefur notið mikillar velgengni. En fylgifiskar frægðarinnar eru ekki eintóm gleði. Bubbi var ofsóttur í fyrsta sinn árið 1982 af manni sem átti við geðræn vandamál að stríða.

„Ég hef oft lent í því að vera með „stalker“. En fjórir hafa gengið svo langt að það hefur verið einhver ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.“

Í eldri umfjöllun DV kemur fram að þessi maður taldi að Bubbi hefði stolið lögunum hans og krafðist þess að hann leiðrétti það fyrir þjóðinni.

Þetta er brot úr umfjöllun úr helgarblaði DV þar sem fjallað er um fræga Íslendinga sem hafa lent í eltihrellum og verið ofsótt.

„Hann vildi að ég myndi viðurkenna að hann ætti öll lögin mín, þar á meðal Ísbjarnarblús. Ég þurfti ekki að vita meira til þess að vita að maðurinn væri ekki í lagi. Ég vissi það um leið og ég fékk fyrsta bréfið frá honum. Það fór ekki á milli mála þegar hann fór að tala um að hann hefði samið Ísbjarnarblús. Og ég hefði stolið laginu af honum.“

Maðurinn skrifaði lesandabréf í Morgunblaðið þar sem hann hélt þessu fram og fékk bréfið birt. Í framhaldinu sendi hann hvert bréfið á fætur öðru á Bubba og urðu bréfin alltaf furðulegri. Bréfin fjölluðu meira og minna um að hann ætlaði annaðhvort að drepa Bubba eða meiða hann ef hann fengi ekki kredit fyrir lögin. Lögreglan gerði ekkert í málinu.

„Þetta var í raun orðin svo mikil geðveiki að það var ekki hægt að horfa fram hjá þessu lengur. Hann sendi mér ítrekað líflátshótanir og þetta var ofbeldishneigður maður. Eftir að hann réðst á gamlan mann og slasaði hann mjög illa var hann tekinn úr umferð og settur inn. Þá linnti ofsóknunum loksins. Það er enginn glaður þegar hann lendir í svona aðstæðum, en þetta var nú ekki það svæsnasta sem ég hef lent í.“

Þá liðu nokkrir mánuðir en þá tók næsti eltihrellir við. Nú var það kona.

„Hún sendi mér bréf. Stundum var hún búin að klippa út stafi og raða þeim saman þannig að þeir mynduðu morðhótanir. Svo sendi hún mér snöru, byssukúlur og ösku í litlum líkkistum.“

Þetta gekk í nokkra mánuði. Þriðji eltihrellirinn var karlmaður sem þjáðist af mikilli vanlíðan að sögn Bubba. Var hann sannfærður um að Bubbi gæti bjargað honum. Kom hann sér fyrir á tröppunum og beið eftir Bubba. Stundum svaf hann þar. Hann trúði því að Bubbi gæti rekið úr honum illa anda.

„Hann kom sér bara fyrir með plötubunkann á tröppunum hjá mér. Það var engin leið til að losna við hann. Börnin mín voru mjög hrædd við hann. En ég held að hann hafi ekki verið ofbeldishneigður. En það var mikil sorg í honum.“

Seinna fóru að berast hótanir frá honum:

„Ég lét það ekki koma mér úr jafnvægi en þegar hann hótaði að skaða börnin mín fór ég í hann. Hann kom æðandi til mín alveg kolgeggjaður, froðufellandi og snarbrjálaður og hótaði börnunum mínum. Þá fór ég í hann. Ég lagðist þungt á hann og tók hann niður. Það er ekki gaman að þurfa að slást við svona menn, en ég vissi ekki til hvers hann var vís.“

Fljótlega eftir þetta var maðurinn vistaður á stofnun og fékk þá hjálp sem hann þurfti á að halda. Bubbi sagði í viðtalinu að það væri oft ekki fyrr en eitthvað slæmt gerðist, einhver yrði fyrir skaða, sem tekið væri á málinu.

Þá hélt einn maður að Bubbi væri djöfulinn vegna fæðingardagsins. Bubbi lýsti því á eftirfarandi hátt:

„Hann hélt að hann þyrfti bara að opna á mér hausinn til þess að sanna mál sitt. Þegar hann væri búinn að því myndi fólk sjá að hann hefði rétt fyrir sér. Ég væri í raun djöfullinn. Þetta var mjög veikur maður.“

Lögregla fékk að vita frá læknum að Bubbi gæti verið í hættu staddur og hringdi í Bubba. Hann mátti alls ekki opna ef það bankað yrði upp á hjá honum. Fjölskyldan var heima en Bubbi sagði ekkert.

„Hann var svo stoppaður af þegar hann var á leiðinni til mín til að sanna mál sitt. Sem betur fer fyrir hann og kannski fyrir mig líka varð ekkert úr því. Honum var svo komið fyrir á viðeigandi stofnun þar sem hann fékk hjálp.“

Gestur stakk Bubba

„Ég var einu sinni stunginn með eggvopni á mínu eigin heimili. Þá fyrst kom lögreglan. Það var í eina skiptið sem hún hefur brugðist hratt og örugglega við.“

Bubbi var með gest hjá sér. Skyndilega hafði manneskja komið inn og taldi að hún ætti óuppgert mál við tónlistarmanninn.

„Þessi manneskja kom óboðin inn til mín, var hleypt inn fyrir slysni. Hún var mjög ógnandi og lamdi frá sér. Þannig að ég tók ákvörðun um að fylgja henni út. Hún átti ekkert að vera þarna og ég var að reyna að koma henni út. Okkur lenti síðan saman með þessum afleiðingum. Ég var stunginn í lærið með eggvopni, ég veit ekki hvað það var, hnífur eða eitthvað.“ Fjölskyldan var öll heima og börnin horfðu upp á þetta gerast.

Þá sagði Bubbi um eftirköstin:

„Þetta er ein tegund ofbeldis. Svipað ofbeldi og blöðin beita fólk stundum. Stundum hafa blöðin tekið menn fyrir og lagt þá í einelti. Þetta er svipuð tilfinning. Meðan á þessu stendur verður röskun á daglegu lífi. Þetta hefur líka áhrif á sálarlífið og ég finn fyrir þessu. Þetta er ekki eitthvað sem ég humma bara fram af mér, heldur hefur þetta áhrif á mig.

Þegar ég fer út úr húsi á morgnana horfi ég í kringum mig og skima eftir því hvort það sé einhver að fylgjast með mér. Þegar ég er á gangi lít ég við til að athuga hvort einhver sé að fylgjast með mér. Þegar ég kem heim á daginn lít ég til hægri og vinstri áður en ég fer inn. Hægt og rólega verður maður, kannski ekki hræddur, en var um sig og óöruggur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone