Hollenska Eurovision-lagið Arcade flutt af Duncan Laurence var sett á YouTube-síðu Eurovision-keppninnar fyrir sólarhring. Þegar þetta er skrifað er búið að spila lagið hátt í sex hundruð þúsund sinnum og eru margir á því að Holland eigi eftir að bera sigur úr býtum í Tel Aviv í maí. Til samanburðar er búið að horfa á frammistöðu Hatara í úrslitum Söngvakeppninnar rúmlega tvö hundruð þúsund sinnum.
Duncan skaust einnig beint upp á lista Eurovision World þar sem farið er yfir sigurlíkur hvers flytjanda fyrir sig og situr nú í öðru sæti á eftir Rússanum Sergey Lazarev sem enn á eftir að afhjúpa sitt lag.
Myndbandið við lagið Arcade hefur einnig vakið mikla athygli, en í því er Duncan allsnakinn, sem gerist ekki oft í Eurovision-myndböndum. Duncan er aðeins 24 ára gamall og sló í gegn í raunveruleikaþættinum The Voice í Hollandi.
Athugasemdir hrúgast inn við myndbandið við lagið Aracde á YouTube-síðu Eurovision-keppninnar og hlýtur Rússinn Sergey Lazarev að skjálfa á beinunum við lestur þeirra.
„Ef það er réttlæti í Eurovision þá vinnur þetta lag,“ skrifar Magica Spellman. „Ég er ekki tilfinningarík manneskja en þetta lag lét mig næstum því tárast. Uppáhaldslagið mitt hingað til. Takk Holland fyrir þetta meistarverk,“ skrifar Cinu14.
„Fokkíng fullkomið. Besta Eurovision-lagið árið 2019 hingað til,“ skrifar Nikos og Patrycja Gala15 tekur í sama streng. „Vá, ég er með gæsahúð um allt. Velkominn í fyrsta sætið.“
„Þetta er meistarverk, ég get ekki hætt að hlusta,“ skrifar Anna Mazur frá Póllandi og Jason Coster gefur Duncan mikið hrós. „Uppáhalds Eurovision-lagið mitt síðan Euphoria. Guð minn góður, Holland. 100000 stig frá Írlandi.“
Diogo Silveira frá Portúgal sparar síðan ekki stóru orðin.
„Þetta lag er svo töfrandi að það lætur mig fljúga.“
Hlusta má á lagið hér fyrir neðan: