Hópur á Facebook sem kallar sig Icelandic People Against Boycotting Israel, eða Íslendingar sem eru á móti því að sniðganga Ísrael, birtir langan pistil á síðu sinni gegn þátttöku Hatara í Eurovision. Um er að ræða kostaða auglýsingu á samfélagsmiðlinum.
„Meirihluti Íslendinga styður ekki pólitíska áætlun Hatara,“ er yfirskrift pistilsins, og hann hlekkjaður við frétt um pólitískan ásetning hljómsveitarinnar í fjölmiðlinum Haaretz.
„Eurovision er ekki staður fyrir pólitískar skoðanir sveitarinnar og skoðanir meðlima um Ísrael endurspegla ekki skoðanir meirihluta Íslendinga,“ stendur í pistlinum.
„Við viljum biðjast afsökunar á því lagi sem íslenska Ríkissjónvarpið hefur valið til að fara í úrslit Eurovision, þrátt fyrir aðvaranir okkar. Bréf var sent til útvarpsstjóra RÚV í gegnum eina stærstu fréttaveitu á Íslandi, þar sem hann var beðinn um að banna hljómsveitinni að halda áfram í keppninni þar sem þeir settu þessa friðsælu keppni í hættu með áróðri gegn Ísrael,“ er bætt við, og væntanlega vísað í grein á Vísi þar sem Ívar Halldórsson birti opið bréf til Magnúsar Geirs Þórðarsonar, útvarpsstjóra, og skoraði á hann að vísa Hatar úr keppni.
„Þá er markmið þeirra að vera með pólitíska ádeilu á hendur gestgjafa keppninnar í ár. Markmið þeirra er greinilega ekki að sigra söngvakeppni fyrir okkar hönd með góðri lagasmíði. Öllu heldur er markmiðið að misnota aðstöðu sína sem keppendur og vera pólitísk málpípa þjóðarinnar og draga okkur sem aðhyllumst ekki aðferðafræði þeirra nauðug viljug í svaðið með þeim. Þetta hryggir mig og særir meira en orð fá lýst. Því vil ég biðla til velvildar þinnar og virðingu gagnvart okkur sem viljum njóta góðrar tónlistarskemmtunar án þess að draga pólitík inn í þessa miklu gleðistund. Í gegnum tíðina höfum við séð þjóðir vera í pólitísku reiptogi undir fána ESC, en það hefur mér og ótalmörgum Íslendingum fundist sorglegt. Það varpar óþægilegum skugga á skemmtunina,“ stóð meðal annars í pistlinum.
Í fyrrnefndum pistli á Facebook kemur fram að Magnús Geir hafi hunsað bréfið og er það harmað í ljósi þess að meðlimir Hatara hafi opinberlega sagt keppnina vera fáránlega og að þeim sé sama þó þeim sé hent úr Eurovision.
„Sveitin er ekki fulltrúi allra Íslendinga!“ stendur í pistlinum „Við erum mörg sem styðjum ekki þetta dapurlega framlag í friðsæla veislu af tónlist, ást og vináttu. Við viljum ekki að einstaklingar sem styðja sniðgöngu vinni. Við styðjum alla aðra friðsæla og háttprúða keppendur nema Íslendinga að þessu sinni. Það er sorglegt að þurfa að segja þetta.“
Þá biður hópurinn alla Evrópubúa afsökunar á laginu Hatrið mun sigra með Hatara.
„Fyrir hönd þjóðarinnar biðjum við ykkur um að afsaka illa upplýsta borgara þessa landsins fyrir að velja svona lélega fulltrúa í ár. Fólk er ekki upplýst og fjölmiðlar hafa staðið sig illa í að miðla sannleikanum um Ísrael. Við erum mörg sem stöndum með ykkur og höldum áfram að tala gegn þeim lygum sem sem er dreift um okkar frábæra land.“
Pistillinn endar svo á ísraelsku kveðjunni Shalom, sem þýðir einfaldlega friður á milli fólks.
Í athugasemdum við pistilinn eru ekki allir á eitt sáttir með innihald hans.
„Afsakið, en þessi hópur talar ekki fyrir meginþorra þjóðarinnar,“ skrifar Sigurður Hólm Sigurðsson og Pétur Jóhannes er sama sinnis. „Ekki leggja mér fokkíng orð í munn! Og lærið íslensku eða haldið kjafti!“