fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Margrét Gnarr var komin með hjartsláttatruflanir vegna átröskunar : „Ég var orðin hrædd um líf mitt“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 2. mars 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að þetta hafi verið byrjunin á átröskuninni. Ég fékk þá hugmynd að ef ég myndi líta öðruvísi út, yrði ég samþykkt,“ segir Margrét Edda Gnarr um eineltið sem hún varð fyrir í æsku.

Margrét er atvinnumaður í bikinífitness og einkaþjálfari. Hún er nú í hléi frá keppni til að ná bata en hún hefur glímt við lystarstol og lotugræðgi frá því að hún var unglingur. Snemma fékk Margrét þá hugmynd að ef hún liti öðruvísi út myndu aðrir vera góðir við hana. Sú hugsun hefur litað hennar líf síðan. Margrét er með svarta beltið í taekwondo og hefur orðið heimsmeistari í bikinífitness.

Í viðtali við DV opnar Margrét sig um átröskunina, eineltið, atvinnuferil hennar í bikinífitness og virðinguna sem hún fann innan taekwondo-samfélagsins.

Við viljum vara við innihaldi og myndefni viðtalsins (TW).

Þurfti mikla hreyfingu

Margrét var alltaf mikið í íþróttum í æsku. Hún æfði meðal annars ballett, fimleika og listdans á skautum. Þá íþrótt æfði hún um sex ára skeið, samhliða öðrum greinum. Margrét segist alltaf stefna hátt í því sem hún tekur sér fyrir hendur og var ákveðin í því að komast á Ólympíuleika í íþróttinni, fyrst Íslendinga. Meiðsli urðu þó til þess að hún þurfti að segja skilið við þann draum fjórtán ára gömul.

Margrét 14 ára fyrir átröskunina

Prófaði taekwondo aftur

Margrét hafði kynnst bardagaíþróttinni taekwondo þegar hún var sjö ára gömul og æfði íþróttina um skeið. Þegar hún lagði skautana á hilluna ákvað hún að byrja að æfa taekwondo á nýjan leik með vinkonu sinni og þá var ekki aftur snúið.

„Á fyrstu æfingunni minni varð ég ástfangin af þessari íþrótt, aftur. Ég byrjaði að æfa ógeðslega mikið. Fyrst þrisvar í viku, svo fór ég að æfa með systrafélagi Ármanns, sem var í Hafnarfirði. Ég bjó í Austurbænum, nálægt tjörninni, og fór oft á rúlluskautum á æfingu í Hafnarfirði ef ég átti ekki pening fyrir strætó. Ég varð að komast á æfingu. Ég elskaði að fara á æfingar. Mér fannst sérstaklega gaman hvað allir voru vinalegir,“

segir Margrét brosandi og verður svo ögn alvarlegri á svipinn.

„Ég var lögð í mikið einelti í skóla og þetta var eini staðurinn þar sem mér leið rosalega vel. Það var enginn að stríða mér eða segja neitt andstyggilegt við mig. Það er mikið lagt upp úr virðingu í taekwondo og ég varð gjörsamlega heltekin. Mig langaði að vera þar alla daga, allan daginn.“

Faldi sig undir rúmi til að sleppa við skólann

Margrét var búin að æfa í tvær vikur þegar hún keppti á bikarmóti. „Ég var með lægstu beltagráðuna og fór á móti stelpu sem var með rauða beltið, sem er frekar há beltagráða. Ég stóð uppi sem sigurvegari á fyrsta mótinu mínu og þá kviknaði nýr draumur. Að fara á Ólympíuleikana í taekwondo í staðinn fyrir á listdansskautum. Það hafði enginn Íslendingur heldur gert það,“ segir Margrét.

Margrét Gnarr. Mynd: DV/Hanna.

Í kjölfarið má segja að taekwondo hafi yfirtekið líf Margrétar. Hún var fjórtán ára með lágt belti, en efnileg, svo hún komst á æfingar hjá mörgum hópum. Hún æfði í þrjá til fimm tíma á dag.

„Ég pældi ekkert í því að álagið væri of mikið. Mér fannst bara ótrúlega gaman að æfa. Þetta var frekar klikkað tímabil,“ segir Margrét og heldur áfram:

„Á þessum tíma hætti ég að mæta í skólann. Ég vaknaði á morgnana og faldi mig undir rúmi þannig að ef mamma kæmi niður og athugaði hvort ég væri farin í skólann þá leit herbergið út fyrir að vera tómt. Ég fékk 0,1 í mætingareinkunn í níunda bekk.“

Margrét varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari og bikarmeistari í taekwondo og vann að auki til fjölmargra annarra verðlauna og viðurkenninga.

„Mig langaði alltaf að verða best í heiminum en það kaldhæðnislega er, að mér fannst ekkert rosalega gaman að keppa. Mér fannst gaman að æfa en ég var svo stressuð fyrir keppni. Ég hætti oft við að keppa út af stressi. Á þessum tíma var ég líka rosalega veik af átröskun sem gerði auðvitað illt verra. Ég hafði enga orku og lítið þol sem gerði að verkum að ég kveið fyrir keppni.“

T.v. Margrét þegar hún var veik af átröskun. T.h. Margrét heilbrigð í bata. Myndir: Instagram/@margretgnarr

Einelti var upphafið að átröskun

„Ég byrjaði að þróa með mér átröskunarhegðun þegar ég var um sex ára, þegar ég byrjaði í grunnskóla. Fyrir þann tíma hafði ég alltaf verið mjög hamingjusamt barn og átt marga vini,“ segir Margrét.

„Krakkar fóru að stríða mér fyrir að vera rauðhærð og með mjög hvíta húð. Þeir sögðu að ég væri eins og draugur og gerðu grín að freknunum mínum. Besta vinkona mín á þessum tíma var ljóshærð með blá augu og mjög vinsæl. Þannig að ég hélt að ef ég yrði ljóshærð með blá augu myndu allir vera góðir við mig.“

Í æsku var Margrét mjög trúuð. Hún fór með Faðirvorið á hverju kvöldi.

„Ég var farin að bæta við smá aukabæn: „Góði Guð viltu breyta hárlitnum mínum og gera húðina mína dekkri, amen.“ Og svo næsta dag hljóp ég inn á baðherbergi og kíkti í spegilinn og það voru alltaf mikil vonbrigði,“ segir Margrét.

„Ég held að þetta hafi verið byrjunin á átröskuninni. Ég fékk þá hugmynd að ef ég myndi líta öðruvísi út yrði ég samþykkt.“

Margrét Gnarr. Mynd: DV/Hanna

Kynþroskaskeiðið erfitt

Þegar Margrét fór í gegnum kynþroskaskeiðið þyngdist hún hratt.

„Það getur verið mikið sjokk fyrir unglingsstelpur að breytast svona, enda breytist líkaminn mikið. Ég var sífellt svöng á þessum tíma. Ég var farin að borða tvöfalda skammta af öllum mat og sótti mikið í sætindi. Þetta er þekkt ástand og kallast gífurlegt hungur (e. extreme hunger) sem getur komið upp þegar líkaminn þarf fleiri hitaeiningar en hann er vanur. En ég vissi ekkert um næringarfræði þannig að ég sótti í það sem mér þótti gott, sætindi,“

segir Margrét og heldur áfram:

„Ég þyngdist hratt og var hrædd um að krakkar myndu stríða mér fyrir það. Ég var búin að byggja upp varnarvegg og var alltaf tilbúin ef einhver yrði andstyggilegur við mig. Ég var búin að koma því í hausinn á mér að ef ég yrði fallegri og mjórri myndu allir vera góðir við mig. Sumir í listdansskautum voru líka andstyggilegir við mig, þannig að þegar ég þurfti að hætta fannst mér það ekki slæmt. En í taekwondo fannst mér eins og allir samþykktu mig.“

Hér er Margrét 16 ára og mjög veik af átröskun.

Engir ljótir máttu mæta í frístundaheimilið

Margrét rifjar upp erfiða minningu sem leiddi til þess að hún hætti að mæta í skólann. Einn strákur, sem gerði henni lífið leitt í unglingadeild, hafði bannað henni að koma í frístundaheimili skólans, Frostaskjól.

„Hann bannaði mér að koma, því það „máttu engir ljótir vera þar.“ Hann stoppaði mig alltaf af. En eitt skiptið var eitthvað skemmtilegt að gerast og mig langaði virkilega að fara og ákvað að drífa mig. Ég fór með vinkonu minni sem var vinkona hans og hélt ég yrði örugg þannig. Hann stoppaði mig í stigaganginum og hraunaði yfir mig. Hann var rosalega andstyggilegur við mig. Það var þá sem ég hætti að mæta í skólann og að lokum skipti ég um skóla,“ segir Margrét.

Flutti til föður síns

Margrét flutti til föður síns þegar hún var um fimmtán ára gömul, í lok níunda bekkjar.

„Pabbi var mjög harður á að ég mætti í skólann og lærði. Ég komst ekki upp með að fela mig undir rúmi eða neitt svoleiðis. Ég þurfti að mæta í skólann. Þá hafði ég grennst mjög mikið og tók eftir að krakkar voru farnir að spjalla við mig miklu meira í skólanum, vera vingjarnlegir við mig og bjóða mér í partí,“

segir Margrét. Hún grenntist mikið vegna stífra taekwondo-æfinga á hverjum degi.

„Stelpur voru farnar að spyrja mig um ráð til að grennast og sögðu að ég liti svo vel út. Ég sagði að ég æfði bara taekwondo. Ég var einnig spurð út í mataræðið og áttaði mig þá á því að ég hafði ekki verið að borða neitt rosalega mikið. Þannig að ég tengdi það tvennt saman, að borða lítið sem ekkert og æfa mikið.“

16 ára. Mynd úr einkasafni.

Svelti sig meðvitað

Á þessum tíma vissi Margrét lítið um átröskun eins og lystarstol (e. anorexia) og lotugræðgi (e. bulimia).

„Eftir þetta fór ég mjög meðvitað að svelta mig. Ef einhver bauð mér eitthvað að borða, afþakkaði ég það og sagðist ekki vera svöng,“ segir Margrét.

„Mér fannst líka mjög gott að svelta mig, því mér fannst það deyfa andlegu tilfinningarnar. Mér fannst ég komast í þægilegt ástand. Þetta gekk svona í ár. Ég grenntist og grenntist þar til ég var komin á þann stað að ég hafði enga orku til að gera hluti. Ég var alltaf þreytt. Ég átti erfitt með að hita upp á æfingum.“

Þjálfara Margrétar var á þessum tíma farið að gruna að ekki væri allt með felldu. Hann lét Margréti halda matardagbók sem hún skrifaði samviskusamlega í.

„Í fyrstu matardagbókinni sem ég skilaði inn stóð lítið sem ekkert. Þjálfarinn sagði að ef ég myndi ekki borða meira, mætti ég ekki æfa. Þannig að ég byrjaði bara að skrifa eitthvað í matardagbókina. En hann fattaði það eiginlega strax. Hann sá líka orkuleysið hjá mér og stelpurnar sem voru með mér í búningsklefa voru farnar að segja honum hvernig ég liti út. Ég var mjög beinaber og beinin stóðu mikið út. Ég reyndi að fela það og klæddist víðum fötum,“ segir Margrét.

Margrét er dugleg að deila myndum af sér þegar hún var veik af átröskun hliðin á myndum af sér í bata. Mynd: Instagram.

Í yfirlið á æfingu

Margrét rifjar upp atvik þegar leið yfir hana á æfingu.

„Ég þurfti að fara á klósettið og æla. Ég var gjörsamlega búin á því og það leið yfir mig inni á baðherbergi. Ég rankaði við mér og fór aftur á æfinguna, náföl í framan, og sagðist ekki geta haldið áfram. Þjálfarinn tók mig þá afsíðis og sagðist vita að eitthvað væri í gangi. Að ég væri ekki að borða,“ segir Margrét. Í kjölfarið ræddi Margrét við konu innan taekwondo-félagsins sem þekkti átraskanir.

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég viðurkenndi að ég ætti við vandamál að stríða. En ég var ekki tilbúin að sleppa tökum á átröskuninni. Ég var byrjuð að lesa mér til um átraskanir og skoðaði oft „Pro-Ana“ vefsíður með alls konar ráðum um hvernig væri hægt að svelta sig.“

Foreldrar Margrétar voru látnir vita af stöðu mála og hún send til sálfræðings í von að hún næði bata. „En ég var alls ekki tilbúin til að sleppa. Ég óttaðist mjög að þyngjast og að allir yrðu aftur leiðinlegir við mig. Það var tengingin mín. Ég vildi því ekki fá þá hjálp sem var í boði og var mjög hrokafull við þau sem voru að reyna að hjálpa mér. Ég skildi ekki af hverju fólk var að skipta sér af,“ segir Margrét.

Margrét Gnarr. Mynd: Hanna/DV

Lotugræðgin kynnti sig

Með tímanum þróaði Margrét með sér lotugræðgi með lystarstolinu. Frá því að hún var 15 ára til 22 ára aldurs glímdi hún við bæði lystarstol og lotugræðgi.

„Það var alltaf annað hvort. En ég versnaði rosalega þegar ég varð 22 ára. Ég var að fara í gegnum sambandsslit og notaði einhvern veginn þá sorg til að knýja áfram mína átröskun. Það er einn versti staður sem ég hef verið á í lífi mínu,“ segir Margrét.

„Ég fór niður í 46–47 kíló. Ég var komin með hjartsláttartruflanir, hjartað var farið að slá mjög hægt og sleppa takti. Ég var sennilega með kalíumskort. Aðaldánarorsök átröskunarsjúklinga er hjartaáfall vegna kalíumskorts. Það hægir á líkamanum að vera orkulaus. Líkaminn fer að éta sig að innan. Ég var einu sinni á leið út í búð og þurfti að hlaupa smá, og hjartað eiginlega stoppaði. Ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall en svo hélt það áfram að slá.“

Á þessum tíma var Margrét svo grönn að hún þurfti að kaupa sér gallabuxur í barnadeildum fataverslana.

Þegar Margrét var 22 ára var hún á versta stað sem hún hefur verið á í lífinu.

Sá svipinn á ástvinum

„Á þessum tíma einangraði ég mig mjög mikið frá fjölskyldunni í um tvo mánuði. Ég vildi bara vera ein með minni átröskun,“ segir Margrét. Bróðir hennar átti afmæli og Margrét ákvað að fara í veisluna.

„Ég sá svipinn á fólki þegar það sá mig. Áður fyrr var fólk sífellt að hrósa mér fyrir hvað ég liti vel út, en þetta var annað. Þarna var fólk með svip eins og það hefði rosalegar áhyggjur af mér eða vorkenndi mér. Mamma sagði að litla systir mín hefði farið að hágráta eftir afmælið eftir að hafa séð mig. Það var í fyrsta skipti sem ég ákvað að mig langaði að ná bata. Ég vildi vera fyrirmynd fyrir systur mína, ég vildi ekki að hún færi sömu leið. Ég var líka orðin hrædd um líf mitt,“ segir Margrét.

„Ég vildi ekki fara frá fjölskyldu minni. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fann að ég væri tilbúin til að ná bata. Ég vildi alltaf gera það sjálf. Ég er rosalega mikil keppnismanneskja og var búin að lesa mér til um þetta og vildi gera þetta sjálf.“

Mynd: DV/Hanna.

Erfitt að lyfta tíu kílóum

Kærasti Margrétar á þessum tíma var einkaþjálfari í Sporthúsinu. Hún bað hann um að hjálpa sér að þyngjast.

„Ég vildi gera það á heilsusamlegan hátt. Ég vildi byrja að æfa aftur. Ég var mjög aum og gat varla lyft tíu kílóa stöng í bekkpressu. Svo fór ég að æfa fjórum sinnum í viku, fann að ég var orðin sterkari og fannst þetta mjög gaman. Það var líka ekki þessi pressa eins og er í taekwondo, þar er maður alltaf að slást,“ segir Margrét og hlær.

„Ég byrjaði að borða meira og mjög hollt. Ég fékk mikinn áhuga á næringarfræði og fór að pæla í ofurfæðu, andoxunarefnum, steinefnum og vítamíni. Ég bætti á mig frekar hratt.“

Sá stelpur pósa

Margrét sá stelpur í bikiníi í ræktinni að pósa fyrir framan spegill. Módelfitness var þá tiltölulega nýtt af nálinni á Íslandi. Margrét hafði samband við fitnessþjálfarana og parið Katrínu Evu og Magga Bess og byrjaði í þjálfun hjá þeim. Hún útskýrði að hún væri í bata frá átröskun og mætti ekki fara í neinar öfgar þegar kæmi að mataræði.

Ólíkt því sem er venjan á undirbúningstímabili fitnesskeppenda vigtaði Margrét ekki matinn sinn og tók ekki auka brennsluæfingar.

„Ég var ekki heltekin yfir því að vera flottust. Mig langaði bara að prófa þetta. Ég talaði við þau í júlí 2011 og keppti í nóvember sama ár á fyrsta mótinu mínu og endaði í öðru sæti. Ég keppti svo á öðru móti tveimur vikum síðar og var í þriðja sæti. Ég hugsaði að þetta gæti verið eitthvað sem ég gæti gert.“

Draumur Margrétar var að fá IFBB Pro-skírteini og keppa í IFBB Pro-keppnum eða svo kallaðri úrvalsdeild módelfitness.  „Ég hugsaði að ef aðrar stelpur gætu þetta þá gæti ég það líka. Af hverju ekki ég?“

Margrét heilbrigð í bata byrjuð að fikra sig áfram í fitness.

Erlenda keppnistímabilið byrjar

Margrét keppti í Arnold Amateur í lok febrúar 2012.

„Ég var í flokki með 40 öðrum stelpum. Ég ætlaði bara að gera mitt besta. Ég komst í topp fimmtán, svo topp tíu og að lokum topp fimm. Þá ákvað ég að ég ætlaði að vera í efstu þremur sætunum. En ég lenti í fjórða sæti sem var svo mikill skellur. Ég var miður mín en það var vegna þess að ég hafði sett mér svo óraunhæf markmið. Auðvitað er það eina sem maður gert, að gera sitt besta,“ segir Margrét.

„Það var sagt við mig að mér myndi ganga betur ef ég væri skornari. Mér fannst það kveikja á átröskun minni. Ég fór að fylgja matarplönum betur, samt var ég alltaf að passa mig að fara ekki í öfgarnar. Ég hafði séð matarplönin hjá öðrum fitnessstelpum og þær voru að borða miklu minna en ég. Ég hugsaði að ef þær gætu þetta þá gæti ég það líka. Með árunum varð ég sífellt strangari og strangari á mataræðið og æfingarnar. Ég var alltaf að fá þau skilaboð að ég þyrfti að vera skornari.“

Heimsmeistari 2014.

Hrædd við stefnuna sem hún var að taka

Margrét var hrædd við stefnuna sem hún var að taka og tók sér pásu eitt sumarið. Hún sneri aftur í taekwondo og um tíma flakkaði hún á milli íþróttagreinanna og náði eftirtektarverðum árangri í báðum greinum.

Eftir að hafa landað nokkrum titlum ákvað Margrét að undirbúa sig af krafti undir heimsmeistaramótið ásamt þjálfara sínum, Jóhanni Norðfjörð.

„Þetta var örugglega þægilegasti niðurskurður sem ég hef farið í gegnum. Venjulega tók ég sex til átta vikur í niðurskurð en í þetta skiptið tók ég tólf vikur því ég borðaði meira og var með meira jafnvægi þennan tíma. Æfingarnar tóku aðeins klukkutíma á dag. Líkaminn minn var mjög hrifinn af þessu. Ég komst í mitt besta form.“

Það sannaðist heldur betur þegar Margrét var krýnd heimsmeistari í greininni. Hún var þá orðin atvinnumaður og fékk IFBB Pro-skírteinið sitt. Draumurinn hafði ræst.

Stór mistök að taka ekki pásu

Fljótlega fór þó að síga á ógæfuhliðina. Þjálfarinn vildi að hún tæki sér hlé frá æfingum en framundan var eitt stærsta mót ársins, Arnold Classic-mótið, og Margrét tók það ekki í mál.

Hún fékk boðskort á mótið og hélt áfram að keppa. Hún segir það hafa verið stór mistök. Fljótlega fór hún að breyta um stefnu og hugarfarið breyttist.

„Ég fór að verða stífari með mataræðið, borða minna og taka morgunbrennsluæfingu á hverjum degi. Þarna bankaði þráhyggjan aftur upp á.“

Margrét keppti á Arnold Classic og tók þátt í annarri keppni. Hún fann að í óefni stefndi og því tók hún keppnispásu í eitt og hálft ár til að huga að heilsunni.

Margrét Gnarr. Mynd: Hanna/DV

Var alltaf í keppnisformi í hléinu

Margrét leyfði sér þó ekki að slaka á. Hún er með mjög vinsælan Instagram-aðgang og hefur lengi verið virk á samfélagsmiðlum.

„Ég var alltaf að deila myndum af mér í keppnisformi. Mig langaði að vera hvatning fyrir aðra og mér fannst svo mikil pressa að líta alltaf geðveikt vel út. Í þetta eina og hálfa ár var ég alltaf í þessu sveltisástandi, því ég var alltaf að reyna að líta út eins nálægt keppnisforminu mínu og ég gat. Ég leyfði mér aldrei að sleppa alveg tökunum og taka mér almennilega pásu. Ég var kannski í pásu frá keppni en ekki samfélagsmiðlum. Mig langaði að vera fullkomin,“

segir Margrét.

„Það sem ég var með kallast orthorexia. Ég hafði aldrei áður heyrt um það. Það er þegar þú ert með rosalega mikla stjórn á mataræði þínu. Þú ert ekki beint að borða of lítið eða of mikið. Ég var að reikna allar hitaeiningarnar mínar og hlutföll á milli orkugjafa. Ég hafði mikinn áhuga á vísindunum á bak við næringarfræði og var heltekin af því.“

Mynd: Instagram/@margretgnarr

Strax aftur í ruglið

Margrét ákvað að keppa í byrjun 2016 og byrjaði því í niðurskurði í lok 2015.

„Ég fór einhvern veginn strax aftur í ruglið. Ég byrjaði að brenna í 80 mínútur í senn og borða mikið minna,“ segir Margrét.

„Á þessum tíma vann ég fyrsta atvinnumótið mitt, sem ég er mjög stolt af en samt var þetta einn erfiðasti niðurskurður sem ég hef farið í gegnum. Ég fékk keppnisrétt á Mister Olympia sem er stærsta og virtasta fitnessmótið.“

Næstu ár voru sem rússíbanareið hjá Margréti. Hún vann sigur á nokkrum atvinnumannamótum og var ofarlega í öðrum mjög sterkum mótum. Hún var uppgefin á sál og líkama, íhugaði að taka sér langþráða hvíld en alltaf var næsta verkefni of heillandi. Sérstaklega árleg þátttaka í Mister Olympia. Síðasta mótið sem hún tók þátt í var Arnold Classic í Ástralíu árið 2018 en þar lenti hún í fjórða sæti.

29 ára og veik af átröskun.

„Eftir mótið var ég algjörlega búin á því. Ég var gjörsamlega búin að fá nóg. Ég vissi að ég þyrfti að leyfa mér að bæta á mig og fá breik. Ég var aftur komin með kalíumskort og hjartsláttartruflanir og var að taka klukkutíma brennsluæfingar tvisvar á dag. Kalíumskorturinn var meiri en áður, ég var byrjuð að fá vöðvakippi og náladofa við minnsta tilefni,“ segir Margrét.

Stuttu eftir átti Margrét að byrja í niðurskurði fyrir Mister Olympia.

„Ég þurfti að ákveða hvort ég ætti að taka enn eitt mótið eða hvíla mig. Ég ákvað loksins að setja heilsuna í fyrsta sæti. Í mörg ár hafði átt átröskunartímabil og síðan verið í bata kannski í þrjá mánuði, svo aftur átröskunartímabil. Samt, þegar ég skoða þá mánuði sem ég á að hafa verið í bata, þá var orthorexian við völd. Ég var alltaf að passa að þyngjast ekki. En í maí í fyrra ákvað ég að nú væri komið nóg og ég ætlaði að leyfa mér að ná fullum bata.“

Margrét bætti á sig tíu kílóum á tveimur mánuðum. „Ég lærði að samþykkja mig í stærri líkama. Síðan þá hef ég verið í góðum bata,“ segir Margrét brosandi.

Keppa á næsta ári?

Hún er þó hvergi nærri hætt í íþróttinni sem hún hefur náð svo góðum árangri í. Hún segir að það fari eftir batanum hvenær hún keppi næst, en stefnan sé sett á næsta ár. Margréti langar að keppa í módelfitness á næsta ári og þá á Arnold Classic-mótinu.

„Mér finnst ótrúlega gaman að keppa. Ég hef alveg sýnt og sannað að ég geti keppt. En þetta er svolítið eins og alkóhólisti sem vill fara á skemmtistað. Maður þarf að hafa góðan stuðning í kringum sig. Ég vil hafa náð fullum bata í eitt og hálft ár áður en ég mæti aftur til leiks,“ segir Margrét.

Margrét hefur lært að elska sig í stærri líkama.

Stór fylgjendahópur á Instagram

Margrét er með rúmlega 92 þúsund fylgjendur á Instagram. Aðspurð hvernig það sé að vera með svona stóran fylgjendahóp segir hún það geta verið stressandi.

„Það er auðvelt að einblína á tölurnar. Ég var með 98 þúsund fylgjendur þegar ég var að keppa en svo datt það niður. En ég er hætt að spá í „like“ og fylgjendatölur. Eina sem ég hugsa um er að geta hjálpað öðrum,“ segir Margrét.

Margrét segir það hafa verið erfitt að opna sig við fylgjendur sína um átröskunina. Hún er í 12 spora samtökum og lærði þar hvernig hún getur hjálpað sér sjálfri að ná bata með því að hjálpa öðrum.

„Það er gott að breiða út boðskapinn þegar maður er að kljást við eitthvað, það hjálpar öðrum. Ég get gert það á fundum, en ég get líka gert það á samfélagsmiðlum þar sem ég er með fjölda fylgjenda og margar ungar stúlkur að fylgjast með mér. Ég legg áherslu á, bæði við fylgjendur mína og fólk í þjálfun hjá mér, að maður samþykki sig eins og maður er,“ segir Margrét.

Hún segir að stór ástæða þess að hún hélt samfélagsmiðlum sínum gangandi um tímabil hafi verið til að fá styrktaraðila svo hún kæmist út að keppa.

Margrét er vegan. Mynd: Hanna/DV

Vegan fyrir dýrin

Margrét er vegan og hefur verið það síðan um páskana 2017. Hún segir ástæðuna vera einfalda.

„Ég tengdi dýraafurðir við frekar mikinn viðbjóð, ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ segir Margrét og heldur áfram:

„Ég horfði á margar heimildamyndir eins og Forks Over Knives, What the Health og Cowspiracy, og þetta meikaði engan sens. Af hverju eru þessi dýr að deyja fyrir okkur þegar við þurfum ekki á því að halda. Þetta er líka að fara með jörðina okkar. Einhvern tímann sá ég myndband þar sem vegan-aktífisti setti blóm á kjötborð og hugsaði djöfull eru þau biluð. Svo eftir að ég varð vegan og gekk fram hjá kjötkælinum varð mér óglatt. Ég skil núna vegan-aktífistana sem settu blóm á kjötborðið,“ segir Margrét og bætir við:

„Maður vissi þetta alltaf, maður vissi alltaf af viðbjóðnum. Maður bara vildi ekki tengja. Maður er svo vanur að borða dýraafurðir, það er normið og samþykkt í samfélaginu. Svona erum við alin upp. Ég vildi aldrei horfa á þessar myndir, enda um leið og ég gerði það varð ég strax vegan.“

Margrét segir að í niðurskurði í fitness sé borðað mikið af kjúklingabringum, eggjum, whey-próteini og skyri. Hún var hrædd um að það myndi eyðileggja árangur hennar í niðurskurði að verða vegan, en hún segir það alls ekki hafa gerst.

„Ég er stundum spurð hvort það sé erfitt að vera vegan og ég svara neitandi. Ég er líka spurð hvort ég sakni þess að borða kjöt, sem ég geri alls ekki,“ segir Margrét.

Margrét Gnarr. Mynd: Hanna/DV

Dóttir föður síns

Faðir Margrétar er grínistinn og fyrrverandi borgarstjóri Jón Gnarr. Aðspurð hvernig var að eiga frægan föður þegar hún var lítil brosir Margrét og rifjar upp skemmtilega minningu:

„Fyrst fannst mér það rosalega spennandi. Einhvern tímann vorum við í biðröð einhvers staðar, ég var um sjö ára gömul og kallaði eitthvað eins og: „Pabbi minn er Jón Gnarr!“ Og pabbi varð frekar vandræðalegur: „suss hættu þessu,““

segir Margrét og heldur áfram:

„Ég hef alltaf verið mjög stolt af honum og stolt af því að vera dóttir hans. Ég lít mikið upp til hans. Hann er líka alveg ótrúlega skemmtilegur, mjög gaman að eiga fyndinn pabba. En hann getur nefnilega líka verið mjög alvarlegur. Ég kynntist því þegar ég var unglingur. Ég gat alveg verið erfið sem unglingur og vildi vera ein í mínum heimi, tók ekkert þátt í fjölskyldulífinu, en pabbi tók það ekki í mál. Hann vildi líka að ég mætti alltaf í skólann. En stundum var ég ekki viss hvort hann væri að grínast eða ekki.“

„Hann á það til að grínast um eitthvað óviðeigandi og ég tek litla bróður minn, sem er fjórtán ára, til fyrirmyndar með það. Hann segir ákveðið: „Pabbi hættu þessu bulli, hættu að bulla núna.“ Hann hefur gert það síðan hann var lítill,“ segir Margrét brosandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“