fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Í leit að gömlu Reykjavík

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 4. febrúar 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðbær Reykjavíkur er stöðugt að breytast og stækka samfara auknum ferðamannastraumi. Sífellt verður erfiðara að finna „gömlu Reykjavík“ innan um nýtísku hótel og verslanir. Þó er enn hægt að finna anda gamla tímans á stöku stað. Alex Christopher Kristjánsson starfsmaður DV fór í miðbæjarferð til að finna þessa staði og smellti af stórskemmtilegum myndum sem fanga stemningu gamla tímans.

Ein síðasta fornbókabúðin

Við Klapparstíg 25 til 27 stendur fornbókaverslunin Bókin og við búðarborðið eigandinn Ari Bragason. Bókin er um hálfrar aldar gömul og ein langlífasta fornbókaverslun landsins. Þegar Ari var á menntaskólaaldri voru fornbókabúðirnar um fimmtán talsins.

„Við pabbi störfuðum hérna saman en Bókina keypti ég árið 1997 eða 1998,“ segir Ari. Faðir hans er Bragi Kristjónsson, sem landsmönnum er að góðu kunnur úr þáttunum Kiljunni. Verslunin hefur verið starfrækt á ýmsum stöðum í Reykjavík. „Plássið hérna á Klapparstígnum fékk ég árið 2001 og Bókin hefur verið hér síðan. Um tíma var búðin á Grundarstígnum og eitt sinn á Laugavegi 1.“

Ari segist hafa haldið búðinni í hinum gamla stíl.

„Ég held mig við þessa upprunalegu þrjátíu efnisflokka og hef ekki túristavætt búðina. En þó kemur gríðarlega mikið af túristum hingað.“

Leggja rithöfundar og skáld ekki leið sína í búðina?

„Jú, jú. Þetta er fjölbreyttur hópur sem kemur hingað og skemmtilegur þverskurður af mannlífinu. Andinn hérna er góður.“

Um tíma var verslun Otto A. Michelsen í rýminu. Einnig barnavöruverslunin Fífa.

„Hér var einnig Sparisjóðurinn Pundið og stór manngengur peningaskápur. Þetta var nokkurs konar lána- og eignaumsýslusjóður Hvítasunnusafnaðarins.“

Bókin: Er nú á Klapparstíg 25 til 27. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Ari Bragason: Tók við rekstrinum fyrir rúmum 20 árum. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Vinsæl meðal rithöfunda: Hýsti áður Sparisjóðinn Pundið. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson

Upprunalegir stólar og innrétting

Rakarastofa feðganna Ragnars og Harðar stendur við Vesturgötu 48 í húsi sem er orðið meira en aldar gamalt. Stofan var stofnuð árið 1957 og hét þá Rakarastofa Harðar og Trausta. Ragnar Heiðar Harðarson tók við rekstrinum fyrir tólf árum.

„Stofan hefur ekki tekið miklum breytingum en hún sneri öðruvísi þá. Stólarnir eru upprunalegir og innréttingin, en vitaskuld hefur verið skipt um spegla og aðra smáhluti.“

Faðir hans, Hörður Þórarinsson, var þekktur rakari og hafði marga fastakúnna, ráðherra og fleiri.

„Hann byrjaði sextán ára og stóð við stólinn í sextíu ár,“ segir Ragnar.

Hvað var hér áður?

„Hér var eitt sinn saumastofa, búð Silla og Valda var hérna líka. Á stríðsárunum var hérna kaffihús eða sjoppa. Þessi hluti af húsinu er byggður 1915 eða 1916 og það hefur alltaf verið rekstur hérna.“

Rakarastofa Ragnars og Harðar: Ráðamenn og fleiri hafa verið fastagestir. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Upprunalegt: Innréttingarnar frá 1957. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson

Athvarf listamanna

Mokka-kaffi á Skólavörðustíg 3a er miklu meira en venjulegt kaffihús í Reykjavík. Staðurinn er menningarstofnun í sjálfri sér enda hafa þar ávallt verið settar upp myndlistarsýningar. Hjónin Guðmundur Baldvinsson og Guðný Guðjónsdóttir stofnuðu Mokka fyrir rúmum sextíu árum, árið 1958. Áður var í húsnæðinu veitingastaðurinn Vega. Guðný er enn þá eigandi og dóttir þeirra Oddný rekur staðinn í dag. Hún segir staðinn hafa lítið breyst í gegnum árin:

„Pabbi fór út til að læra óperusöng á Ítalíu. Þar umgekkst hann marga listamenn sem urðu vinir hans. Þegar hann opnaði Mokka við heimkomuna sóttu þeir í veggina og þannig byrjaði þessi hefð. Það hafa alltaf verið sýningar hérna.“

Oddný segir að staðurinn hafi alltaf haft fastagesti úr listaheiminum.

„Margir sem eru orðnir nöfn í dag byrjuðu að sýna hjá okkur. Við höfum alltaf haft dyrnar opnar fyrir þekkta sem óþekkta listamenn.“

Mokka: Sextíu ára síðastliðið vor. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Athvarf listamanna: Stofnandinn kynntist listafólki í óperunámi. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson

Afi byggði húsið

Við Laugaveg 76 stendur ein af langlífustu verslunum landsins, Vinnufatabúðin. Hún var stofnuð af Þórarni Kjartanssyni fyrir 75 árum og hefur haldist í fjölskyldunni síðan. Síðan 1997 hefur Þorgeir Daníelsson, barnabarn Þórarins, rekið verslunina.

„Hann byggði húsið sjálfur, með tíu börn og allt saman,“ segir Þorgeir. Í upphafi seldi verslunin fatnað fyrir vinnu en hefur síðan fært sig yfir í fatnað af ýmsum toga. Sjálfur hefur Þorgeir staðið við búðarborðið í meira en hálfa öld. Margt hefur þó breyst innan búðarinnar, svo sem innréttingarnar.

„Þetta er með eldri búðunum hérna. Guðsteinn er aðeins eldri og Brynja.“

Það eru einhverjar ástæður fyrir því að verslun getur lifað svo lengi?

„Já, sjálfsagt margar,“ segir Þorgeir.

Áður en Þórarinn stofnaði Vinnufatabúðina rak hann gúmmívinnustofu og um tíma voru Liverpool og Höfði með rekstur á jarðhæðinni.

75 ár við Laugaveg 76Stofnuð af Þórarni Kjartanssyni. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Vinnufatabúðin: Selja nú alls kyns fatnað. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Vinnufatabúðin: Barnabarn Þórarins rekur nú verslunina. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson

Fræg fyrir pulsurnar

Söluturninn Vitinn við Laugaveg 62 er ein af síðustu sjoppunum í miðbæ Reykjavíkur. Við búðarborðið standa Hrafnhildur Egilsdóttir og maður hennar, Halldór Bergdal Baldursson, og hafa gert undanfarin átta ár. Vitinn var stofnaður á þessum stað fyrir 42 árum.

Halldór segir að Vitinn sé þekktastur fyrir góða þjónustu, rúnnstykki og samlokur á góðu verði og svo auðvitað pulsurnar.

„Þetta er eina sjoppan hérna á stóru svæði, fyrir utan Vikivaka sem er á Barónsstíg. Svo er reyndar önnur í Bankastræti en hún hefur verið stíluð inn á túristana.“

Þannig að fólk kemur til ykkar til að komast í þessa gömlu stemningu?

„Já, fólk gerir það. Sérstaklega eldra fólkið úr hverfinu sem kemur á morgnana, les blöðin, spjallar og fær sér kaffi.“

Vitinn: Ein af síðustu sjoppunum í miðbænum. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Söluturn í 42 ár: Eldra fólkið í hverfinu leitar gamla tímans. Mynd: Alex Christopher Kristjánsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“