fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Pappírs Pési sniðgenginn af Óskarnum

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 3. febrúar 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tilnefningar til 91. Óskarsverðlaunanna voru kynntar í síðustu viku og eru sérfræðingar um allan heim farnir að spá grimmt í spilin. Þann 24. febrúar næstkomandi verður hátíðin sýnd í beinni. Framlag Íslands í fyrra var dramatíska kómedían Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson en komst hún ekki áfram og var sniðgengin af akademíunni vestanhafs.

Á hverju ári eru send framlög til þessarar nefndar en hefur íslensk kvikmyndagerð ekki fengið sess síðan árið 1991 með hinni margumtöluðu Börn náttúrunnar. Samkvæmt sögum vorum við nálægt því að komast í úrslit með Djúpinu hans Baltasars. Einn daginn mun Ísland komast aftur á radarinn en þangað til sá dagur rennur upp er þess virði að skoða fimm furðulegustu framlög sem okkar ágæta kvikmyndagerðarfólk hefur lagt út í gegnum árin.

 

Pési tættur (The Adventures of Paper Peter – 1990)

Það er fátt sem öskrar „Óskarsmynd“ meira en barnamynd um teiknaðan leikfélaga sem vaknar til lífs og veldur usla – eða hvað? Á milli hennar og kvikmyndarinnar Ryð, sem kom einnig út árið 1990, var um lítið annað að velja. Pappírs Pési ákvað engu að síður að vaða í Óskarshlaupið af fullu afli og vona það besta. Fígúran kætti ófá börn á sínum tíma og í gegnum árin á Íslandi en þótti víst ekki nógu efnilegur fyrir alþjóðamarkað. En Pappírs Pési má að sjálfsögðu ekki gefast upp og ef hann verður einhvern tímann endurgerður er gráupplagt að spýta í lófana og gefa honum annan séns. Hann Pési okkar á það skilið, því fátt rífur meira í hjartarætur Íslendingsins en þegar hann setur upp fýlusvipinn.

 

Blossinn sem dvínaði (Blossi/810551 – 1997)

Þessi „pönkaða“ unglingamynd úr smiðju Júlíusar Kemp féll svo sannarlega ekki í kramið hjá öllum þegar hún kom út árið 1997. Mörgum þótti hún heldur tilgerðarleg, ef ekki pínleg, þótt góð tónlist og hressir frasar hafi staðið upp úr. Blossi hefur þó öðlast ákveðinn status sem „költ“-mynd í gegnum árin og hafa ýmsir krafist þess að myndin komist í þá stafrænu útgáfu sem hún á skilið. En í ljósi þess að mynd eins og Trainspotting hafa varla fengið mikla ást frá akademíunni í denn, átti þá Blossi nokkurn séns frá upphafi?

 

Stikkfrí frá Óskarnum (Count Me Out – 1997)

Stikkfrí verður að segjast vera með betur heppnaðri fjölskyldumyndum Íslands. Myndin sló alveg í gegn í kvikmyndahúsum og á leigum og hefur reynst mikil nostalgía fyrir þá hópa sem voru á sambærilegum aldri og stúlkurnar í aðalhlutverkunum. Hins vegar hefur Óskarinn sýnt það fordæmi að fjölskyldumyndir þurfi að vera í bitastæðari kantinum og örlítið meira brautryðjandi til að eiga möguleika (sjá Pappírs Pésa). Myndin kom út sama ár og Blossi hérlendis en var send inn sem framlag næsta ár á eftir. Stikkfrí lifir svo sannarlega í þjóðarsál íslenskrar kvikmyndagerðar, en það ætti að hafa verið nokkuð ljóst frá upphafi að þar væri hún best geymd frekar en að koma henni víðar.

 

Stuðmenn í súginn? (Ahead of Time – 2004)

Seinni Stuðmannamyndin er enn þann dag í dag heldur umdeild, ekki síður þegar hún er borin saman við frummyndina sem sigraði hjörtu Íslendinga snemma á níunda áratugnum. Það þykir þó heldur undarlegt að senda kvikmynd út sem framlag til stærstu verðlaunahátíðar kvikmyndabransans þegar hún er morandi í einkahúmor og óteljandi tengingum við Með allt á hreinu. Akademían hefur væntanlega ekki þekkt mikið til upprunalegu myndarinnar né náð að dilla búknum yfir nýrri lögum Stuðmanna. Í takt við tímann hlaut varla umtal né viðlit í kringum Óskarstímabilið 2005. Sennilega skrifast valið á tiltölulega slappa samkeppni það ár og má deila um það hvort Í takt við tímann beri af við hliðina á titlum á borð við Dís, Blindsker, Opinberun Hannesar og Kaldaljós. Þetta er engu að síður upplagt tækifæri til að spyrja landann hvort sú manneskja sem til sem kann betur að meta seinni Stuðmannamyndina en þá fyrri. Hún má endilega stíga fram.

 

Skari skrípó sækir í Skara frænda (Reykjavík-Rotterdam – 2008)

Spennutryllirinn Reykjavík-Rotterdam var með vinsælustu myndum á Íslandi árið 2008. Myndin er samstarfsverkefni þeirra Baltasars Kormáks, Arnaldar Indriðasonar og Óskars Jónassonar (Skara skrípó). Það eru fáir sem ekki taka undir að tæknivinnsla hafi verið vönduð og keyrsla myndarinnar brött, en í samhengi hins stóra markaðar er þessi tryllir aðeins dropi í hafið. Þetta kom meira að segja í ljós þegar myndin var endurgerð fyrir bandarískan markað undir nafninu Contraband og gagnrýnendur sögðu söguna vera langsótta, gjarnan ófrumlega og dæmigerða. Óskarinn er kannski ekki alltaf samkvæmur sér sjálfum en það þarf að miða aðeins hærra en að „ásættanlegri spennumynd“ til að Skari frændi finni þig á radarnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife