Listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, betur þekktur sem Odee, hefur staðið í stappi við sveitarfélagið sitt, Fjarðabyggð, vegna listaverkagjafa sinna undanfarin ár. Hann gaf Fjarðabyggð stórt útilistaverk árið 2015, að andvirði 2,5 milljóna króna. Sveitarfélagið tók sér tvö ár til að íhuga málið, en að lokum var gjöfinni hafnað vegna um 600 þúsunda króna kostnaðar við að setja verkið upp. Um mitt ár 2016 gaf listamaðurinn Fjarðabyggð síðan þrjú verk eftir sig sem hann vonaðist til að yrðu sett upp á menningarlegum stöðum í sveitarfélaginu. Af því varð ekki, en nú virðast verkin einfaldlega týnd og það er listamaðurinn ósáttur við.
Umræða um list í almenningsrými hefur verið hávær undanfarna daga. Ekki síst í kjölfar frétta um að Reykjavíkurborg hygðist verja um 140 milljónum króna í að lífga upp á nýtt hverfi, Vogabyggð, með exótískum pálmatrjám í glerhjúpum. Þá greindi Fréttablaðið frá því í vikunni að um 544,6 milljónum króna verði varið í listskreytingar nýbygginga Landspítalans á Hringbraut á næstu árum. Það er um 1% af heildarbyggingarkostnaði. Staðan er öðruvísi í Fjarðabyggð þar sem einn þekktasti núlifandi listamaður svæðisins, Odee, telur bæjaryfirvöld ekki hafa neinn áhuga á að styðja listamenn sína.
„Mér finnst þetta fyrst og fremst sorglegt. Að mínu mati er mikilvægt að sveitarfélög, og þá sérstaklega minni sveitarfélög úti á landi, geri listamönnum sínum hátt undir höfði. Ég hef því gefið Fjarðabyggð nokkur verk eftir mig á undanförnum árum en upplifað algjört áhugaleysi. Eitt verk var afþakkað og núna virðist sem bærinn hafi týnt öðrum þremur verkum eftir mig,“ segir Oddur í samtali við DV.
Eins og áður segir var fyrsta verkið útilistaverk sem listamaðurinn sá fyrir sér að mynda prýða sundlaug bæjarins. „Það velkist um í nefnd í tvö ár. Það fór mikill tími að búa til faglegt regluverk um opinber innkaup á listaverkum. Það lagði víst línurnar í þessum efnum á landsvísu og ég er nokkuð hreykinn af því,“ segir Oddur og hlær. Niðurstaðan var sú að bæjarfélagið afþakkaði gjöfina og vakti sú ákvörðun undrun víða.
Þetta var ekki eina verkið sem Oddur hefur reynt að gefa bænum. Í nóvember 2015 sendi hann þáverandi bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Páli Björgvini Guðmundssyni, tölvupóst og bauðst til að gefa honum tveggja metra listaverk án skilyrða. Erindinu var aldrei svarað en fjórum mánuðum síðar mætti Oddur á bæjarskrifstofuna og afhenti bænum þrjú listaverk að gjöf. Eitt sem var sérhannað fyrir bæjarfélagið. Nú tæplega þremur árum síðar virðast verkin vera týnd.
„Það virðist enginn vita hvar þetta er niðurkomið. Mér finnst þetta sorglegt viðmót til listsköpunar í heimabyggð. Það er ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum hér fyrir austan og því langaði mig til þess að gefa þessi verk til þess að hvetja aðra listamenn til dáða. Að þeir sæju að eitthvað væri í gangi og það væru möguleikar til staðar til þess að leggja þetta fyrir sig,“ segir Oddur.
Hann segist fá mun meiri stuðning frá öðrum sveitarfélögum en sínu eigin. „Ég hef fengið boð um ókeypis vinnustofur og sýningarrými hjá öðrum sveitarfélögum. Þá var ég nýlega ráðinn til vinnu í nágrannasveitarfélaginu, Fljótsdalshéraði, til að sjá um samfélagsmiðla og ýmsa viðburði í menningarhúsi sveitarfélagsins. Ég þarf að flýja mitt bæjarfélag til þess að fá einhvern stuðning,“ segir Oddur.