fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Draugagangurinn sem heltók alla þjóðina: Borð og stólar köstuðust til, rúm hreyfðist og skápar fóru um koll

Fókus
Þriðjudaginn 29. janúar 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vorið 1964 varð mikill draugagangur á sveitabænum Saurum í Austur-Húnavatnssýslu. Málið vakti þjóðarathygli og um tíma héldu fulltrúar frá öllum fjölmiðlum landsins til á staðnum auk Sálarrannsóknarfélagsins, presta og listamannsins Baltasar auk annarra. Og síminn á þessum afskekkta stað þagnaði ekki svo dögum skipti.

Einn af blaðamönnunum sem heimsóttu bæinn á þessum tíma var rithöfundurinn Jökull Jakobsson. Þá daga fór meira fyrir hamagangi af mannavöldum en draugagangi, húsfreyjan þurfti stöðugt að taka símann og fjöldi blaðamanna hélt til á staðnum og beið þess að draugarnir létu aftur á sér kræla.

Viðtal Jökuls við bóndann fjallaði um flest annað en drauga en áhugaverð er lýsing hans á umhverfinu:

„Þarna á Framnesi, þar sem við reikum um grónar hleinar, eru fornir grjótgarðar, fagurlega hlaðnir og leifar af nokkrum steindysum. Munnmæli herma að þar hafi spánskir sæfarar verið dysjaðir, skip þeirra farizt á skerjunum á 14. öld. Fremst á nesinu hafa tveir rekaviðardrumbar verið reistir og þvertré milli þeirra, á því hangir skipsklukka úr kopar. Klukknahringingin lætur kynlega í eyrum blandin sjávarniði og báruskrölti. í rauninni hringir vindurinn þessari klukku til að fæla ránfugl frá æðarvarpinu á sumrin en á morgni sem þessum tekur allt á sig undarlegan blæ þarna við yztu strönd. Þetta er líkast sáluhliði þar sem vindurinn er í hlutverki hringjarans en súgandi bára þylur dauðra manna nöfn og brimið syngur eilífan útfararsöng. Vart er hægt að ímynda sér ákjósanlegra leiksvið fyrir drauga og uppvakninga, hvergi er líklegra að vofur og afturgöngur bregði á leik.“

 

Í grein í Þjóðviljanum sem birtist 1983, eða 19 árum eftir Undrin á Saurum, er farið yfir málið. Þar segir svo um draugaganginn:

Þegar líða tók á mars fóru svo að berast f réttir af undarlegum fyrirbærum á Saurum á Skaga í A-Húnavatnssýslu. Þar köstuðust borð og stólar til, leirtau hrundi útúr skápum, rúm hreyfðist og skápar fóru um koll. Hér gat tæpast verið um að ræða náttúrulegar hamfarir heldur miklu fremur yfirnáttúrulegar. Dögum saman voru blöð og útvarp undirlögð f réttum f rá Saurum, þangað flykktust fréttamenn, forystumenn Sálarrannsóknarifélagsins, miðlar, jarðfræðingar, og veraldleg sem andleg yfirvöld. Hvað var á seyði? Málið lognaðist svo út af jafnskjótlega og það hafði komið upp og hefur aldrei verið upplýst opinberlega. Var um að ræða stórfelldan draugagang eða stórfelldar blekkingar? Kannski fjölskylduharmleikur á afskekktum torfbæ lengst norður á Skaga?

Um tíma var vart um annað fjallað í fjölmiðlum en draugaganginn á þessum afskekkta sveitabæ og fjöldi fjölmiðlamanna hélt til á staðnum. Spænski listmálarinn og teiknarinn Baltasar var einnig kallaður til vegna þess að talið var að draugarnir gætu verið spænskir, það er spænsku skipfararnir sem höfðu verið dysjaðir skammt frá bænum fyrr á öldum.

Fréttaritari Tímans lýsir draugaganginum svo:

„Undrin byrjuðu 18. mars s.l. kl. 1.20 og vaknaði Guðmundur þá við að borð, sem stendur út við stofugluggann, fór á hreyfingu og einn metra fram á gólfið frá glugganum. Borð þetta er gamalt og upprunalega gert með sporöskjulagaðri plötu og renndum fótum.“

Miðillinn varð var við sjódauða enska menn

Um svipað leyti kom sjö manna hópur frá Sálarrannsóknarfélagi Íslands og hélt miðilsfund á bænum. Blaðamönnum var ekki hleypt á fundinn. Lára Ágústsdóttir miðill var meðal þeirra sem sátu fundinn. Taldi hún að hinir framliðnu sem yllu drauganginum á Saurum væru sjódrukknaðir menn. Sagðist hún hafa orðið vör við enskan mann. Svohljóðandi frásögn Láru var birt í Tímanum:

En rétt er við vorum búin að matast og búið að bera af borðum og ætluðum við að fara að fara, en vorum eitthvað að rabba saman, studdi ég olnboganum á borðið. Ég sneri mér að Guðmundi húsbónda, sem sat á sama rúmi en utar. Gegnt honum sat Steingrímur (maður Láru) og Björgvin sonur Guð mundar utar en kona Björgvins á stól. Allt í einu kipptist til þetta borð með mjög hröðum sveiflum, líkast því að einhver bara lyfti því upp með herðunum. Mér brá mjög við og öllum sem inni voru. Mér varð litið á Guðmund og varð hann alveg náhvítur, líkast og það ætlaði að líða yfir hann og samtímis fór ískaldur gustur um baðstofuna.

Blaðamenn sem dvöldust á Saurum þessa daga urðu ekki varir við neinn draugagang. Hins vegar var töluvert ónæði af þeim sjálfum og sumir þeirra voru drukknir. Einnig hringdi síminn látlaust því allir vildu frétta meira af málinu.

Ljósmynd gæti verið vísbending um svindl – en ekki sönnun

Sem fyrr segir hætti draugagangurinn á Saurum fremur snögglega og umræða um málið í kjölfarið. Í yfirlitsgrein Þjóðviljans er ekki lagður neinn dómur á hvað olli þessum viðburðum. Hvort um raunverulega reimleika var að ræða eða hvort brögð voru í tafli af hálfu heimilisfólks, en lengi var orðrómur um að heimasæta á bænum stæði að baki látunum.

Í greininni birtist hins vegar myndin hér að neðan af skáp með leirtaui sem féll fram á gólfið.

Um tildrög myndarinnar og endalok Undranna á Saurum segir í Þjóðviljanum:

Fjöldi mynda birtist í blöðum af húsmunumá Saurum. Svo gerist það að ljósmyndari Alþýðublaðsins er að skoða myndir á filmu hjá sér, sem ekki höfðu áður birst, og tekur þá eftir dálitlu undarlegu. Það er mynd af skápnum með leirtauinu sem datt fram yfir sig. Þessi skápur stendur fast upp við dívaninn sem hreyfðist undir blaðamanni Alþýðublaðsins. Og hvað kemur í ljós á myndinni? Fæti er stutt við skápinn hinum megin. Þessi mynd birtist í blaðinu 24. mars og leiddar líkur að því að draugagangurinn sé allur af mannavöldum án þess að nokkur nöfn séu nefnd. Eftir þetta verður mun hljóðara um málið en áður. í Morgunblaðinu 4. aprfl segir þó að ókyrrleiki mikill sé enn á Saurum og borðið sem mjög hafi komið við sögu sé nú brotið og ekki nothæft lengur. Þá segir í Tímanum 9. apríl að nágrannar hafi slegið þagnarmúr um bæinn og ekki sé unnt að afla frétta þaðan en fyrirbærin haldi áfram. Eftir þetta segir lítt af Sauraundrum í blöðum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk