Stígamót, samtök gegn kynferðisofbeldi hvetja Klaustursmenn til að axla ábyrgð á hegðun sinn í stað þess að kenna áfengisneyslunni um. Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu samtakanna. Þeim er bent á að kynna sér efni síðunnar sjukast.is þar sem minnt er á að aðilar verði að taka ábyrgð á eigin hegðun þegar þeir eru undir áhrifum.
Klaustursmenn hafa verið milli tannana á fólki síðustu mánuði eftir að upptökur sem vörpuðu ljósi á niðrandi orðræðu þingmannanna sex, í garð kollega sinna og fleiri, voru sendar fjölmiðlum í nóvember.
„Þú berð ábyrgð á hegðun þinni undir áhrifum. Áfengi og vímuefni hafa áhrif á dómgreind og hegðun manneskju en þau eru ekki ástæða ofbeldis. Það að vera undir áhrifum afsakar ekki ofbeldisfulla hegðun eða gjörðir sem skaða aðra.“
„Það er mikilvægt að muna að þótt þú sért undir áhrifum endurspegla gjörðir þínar þig sem einstakling.“