fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Palli í Bæjarbíói – „Það sem ég geri, geri ég af ástríðu“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 22. janúar 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlist hefur alltaf verið fyrirferðarmikil í starfi og leik Páls Eyjólfssonar, eða Palla eins og hann er alltaf kallaður, hann starfar í einni vinsælustu hljómsveit síðustu áratuga, er umboðsmaður konungs rokksins og á stóran þátt í öflugu menningarlífi Hafnarfjarðar.

Blaðamaður DV settist niður með Palla og ræddi menningarlífið í Bæjarbíói Hafnarfjarðar, tónlistina, umboðsmennskuna og æskuna í Vestmannaeyjum. 

„Til að svona geti virkað þá þurfa allir að leggja sig fram: rekstraraðilar, bæjarfélagið og samfélagið og það hefur virkað hér og ég myndi segja að starfsemin hér sé sýnidæmi um hvernig sveitarfélög geta með öflugum stuðningi og jákvæðum vilja gert svona með rekstraraðilum,“ segir Palli um Bæjarbíó í Strandgötu í Hafnarfirði, en tvö ár eru síðan hann tók við rekstri hússins, í desember 2016, ásamt Pétri Stephensen. Ég get svo sannarlega þakkað Pétri fyrir að ég er hér í dag því hann lagði hart að mér að koma með sér í að setja líf í Bæjarbíó. Hafði húsið þá verið lokað fyrir almenna viðburði í tæpa tvo áratugi en Kvikmyndasafn Íslands var áður með húsið og var með bíósýningar þar tvisvar í viku. „Árið 2014 var reksturinn boðinn út og þá fékk Lista- og menningarfélag Hafnarfjarðar húsið og var sá hópur brautryðjandi í að húsið var opnað fyrir almenningi og síðan tókum við við árið 2016. Bæjarbúar hafa tekið okkur vel frá fyrsta degi.“

Um 200 viðburðir eru framundan á árinu 2019 og fer viðburðum aðeins fjölgandi, 90 prósent af því eru tónleikar, einnig er þar uppistand, þjónusta við Hafnarfjarðarbæ, eins og stjórnendafundir, bíó, bókahátíð og barnamenningarhátíð, einnig koma grunnskólarnir og félagsmiðstöðvarnar inn með starfsemi á haustin, auk þess sem Flensborg er þar með leiksýningar. „Þetta er Menningarhús Hafnarfjarðar, þannig að það er eðlilegt að bæjarfélagið hafi forgang.“

Bæjarbúar hafa tekið rekstri Bæjarbíós í höndum Palla vel frá fyrsta degi

Mathiesen stofa kærkomin viðbót

Mikil breyting varð á húsinu í byrjun desember þegar Mathiesen stofa var opnuð í húsinu við hliðina, hinu víðfræga Mathiesen húsi, þar sem fyrsta deildaskiptaverslunin var. „Þessi viðbót við húsið var algjörlega nauðsynleg strax frá upphafi. Bæjarbíó er frá árinu 1945 og er friðað þannig að þar má engu breyta, það vantaði aukna salernisaðstöðu og aðstöðu fyrir fólk til að setjast niður, fyrir og eftir viðburði. Við sjáum að fólk kemur núna fyrr og situr líka á eftir, við lokum samt alltaf á miðnætti.

Okkur ber að taka ábyrgð á að það sé í lagi með húsið og það gerum við meðal annars með því að vera ekki með opið fram á nótt. Eina sem má breyta eru hlutir sem eru afturkræfir, eins og að koma upp hurð milli húsanna, en það var eftir ströngum fyrirmælum og eftirliti arkitekta, það var passað vel upp á það. Við erum í góðu sambandi við minjavörðinn í Hafnarfirði og gerum ekkert hér við húsið, nema spyrja leyfis áður.“

Mathiesen stofa er frábær viðbót.

Stjörnum prýdd gata og Hjarta Hafnarfjarðar

„Við erum á þeim stað núna sem við ætluðum að vera á eftir fimm ár og eitt markmiðanna var að vera með 200 viðburði á ári, sem er að ganga eftir núna á þriðja árinu okkar. Við ætlum einnig að fara að framleiða sjálf nokkra viðburði. Og síðan erum við með nýtt verkefni, Stjörnur íslenskrar tónlistar, fyrstu „Hall of Fame“-götuna á Íslandi, þar sem lagðar verða stjörnur í götuna fyrir framan húsið,“ segir Palli.

Stefnan er að leggja niður eina stjörnu á ári, en í ár verða settar niður 2–3 til að koma mynd á verkefnið. Ekki er opinbert enn hvaða listamaður fær fyrstu stjörnuna, en eins og Palli segir: „Ég tel það augljóst að við byrjum á Björgvini Halldórssyni, sem er stærsti tónlistarmaður Hafnarfjarðar fyrr og síðar, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum.

Fyrir tveimur árum byrjuðum við með umfangsmikið langtímaverkefni, sem heitir Hjarta Hafnarfjarðar, sem er bæjar- og tónlistarhátíð, sem við erum að þróa hér í húsinu með bænum. Ég hef búið í Hafnarfirði frá árinu 2006 og það er með ólíkindum að hér sé engin bæjarhátíð.“

Árið 2017 var byrjað smátt með tveggja daga hátíð, í fyrra var hún lengd í fjóra daga, götunni lokað fyrir framan húsið og tjald sett upp á móti húsinu, þar sem veitingastaðirnir Krydd og Tilveran buðu upp á mat, og tónleikum í Bæjarbíói var varpað á skjá í tjaldinu og útitónleikar voru í boði eftir að tónleikum inni í húsinu lauk. Í ár verður hátíðin í viku og færð framar í sumarið, í júlí.

„Við finnum að það er mikill áhugi fyrir þessu verkefni.

Við stefnum á, þetta árið, að taka á móti 50–70 þúsund manns og það hefur gríðarlega góð áhrif út í samfélagið á svo margan hátt að eiga svona miðju, að eiga svona hjarta sem dregur marga í götuna, þetta hefur svo mikið vægi fyrir þjónustuaðila, veitingaaðila, ekki bara okkur, heldur alla í kringum okkur,“ segir Palli. „Á næstu fimm árum er ég að vonast til að Bæjarbíó verði eitt risastórt samfélagslegt hjarta í Hafnarfirði, sem tekur á móti alls konar menningu, viðburðum og uppákomum og verði styrkur út á við fyrir svo margt annað í þjónustu og samfélaginu. Og við horfum á að eftir fimm ár verði Hjarta Hafnarfjarðar, sem byrjaði sem 800 manna hátíð, orðin að 30 þúsund manna hátíð, sem er íbúafjöldi Hafnarfjarðar. Ég horfi björtum augum til næstu fimm ára í Hafnarfirði.“

Tilvalið er að mæta tímanlega og tylla sér niður fyrir viðburði.

Lífið með Pöpum – Hljómsveit í meira en 30 ár

„Bara strákur úr Vestmannaeyjum,“ svarar Palli, aðspurður hver hann sjálfur er. Þar er hann fæddur árið 1966 og uppalinn. „Það var dásamlegt að alast upp í Eyjum, mikið frelsi og nóg að gera og þaðan á ég ótal minningar.“

Í Eyjum byrjaði Palli að sýsla við tónlistina, þrátt fyrir að foreldrar hans hafi lítið verið í tónlist. „Pappi var djassunnandi og einn af frumkvöðlum djasshátíðar um hvítasunnuna í Eyjum, „Dagar lita og tóna“, og mamma spilaði á gítar og var í kirkjukórnum,“ segir Palli. Hann byrjaði að læra á blokkflautu og fór aðeins í píanónám og segist hafa alist upp við tónlistina frá níunda áratugnum. „Við fengum gott tónlistarlegt uppeldi hjá Ragga Sjonna, sem var með plötubúðina í Eyjum, maður keypti 1–2 plötur í viku og hann var duglegur að halda að okkur músík. Hermann Ingi, vinur minn og hljómsveitarmeðlimur Papanna, kynnti Bob Dylan, Simon og Garfunkel, síðan fyrir mér – þetta folk-dæmi.“

Palli kláraði grunnskóla og flutti til Reykjavíkur strax eftir níunda bekk. Árið 1986 stofnaði hann hljómsveitina Papa ásamt Hermanni Inga Hermannssyni, söngvara í Logum, og Georg Ólafssyni. Mannskapurinn hefur breyst í gegnum árin, Ingvar Jónsson hætti sem söngvari um aldamótin og Matti Matt kom inn í staðinn. „Við spiluðum alltaf ofboðslega mikið, fjögur kvöld á hverjum stað í hverri viku, stundum yfirgaf maður varla miðbæinn í heilan mánuð. Upp úr aldamótum áttum við nokkur risastór ár, gáfum út plöturnar Riggarobb og Þjóðsögu og báðar urðu platínuplötur á sama árinu. Í dag koma Papar fram nokkrum sinnum á ári, meira bara til að halda í félagsskapinn.

Þetta verður eins og allt annað í lífinu, þetta verður venjulegt,“ svarar Palli, aðspurður hvernig hafi verið að vera svona eftirsóttur og í mikilli keyrslu líkt og Paparnir voru. „Þetta verður bara rútína og hluti af manni, á tímabili gerðum við ekkert annað en þetta. Þetta var rosagaman og er enn, annars væri ég hættur því.“

Alþýðuhúsið í Vestmannaeyjum

Ræturnar í Eyjum ollu því að Palli, ásamt öðrum, festi kaup á Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum og var ráðist í gagngerar endurbætur og húsið opnað í byrjun október árið 2018 með tónleikum Bubba og DIMMU. „Þegar þetta tækifæri kom þá sáum við að þetta hefur mikil samlegðaráhrif og er ótrúlega gaman. Alþýðuhúsið er menningarhúsið í Eyjum, líkt og Bæjarbíó í Hafnarfirði, það er eldra, byggt árið 1927 og í báðum húsum eiga þrjár kynslóðir minningar um böll, bíó, tónleika og myndlistarsýningar, og í Eyjum, Lundaböllin. Við höfum sama metnað fyrir húsinu, og vinnum eftir sömu stefnu og í Bæjarbíói. Þar er framundan metnaðarfull dagskrá og gaman að sjá hvað Eyjamenn hafa tekið vel í þetta.

Við leggjum upp úr því að aðstaða listamanna sem til okkar koma sé góð, fullkomin tæki og tól og að listamenn geti komið án þess að bera allt með sér. Við horfum til þess hvernig Haukur á Græna hattinum á Akureyri hefur gert hlutina, hann er algjör snillingur og við eltum þá stemningu. Hann hugsar einstaklega vel um listamennina.“

Palli er með mörg járn í eldinum og svona má oft sjá hann, í símanum að skipuleggja. Mynd: Einar Bárðarson.

Umboðsmennskan og samstarfið við Bubba

Palli hefur ekki bara verið hljómsveitarmeðlimur Papanna, því hann hefur ávallt verið beggja vegna borðsins, sem meðlimur og umboðsmaður sveitarinnar. Og í gegnum tíðina hefur hann verið umboðsmaður fjölda hljómsveita og tónlistarmanna, þar á meðal konungs rokksins, Bubba. „Í dag er ég bara umboðsmaður minnar sveitar og Bubba, sem er stórt og mikið starf á ársgrundvelli, en ég tek að mér verkefni fyrir fjölda listamanna og vinn mikið heildrænt fyrir fyrirtæki, en fyrst og fremst rek ég Bæjarbíó.“

Árið 1999 stofnaði Palli umboðsskrifstofuna Promo, ásamt Tómasi Tómassyni. „Þá hafði ekkert svona verið til þannig að við byrjuðum á að vera umboðsmenn vel flestra hljómsveita, svo þegar við vorum búnir að vera það í smátíma þá tókum við að okkur að sjá um ballstaðina og réðum inn allar sveitir þar, gerðum auglýsingapakka og allan fjandann,“ segir Palli. Árið 2002 skildi leiðir og Palli stofnaði eigin umboðsskrifstofu, Prime, sem hann á enn í dag. „Í kjölfarið var ég með töluvert af hljómsveitum, en eftir því sem tíminn leið þá fór ég að draga úr því og fór meira í verkefnavinnu.“

Aðspurður af hverju listamenn þurfi umboðsmann, segir Palli að þeir þurfi oft hagsmunagæsluaðila sér við hlið. „Fjármál eru ekki endilega fremst á listanum hjá þeim, og oft ekki þeirra sterkasta hlið, þeir eru svo uppteknir í sköpuninni og þurfa pláss til að skapa. Svo er oft erfitt að semja fyrir sjálfan sig. En margir sjá um þetta sjálfir og gera það mjög vel.“

Hvernig er samstarfið við Bubba?

„Samstarf okkar Bubba hefur alltaf haldið og það er engin tilviljun að hann er stærstur, hann hefur svo mikla yfirburði á svo mörgum sviðum. Það er gott að vinna fyrir hann, hann ber svo fullkomið traust til samstarfsins, það gera ekki allir, og það er aðdáunarvert að sjá hvað hann er öflugur í að velja sér samstarfsfólk. Hann er óhræddur við að taka áhættu, frjór og skapandi, það er gríðarlega skemmtilegt að vinna með svoleiðis fólki. Þegar tíminn líður þá mun Bubbi vera á hillu með Laxness bókmenntanna og Kjarval myndlistarinnar, hann er það stór. Svo hefur samstarf okkar þróast, með okkur hefur myndast fóstbræðralag og dýrmæt vinátta.“

Samstarf og vinátta Palla og Bubba hefur verið farsæl í mörg ár.

Edrúmennskan langbesta ákvörðunin

Palli hefur verið óvirkur í 20 ár, en hann fór í meðferð árið 1999. „Ég held að maður velji sér ekki tíma til að fara í meðferð, allavega var það ekki þannig í mínu tilviki. Stundum er talað um að maður nái botninum, minn var að tveir vinir mínir fóru í meðferð, sem ég skildi ekki þá, þar sem ég var sjálfur að nota mun meira. Þarna varð ég pínu einn eftir og hugsaði að ég gæti eins farið í meðferð eins og fara til Kaupmannahafnar að dópa eins og ég gerði undir það síðasta, því ég var búinn að reyna að sannfæra annan af þessum edrú vinum mínum, og mig þá meira um að ég væri hættur að dópa á Íslandi

Ég var lengi búinn að leita að ástæðu þess að ég var eins og ég var. Ég vissi að það var eitthvað að mér, en ég vissi ekki að ég ætti í erfiðleikum með áfengi og önnur eiturlyf, eins og kom svo í ljós. Þegar ég rankaði við mér eftir einhverja daga á Vogi þá var ég rosalega feginn að vita loksins hvað var að mér, þó að margir hefðu sagt mér það í mjög mörg ár. Ég var alkóhólisti og það var rosalegur léttir að komast loksins að því. Edrúmennskan er ferðalag sem er geggjað, einn dag í einu, og hefur gefið mér mikið.

Það fylgir oft tónlistarlífinu að drekka, og sérstaklega áður fyrr, þetta er öðruvísi í dag. Það er ekkert mál að vinna í þessum bransa innan um fólk sem er að drekka, löngunin í áfengi var algjörlega tekin frá mér og maður breytir bara aðferðafræðinni, er ekki jafn mikið innan um næturlífið og áður, maður gerir ekki ákveðna hluti, ég er ekki úti á nóttunni. Ég er svolítið búinn að fara á djammið, ég hef gríðarlega reynslu af djamminu og stundaði það mjög lengi og ég er bara að gera annað í dag. Edrúmennskan er langbesta ákvörðun sem ég hef tekið í mínu lífi.“

Er tími fyrir eitthvað annað en vinnuna?

„Já, ég hef gaman af laxveiði, en geri minna af því en áður. Ég ferðast og geri það mikið og svo eru Papar áhugamálið í seinni tíð. Fyrir þremur árum fór ég að iðka jóga og það breytti aftur lífi mínu. Ég hafði aldrei losnað við inngróinn ótta og kvíða eftir neysluna, en jógað er það fyrsta sem ég hef fundið sem slekkur á því. Ég varð svo hugfanginn af þessu andlega ferðalagi að ég tók 200 tíma jógaréttindi fyrir tveimur árum.

Ég er að skapa með því að gera það sem ég er að gera, búa til viðburði, fylgja þeim eftir og vera í sambandi við listamennina. Mér finnst ég aldrei vera í vinnunni af því að það sem ég er að gera, er ég að gera af ástríðu og af því að ég elska það.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“
Fókus
Fyrir 3 dögum

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu