Margir hafa tekið þátt í 10 ára áskorun Facebook-samfélagsmiðilsins undanfarna daga, með oft og tíðum skemmtilegum árangri, sumir breytast mikið á þessum 10 árum og aðrir ekkert.
Atli Steinn Guðmundsson, prófarkalesari og fréttaritari MBL.is í Ósló, birtir í dag færslu á Facebook þar sem hann segir að honum þyki áskorunin þunnur þrettándi. „Fæstir breytast mikið á tíu árum, nema á fyrstu 20 árum ævinnar,“ skrifar hann.
Bætir hann síðan um betur og birtir 33 ára áskorun, þar sem fyrsta myndin er af honum 12 ára haustið 1986 og sú nýjasta af honum 38 ára í júní 2012. „Ég vísa í nýlegar myndbirtingar hér á bókinni,“ segir hann með myndir eftir árið 2012.
Færsluna og myndirnar má sjá hér fyrir neðan:
Nýjasti Facebook-faraldurinn, hin svokallaða 10 ára áskorun, þykir mér þunnur þrettándi, fæstir breytast mikið á tíu árum nema á fyrstu 20 árum ævinnar svo munurinn er í fæstum tilfellum annað en tilfærslur hárs (og skeggs hjá þeim er það sprettur). Ég ætla því að bæta um betur og splæsa hér í mína eigin 33 ára áskorun fyrir utan að mynd frá 2019 vantar en ég vísa í nýlegar myndbirtingar hér á bókinni. Þessar myndir eru eftirfarandi:
1) Haust 1986 – 12 ára nemandi í 7. bekk Garðaskóla, mynd í nemendaskírteini.
2) Vor 1993 – 19 ára. Mynd í fullnaðarökuskírteini með gildistíma til sjötugs. Annað eintak af henni prýðir enn það ökuskírteini.
3) September 1994 – 20 ára. Mynd í mitt fyrsta vegabréf fyrir mína fyrstu utanlandsferð síðan ég var 11 ára.
4) 12. janúar 1998 – 23 ára. Mynd með einhverri atvinnuumsókn minnir mig.
5) 26. júní 2000 – 26 ára. Mynd í starfsmannaregistur Morgunblaðsins.
6) 15. júlí 2003 – 29 ára. Mynd á debetkort Kaupþings-Búnaðarbanka eða hvað í fjandanum það var sem Búnaðarbankinn hét 2003.
7) 10. ágúst 2004 – 30 ára. Passamynd, tilgangur óskráður.
8) 8. júní 2005 – 31 árs. Mynd fyrir næsta vegabréf á eftir þessu frá 1994.
9) 10. júní 2010 – 36 ára. Mynd í starfsmannaregistur Háskólasjúkrahússins í Stavanger.
10) 25. júní 2012 – 38 ára. Mynd í nýtt ökuskírteini sem ekki var lengi í notkun þar sem ný var tekin fyrir norskt ökuskírteini í febrúar 2013.
Já…maður hefur bara ekkert breyst þannig lagað.