Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira.
Nú gengur áskorun á samfélagsmiðlum þar sem fólk á að birta myndir af sér fyrir 10 árum og síðan í dag.
Naglinn hoppaði á vagninn og gróf upp gamla frá 2009.
Þessi mynd er tekin rétt eftir fitnessmót þar sem Naglinn bætti á sig 15 kg á 3 mánuðum enda var grunnbrennslan í lamasessi eftir óheilbrigða nálgun á mótsundirbúning.
Horaðir snæðingar. Hvítur fiskur. Slefað á þrekstiga.Hvert einasta atóm af mat varð umsvifalaust fóður fyrir fitufrumur eftir þessa útreið á skrokkinn.
Árið 2009 var sambandið við mat vægast sagt brenglað.
Stífar mataræðisreglur í hávegum hafðar og matseðillinn frá mánudegi til föstudags einhæfari og leiðinlegri en Alþingisumræður um aukningu þorskkvóta.
Þessu meinlætalífi fylgdu óhjákvæmileg ofátsköst á Richterskala á laugardögum.
Lóðrétt í pizzakassann, brauðstangir og aukadýfa og úttroðinn Nammilandspoki í desert.Það var jú nammidagur og þá telja kaloríur ekki.
Það tók tvö ár að vinna úr lamaðri grunnbrennslu og fá líkamann til að vera samstarfsfús í að losna við fitu og byggja upp vöðva.
Það tók mörg ár og sveitta vinnu að öðlast hugarró í kringum mat og treysta sjálfri sér í kringum ákveðin matvæli.
Í dag borðar Naglinn eftir eðlishvöt og leyfir svengd og seddu að stýra fjölda og stærð máltíða en ekki ytri reglum eða klukkunni.
Nærir sig í núvitund með að borða hægt og njóta matarins.
Í dag eru engin matvæli bönnuð… nema kóríander… og engifer.
Í dag er súkkulaði knúsað reglulega á tungunni í heilagri stund.Kortér í fertugt er Naglinn í miklu betra líkamlegu formi en fyrir tíu árum.
Planið er að vera í enn betra formi um fimmtugt og rífa ennþá í járn, beygla stangir og hoppa á kassa.
Komdu bara með árin…. Naglinn tekur þeim fagnandi.