Önnur þáttaröð Ófærðar hefur haldið Íslendingum í heljargreipum undanfarin sunnudagskvöld. Eins og áður sýnist sitt hverjum um gæði þáttanna, sérstaklega handritsgerð og hljóðvinnslu, en allir eru greinilega að horfa. Á ritstjórn DV er helst kvartað yfir því að þættirnir séu ekki settir allir í einu á netið svo hægt sé að hámhorfa í anda Netflix.
Margir af þekktustu leikurum þjóðarinnar, eins og Ólafur Darri Ólafsson, Ingvar E. Sigurðsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, láta ljós sitt skína í þáttunum. Þá vekur athygli að fjölmörg „leikarabörn“ eru í burðarhlutverkum þáttaraðarinnar og ekki síst ættbogi leikstjórans sjálfs, Baltasars Kormáks. Þrjú barna hans fara með stór hlutverk í þáttunum.
Stormur Jón Kormákur Baltasarsson fer með hlutverk Arons Finnssonar og gerir það vel eins og hann á kyn til. Stormur Jón er aðeins 16 ára gamall en hann er sonur Baltasars Kormáks og Lilju Pálmadóttur. Hann er ekki alveg ókunnugur linsunni en Stormur Jón hefur tekið að sér smærri hlutverk í öðrum verkum föður síns, stórmyndinni Everest og Reykjavík-Rotterdam.
Baltasar Breki Samper fer með hlutverk Hjartar Stefánssonar öðru sinni. Persóna Hjartar gegndi veigamiklu hlutverki í fyrstu seríunni en er, að minnsta kosti enn sem komið er, í bakgrunni í þeirri nýjustu. Baltasar Breki er sonur Baltasars Kormáks og Ástrósar Gunnarsdóttur. Hann útskrifaðist sem leikari úr Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan verið fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu.
Sóllilja Baltasarsdóttir fer með hlutverk Karólínu í Ófærð 2. Hlutverkið er ekki veigamikið en Karólína er björgunarsveitarkona sem sem tekur þátt í leit að grunuðum einstaklingi. Sóllilja, sem heitir fullu nafni Ingibjörg Sóllilja, er dóttir Baltasars og Dísu Anderiman. Hún hefur ekki látið mikið fyrir sér fara fyrir framan myndavélina hingað til en listræn er hún því hún hefur meðal annars getið sér gott orð sem ljósmyndari.
Sigurbjartur Sturla Atlason fer með hlutverk fúlmennisins Skúla Ketilssonar. Sigurbjartur er sonur Atla Rafns Sigurðssonar leikara. Sigurbjartur útskrifaðist sem leikari frá LHÍ fyrir tæpu ári og lék meðal annars veigamikið hlutverk í stórmyndinni Lof mér að falla eftir Baldvin Z. Hann hefur þó ekki síður getið sér gott orð sem tónlistarmaður undir listamannsnafninu Sturla Atlas.
Arnmundur Ernst Backman Björnsson fer með hlutverk Stefáns. Arnmundur átti aldrei séns á öðru en að verða leikari en hann er sonur leikaranna Björns Inga Hilmarssonar og Eddu Heiðrúnar Backman heitinnar. Þess má geta að faðir hans, Björn Ingi, fer með hlutverk bóndans Sturlu í þáttunum. Arnmundur útskrifaðist sem leikari frá LHÍ árið 2013 og hefur síðan tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði og hvíta tjaldinu.
Það er kannski full langt seilst að flokka Sólveigu Arnarsdóttur, hina reyndu leikkonu, sem leikarabarn en hún er það nú samt! Sólveig, sem fer með hlutverk iðnaðarráðherrans Höllu, er dóttir stórleikarans Arnars Jónssonar og leikarans og ekki síður leikstjórans Þórhildar Þorleifsdóttur. Það myndi æra óstöðugan að reyna að telja upp öll þau verk sem Sólveig hefur komið að á sínum ferli.